Saga af hengingu

Það hlýtur að teljast gott eða jafnvel frábært fyrir íslenskt bókmenntalíf að fá næstfrægasta skáldverk snillingsins vel siglda Herman Melville (1819-1891) á íslensku en hún kom út í fyrra í þýðingu Baldurs Gunnarssonar og rataði brátt í mína eigu. Þýðingin er sennilega afar trygg frumtextanum því að bæði orðaval og setningaskipan eru í knosaðri kantinum eins og mig minnir að texti Melvilles sé; ég hafði áður gert nokkrar atlögur að Billy Budd á frummálinu en þessi þýðing kom mér sem sagt endanlega í mark. Hún er afar fræðileg með mörgum neðanmálsgreinum og löngum formála sem gæti samt vel verið enn lengri því að svo mikið er um verkið að segja og auðvitað Melville sjálfan, að ekki sé minnst á sjóferðabókmenntir 19. aldar sem þýðandinn er sérfróður um.

Þegar hann samdi þessa nóvellu undir lok ævinnar hafði Melville einbeitt sér að ljóðlistinni um langt skeið og hann lauk raunar ekki við söguna til útgáfu. Bókin kom ekki út fyrr en árið 1924 en þá með talsverðum lúðrablæstri og hefur jafnan verið talin næstbesta verk meistarans síðan, næst á eftir sjávarspendýrinu mikla. Ólíkt styttri er hún og næstum módernísk í frásagnarhætti auk þess sem merkingin er fjarri því að vera auðmelt. Söguheimurinn er skipið þar sem völd yfirmanna eru alger og refsingar harðar, einkum fyrir 1850 en þær urðu talsvert mildari á þeirri hálfu öld sem leið frá atvikinu sem varð innblástur Melvilles uns hann samdi söguna; það var nær örugglega þegar hinn kornungi Philip Spencer (19 ára) var sakaður um uppreisnarhug og hengdur ásamt tveimur öðrum á skipinu Somers árið 1842. Frændi Melville var á því skipi og vitni að aftökunni sem eflaust hefur snert hann djúpt. Spencer var ungur og fallegur líkt og sjóliðinn Billy í sögunni en ef til vill ekki jafn einfaldur og hjartahreinn og a.m.k. ekki jafn tryggur skipstjóranum.

Þrjár aðrar persónur skipta máli í sögunni: skipstjórinn Vere, vopnameistarinn Claggart og hinn aldni og vísi „danskur” sem Billy leitar til um ráð (en deila má um hvort þau séu góð). Flétta sögunnar snýst um að ófétið Claggart tekur að leggja fæð á Billy e.t.v. vegna ófullnægðra fýsna sinna og sakar hið fagra ungmenni ranglega um uppreisnarhug. Billy er stamari og getur ekki svarað fyrir sig í orði. Hann slær því Claggart og banar honum fyrir algera slysni. Fyrir þetta er hann hengdur nánast samstundis og stendur Vere fyrir þessari skyndiaftöku þrátt fyrir hlýjan hug til hins unga sjóliða sem biður Guð óvænt að blessa skipstjórann áður en hann er festur upp. Þessi lokaorð verða minnisstæð og hafa djúpstæð áhrif á alla viðstadda. Melville mun hafa ætlað sögunni að verða innlegg í umræðu um dauðarefsingu sem var eins og áður sagði á undanhaldi undir lok 19. aldar.

Sagan er líka oft skilin sem hómóerótísk vegna áherslu hennar á æsku og fegurð Billys og vitaskuld því að öfund Claggarts og afbrýðisemi eru aldrei skýrð frekar. Víst er að hún heillaði tónskáldið Benjamin Britten (1913-1976) sem samdi óperu upp úr henni í félagi við sjálfan E.M. Forster og árið 1962 var hún kvikmynduð og gerði hinn unga Terence Stamp frægan. Ekki verður framhjá því litið að sagan snýst um sambönd karlmanna í kvenmannslausu umhverfi og er greinilega að reyna að tjá eitthvað um öfund og sakleysi. Claggart er greinilega fulltrúi illskunnar þó að hann fari dult. Mér fInnst þessi holdgervingur siðleysisins og girndarinnar fremur óþægileg persóna en Melville hefur vonandi séð sjálfan sig frekar í skipstjóranum göfuga sem stendur fyrir aftöku Billys fyrir hið slysalega manndráp. Ekki finnst mér jafn augljóst að Billy sé heilagur einfeldingur í anda Dostójevskís þó að sannarlega skorti ekki biblíuvísanir og kristilegt myndmál í söguna. Dauðarefsingin stafar ekki af illsku Vere heldur er hún skylda og kannski vill Melville einmitt draga fram vonsku hennar með því að láta Billy vera öldungis saklausan. Mér sjálfum hefði nægt minna.

Previous
Previous

Unglæknir mannast

Next
Next

Siegfried ungi og nornirnar