Siegfried ungi og nornirnar

Í stækasta svartamyrkrinu fyrir jól ákvað ég að gefa mér sjálfum aðventugjöf og réttlæta um leið fremur þrjóskulega, allt of langæja og illa nýtta áskrift mína að Amazon Prime og horfa á Hjól tímans (The Wheel of Time), 16 þætti í tveimur syrpum sem grundvallaðir eru á mammútakynjaðri sögu kjarneðlisfræðingsins Roberts Jordan (1948–2007) í einum fjórtán bindum og er kölluð Hjól tímans. Upphaflega komu bækurnar út 1990-2005, hinstu þrjár síðan að Jordan látnum 2009-2013 en dugnaðarforkurinn Brandon Sanderson (f. 1975) lauk þeim að forskrift Jordans. Ég man vel eftir þessum bókum úr bókabúðum forðum daga; rómönsulegar kápurnar minntu stundum á ástarsögusíður Familie-Journalen fyrir hálfri öld, gáfu miðaldir sterklega til kynna og einhvern veginn vorum við öll og þar á meðal pabbi heitinn, fantasíugúru fjölskyldunnar, sannfærð um að þetta væri hin snautlegasta Tolkien-eftirherma. Annað segja mér aftur á móti vinir mínir sem eru handgengnir bókaflokknum og ég kann ekki við að deila við þá með fordómafullt snobbið eitt að vopni. Sannarlega var Jordan hamhleypa til skrifta, bækur hans i flokknum voru oftast 250-400 þúsund orð og að sögn komust sölutölurnar upp fyrir 100 milljón en Arnaldur okkar hefur nýlega rofið 20 milljóna múrinn og ef vinsældir jafngilda gæðum eins og ætla mætti af íslenskum fjölmiðlum og samfélagsmiðlum er Jordan sennilega betri höfundur en allir hinir íslensku samanlagt. En jafnvel þó að maður sé að eðlisfari luddíti frá 19. öld og skrifi ekki undir slíka verðleikatalningu hljóta bækur Jordans að hafa eitthvað sér til ágætis og sjónvarpsþættirnir héldu mér sannarlega við efnið í viku.

Fyrir utan þær ágætu nýju kvikmyndir Dune (Villeneuve-gerðina) er ekki til siðs að leyfa fantasíuáhorfendum að komast sjálfir hægt og rólega að því ásamt sjálfum persónunum sögunnar — sem staddar er í hringiðu atburða með takmarkaða yfirsýn — um hvað fléttan snýst þó að reglan sé iðulega sú í skáldsögunum þannig að þessir þættir hefjast á kynningu sem að vísu eyðir ekki allri dulúð og síðan er farið í þorpið þar sem fjögur ungmenni búa sem gætu verið drekinn endurfæddur (eða kannski lisan al-gaib?), persóna sem mun koma reglu á máttinn eða lögmálið eða hvað þetta heitir allt í þetta sinn — hliðstæðurnar við Dune og Stjörnustríð og jafnvel Harry Potter eru augljósar. Þessi fjögur (og sú fimmta sem virðist einnig koma til greina þó að hún sé ekki fædd á þeim degi sem von var á drekanum) flæmast af heimaslóðum sínum strax í fyrsta þætti og eru síðan á ferð eða flótta um heiminn, hvert í eigin leiðangri, að einhverju leyti studd af tveimur vitkum, annars vegar norn sem leikin er af Rosamund Pike og hins vegar hjálparmanni hennar sem leikinn er af sjónvarpsleikaranum Daniel Henney. Þau sameinast síðan í lok annarrar syrpu í lok mikils bardaga. Þetta eru semsé sjö aðalpersónurnar og heita Rand al’Thor, Mat Cauthon, Perrin Aybara, Ewgene al’Vere, Nynaeve al’Meara, Moraine Damodred og Lan Mandrogan. Þetta er ansi dæmigert fantasíunafnaval en að minnsta kosti skárra en Lucas-nöfnin Darth Vader, Darth Maul og Darth Sidious (hér vantar bara Darth Bad) eða þá Duncan Idaho hjá Frank Herbert. Þau fimm fyrstu eru ungmennin sem eru grunuð um að vera drekinn endurborni en Moraine og Lan eru hjálpahellurnar. Ráðgátan er kannski ekki mjög torleyst, eina persónan sem er hin ljósa hetja eins og Siegfried hinn kunni drekadrápari forðum reynist vera hinn útvaldi (leikinn af hinum hollensk-pólska Josha Stradowski), næstum eins og Bláskjár endurborinn.

