Unglæknir mannast
Ég var svo heppinn í ársbyrjun að vera boðið að sjá meistaraverk Akira Kurosawa, Rauðskegg (Akahige) en hún var frumsýnd árið 1965 og var seinasta myndin þar sem Kurosawa vann með hinum stórkostlega Toshiro Mifune sem leikur téðan rauðskegg (án þess að það skipti miklu máli þar sem myndin er svarthvít). Myndin er gerð eftir smásagnasafni Shugoro Yamamoto (1903–1967) og það sést á henni að þetta er þætt saga en þó haganlega. Fléttan er sú að ungur hrokafullur læknir og metnaðargjarn að nafni Yasumoto ræður sig á heilsugæslu í fátækrahverfi í Edo þar sem yfirlæknirinn dr. Niide gengur undir heitinu „rauðskeggur“ og þykir hryssingslegur og óvæginn. Er þó skemmst frá því að segja að hann sýnir Yasumoto aldrei þá hlið heldur er elskulegur við hann frá upphafi, þrátt fyrir langt unglingaveikiskast Yasumotos sem meðal annars lýsir sér í því að hann klæðir sig ekki í læknabúninginn fyrr en í miðri mynd.
Þetta er vissulega þroskasaga Yasumotos og minnir kannski að einhverju leyti á Dýrin mín stór og smá sem var vinsæll sjónvarpsþáttur í bernsku minni og nú aftur í seinni tíð. Til eru gagnrýnendur sem hafa kallað Rauðskegg sápuóperu, kannski vegna þess að hún fjallar um lækna. Það eru þó önnur og meistaralegri tök á efninu en í öllum þeim ágætu læknaþáttum sem ég ólst upp við (einn hét Læknir í vanda og var sýndur snemma á laugardagskvöldum) og menn mega ekki láta umhverfið villa sér sýn. Ekki heldur þó að um miðbik myndarinnar sé bardagaatriði eins og úr besta vestra þar sem Toshiro afgreiðir tug bandítta og nýtir m.a. læknakunnáttu sína í að brjóta í þeim útlimina. Þá eru hann og hinn ungi skjólstæðingur hans staddir á pútnahúsi þar sem þeir bjarga smámey einni og eru það óneitanlega hvörf í myndinni. Stúlkan lærir í kjölfarið að meta mannkynið með því að vera hjúkrað og ekki síður með því að hjúkra sjálf. Eins áttar hinn ungi Yasumoto sig á því hvað hann var lítilsigldur í upphafi myndar og iðrun hans er enginn hálfvelgja þannig að hann endar með háan hita.
Sjálfur Rauðskeggur er fyrst eins og aukahlutverk en hann drottnar þó yfir myndinni og Mifune sýnir tök sín á hógværum leikstíl. Dr. Niide er ekki aðeins liðtækur að lúskra á bandíttum heldur segir hann hégómlegu fólki og yfirstéttarpakki reglulega til syndanna og nýtur þar menntunar sinnar og þess menningarauðmagns sem hún færir. Einn skjólstæðingur mátar hann þó eiginlega í heimspekilegum samræðum um hvaða gagn læknar geri eiginlega og þá sýnir Rauðskeggur þá skynsemi að þrátta ekki. Þrátt fyrir upphaflegan mótþróa er Yasumoto brátt orðinn gapandi aðdáandi hans og í lok myndarinnar fellst hann að vísu á að giftast stúlkunni sem foreldrar hans hafa valið honum en neitar að verða læknir shogunsins og vill heldur vinna í fátækrahverfinu eins og dr. Niide sem skammar hann fyrir flónskuna en þykir það kannski ekki eins leitt og hann lætur.
Hvað get ég sagt um list Akira sem ég hef ekki sagt áður í athugasemdum mínum á þessari síðu? Hann er eins og Hitchcock, hefur frábært auga, er alltaf með magnaða tónlist (fremur evrópskinnblásna) og hefur meistaralegt vald á söguþræði þannig að manni finnst kvikmyndirnar alltaf vera nákvæmlega eins langar og þarf, hvort sem þær eru tveir tímar eða þrír (Rauðskeggur er ein af þeim lengri). Lengi hélt hann tryggð við svarthvíta stílinn og kunni flestum betur á að nýta kontrapunktinn í honum. En þeim mun meiri litagleði ríkti þegar hann tók litinn að lokum í sína þjónustu. Akira hefur einstakt vald á að leikstýra börnum og ungmennum, nokkur slík leika í Rauðskegg og eru eftirminnileg. Eins hefur hann talsvert vald á aukapersónum sem gleður mig sérstaklega eins og allir vita sem þekkja mig vel. Í stuttu máli er ég nú orðinn engu minni aðdáandi Akira en sjálfs Alfreðs og er þá langt til jafnað.