Líklega er þessi endursögn þegar orðin allruglandi enda fer mörgum sögum fram í þáttunum og þannig áhrif hafa fantasíur iðulega á mig sjálfan líka, öll þessi nýja saga sem ég þarf að læra úr tengslum við allt það sem ég kann fyrir gerir að verkum að á yngri árum hefði ég líklega lesið bækurnar a.m.k. 20 sinnum til að geta velt þeim betur fyrir mér því að svoleiðis gerði maður sannarlega þá. Mér skilst reyndar að í bókunum sé sagan rakin með silalegri hægð þannig að auðveldara sé að komast inn í heiminn og tilfinning lesenda enda sú að þetta sé sagan endalausa sem er ekki alltaf slæmt þegar um bókmenntaferðalög er að ræða. Eftir sem sögunni vindur fram verður hún sterkari og tekur ákveðinn gæðakipp í þætti 3 í syrpu 2 en þá er komið í ljós að þó að aðeins ljósa hetjan (sem hneigist til að hvísla flestallar línurnar sínar eins og Stellan Skargård þegar honum er hleypt í fantasíu- eða miðaldamynd og margir norrænir leikarar hafa síðan tekið þetta upp) sé drekinn endurborinn hafa allir fimmmenningarnir samt miklu hlutverki að gegna og hafa sína eigin krafta sem mörg þeirra virðast líta á sem bölvun. Á þeim þarf unga fólkið að ná tökum, líkt og í mínum eigin Álfheimabókum. Persónusköpunin er í öndvegi; allar aðalpersónurnar eru stöðugt að bíða ósigra og taka út misvel skilgreindan þroska. Ein er hálfgerður varúlfur, annar hefur eitthvað af eðli Loka í sér, sú þriðja lætur sig dreyma um óyfirnáttúrulegt fjölskyldulíf og þannig reyna persónur reglulega að snúa baki við hlutverki sínu auk þess sem þær eru truflaðar ítrekað og pyntaðar af áhangendum sortans. Mér skilst af kunnugum að ýmsar breytingar verði frá bókunum.

Þá skiptir samfélag nornanna (kallaðar aes sedai) æ meira máli en þær eru íklæddar ýmsum litum til marks um sérgáfu sína og hlutverk. Líkt og Væringjarnir (Jedi-riddararnir) í Stjörnustríði eru nornirnar alls ekki fullkomnar þó að þær segi alltaf sannleikann og valdabrölt þeirra síst minna en á deildarfundum háskóla. Ein rauðhærð og varaþunn virðist frá upphafi stórvarasöm og reynist enda vera svikari. Sjálf Lindsay Duncan úr Rome birtist óvænt í miðri annarri syrpu í hlutverki systur Rosamund Pike; annars eru leikarar fæstir mjög þekktir. Auk þess sjást reglulega óvættir sem eru blendingur úr manni og dýri og eru kallaðar trollok sem gæti vissulega verið innblásið af norrænni goðafræði og aðrir gæfari en þó ljótari sem heita orði sem minnir á „ogre“. Þátturinn er frekar blóðugur, pyntingasenur nokkrar og mannvíg allmörg, hvorugt þó jafn yfirþyrmandi og hjá George R.R. Martin. Gamli sixpensarinn sem virðist botnfrosinn og pikkfastur í sjöttu bók sinni var þó líklega ívið frumlegri en Jordan, kannski vegna þess að hann hefur skýrari hugmynd um hvaða skeiðs sögunnar hann vísar til á meðan Tímahjólið er allnokkuð samsull og hin listræna blekking tapar líka á miklum tæknibrellum þegar galdrasena hefst fyrir utan auðvitað hversu ósæranlegar lykilpersónur eru í bardögum líkt og iðulega í Stjörnustríði og tölvugerðum nútímabardagamyndum en ekki raunveruleikanum. Göldrunum í þessum heimi er iðulega lýst með tungumáli sálarrannsóknarfélagsins, galdraverurnar eru miðlar en enn veit ég ekki alveg hvaðan þessir kraftar koma þó að þetta sé allt mikið rætt. Ég er ekki heldur viss á sjálfu tímahjólinu sem birtist þó sennilega í einu atriði þar sem unga hetjan hefur verið bundin við það (en kannski var það aðeins draumur eða ofskynjun).

Tímahjólið er tekið upp í fegurðinni á Balkanskaga og húsagerðarlist virðist standa í blóma í þessum heimi, tónlistin er nútímaleg og innblásin af Hans Zimmer (enda eftir lærisvein hans Lorne Balfe) með þungum trommutakti þegar mikið liggur við. Hliðstæðurnar við Krúnuleikana og Dune eru skýrar, bæði hvað varðar útlit, hljóm og ýmis þemu þáttaráðarinnar. Svarta aflið sem við er barist á sér marga fulltrúa í þáttunum sem eru síst á undanhaldi í lok syrpu 2 en er ekki sérlega áþreifanlegt sjálft og nær þess vegna aldrei að vera jafn áhugavert og t.d. Sauron eða a.m.k. ekki í fyrstu 16 þáttunum. Mér skilst þó að næsta syrpa sé væntanleg í ár og ég er nógu forvitinn til að halda áfram að reyna að horfa.

Previous
Previous

Saga af hengingu

Next
Next

Híðishám, fyrri þáttur