Híðishám, fyrri þáttur

Í janúar þurfti ég smáhvíld eftir að ljúka erfiðu verkefni (Hvern er ég að gabba? Ég ligg meira og minna í híði í janúar flest ár) og horfði á eina sex þáttaraðir á Netflix sem ég hafði sett á listann minn fyrir löngu; þó að það sé ekki vinna að horfa á Netflix finnst mér erfitt að hætta við það sem ég var búinn að áætla að gera og er náungi sem er treystandi til að setja sjónvarpsáhorf á dagskrána. Fyrst var glæný sænsk þáttaröð sem nefnist Genombrottet og er kannski dæmigerð fyrir áhorf okkar margra í nútímanum því að hún reyndist byggð á sönnu sakamáli, flóknu morðmáli í Svíþjóð sem leystist ekki fyrr en 16 árum síðar og þá með hjálp ættfræðigagnagrunns. Þetta er áhugavert, ekki síst ef maður þekkir fólk sem hefur eignast nýja ættingja með aðstoð slíkra grunna. Ættfræðingurinn er líka áhugaverðasta persóna þáttarins og sannfærandi rannsakandi en lögreglumaðurinn sem er gamall íþróttakappi er líka trúverðugur. Brugðið er frá sannleikanum með því að búa til tímapressu sem engin var í raun og á að auka spennuna en er í raun óþarfi því að áhorfandinn er nógu spenntur að sjá hvort það sé yfirleitt hætt að finna morðingja með þessum hætti. En að lokum finnst hann og reynist vera vesalingur sem játar hratt og vel. Einhvern veginn hafði honum tekist að komast aldrei í kast við lögin eftir morðið.

La Palma er norskur þáttur um eldgos og flóðbylgju á Kanaríeyjum. Mér skilst að það sé ekki mikil hætta á svo stórkostlegum hamförum þar sem gætu skolað ýmsu burt, m.a. Íslendingum, en vísindamenn sem voru æstir að komast í fréttir (og fá styrki og allt þetta sem setur svip sitt á svokölluð óháð vísindi nútímans) settu fram slíka tilgátu fyrir 20 árum eða svo. Mér fannst þátturinn skemmtilegur til að byrja með og stemmingin kannski ekki ósvipuð og í Börnunum á eldfjallinu forðum daga (vorið 1980) en eftir að eldgosið hófst mundi ég betur að mér leiðast hamfarabókmenntir sem settu óþarflega mikinn svip á æsku mína (Kobberpesten og fleiri góðar). Þær eru iðulega afþreying dulbúin sem betri bókmenntir eða rímaðar ræður um rækilega rædd samfélagsmein en eru oft fjarska einhæfar og lítið spennandi. Þannig fór fyrir La Palma þegar kjarnafjölskyldan sem var í forgrunni var farin að hlaupa undan gosinu og flóðbylgjunni og auðvitað björguðust þau öll en ýmsir einhleypingar fórust eins og jafnan í hamfaramyndum. Ein persónan þarf að sleppa lífs úr tveimur flugslysum til að þetta geti gengið eftir, að sjálfsögðu ekki fullorðinn einhleypur karlmaður. Boðskapurinn virðist einna helst sá að þegar hamfarir verða sé best að hunsa boð yfirvalda og frenjast áfram af krafti og nota hagsmunatengsl til að komast að því hvar „safe spot“ er. Allt var þetta afar ótrúverðugt og eins þáttur norska embættismannsins í málinu en mér fannst ánægjulegt að sjá Amund Harboe úr Lykkeland (mun betri þætti) aftur. Þjóðarstoltið Ólafur Darri er líka í þættinum og stendur sig vel í hlutverki íslensks eldfjallafræðings.

Eftir þessar hörmungar var mér nauðsyn að sjá eitthvað léttara og fyrir valinu varð þátturinn Jónsmessunótt með Pernillu August í skrautlegum kjól í aðalhlutverki. Hún er höfuð fjölskyldu einnar þar sem mikið er um leyndarmál og framhjáhald sem flest tengjast sjúkdómum, systkinaríg, misaldra samböndum eða skilnuðum. Ein sagan fjallar um eldri dóttur Pernille sem ákveður að halda framhjá kærasta sínum og er svo óheppin að tveir úr fjölskyldunni verða vitni að örstuttri setu hennar á barnum með síðhærðum dönskum flagara. Persónurnar eru iðulega í mikilli geðshræringu en ekki ósympatískar og allt fer furðu vel að lokum, þökk sé mætti fyrirgefningarinnar sem ágætt er að sjá hafna til virðingar á Trumptímum. Eitt minni í sögunni eru ólíkar hefðir Svía og Norðmanna að halda upp á þennan merka dag (íslenskar hefðir eru engar nema að velta sér nakinn úr dögginni sem ég hef aldrei séð neinn gera enda á ég greinilega ekki ævintýragjarna vini). Umhverfið er ótrúlega fallegt og sjarmerandi og góðar kökur, síld og vín á borðum.

Þá var komið að pólska þættinum Algjörir byrjendur eða Absolutni debiutanci sem mun vera fyrsta pólska sjónvarpsþáttaröðin sem ég sé þrátt fyrir að vera ættaður frá Póllandi en verður ekki sú síðasta. Hún er gerð af konum (Kamilu Taraburu, Ninu Lewandowsku og Katarzynu Warzechu) og fjallar enda um óvenjulega stúlku („á rófinu“ eins og það heitir nú) sem langar til að gera kvikmyndir. Líkt og margar skrítnar stúlkur a.m.k. í bókmenntum og líka nokkrar í raunveruleikanum á hún listrænan strák að besta vini sem tekur fullan þátt í kvikmyndaævintýri hennar. Þau eru óðum að fullorðnast og hana er farið að dreyma um ástarsamband með vininum gamla en hans smekkur er annar eins og a.m.k. mig grunaði um leið og ég sá hann. Þau eru svo vel skrifaðar og sjarmerandi persónur og vel leikin af Martynu Byczkowsku and Bartłomiej Deklewa að það heldur næsta auðveldlega uppi sex þáttum um brall þeirra. Á köflum er svolítið melódrama í gangi, m.a. tengt foreldrum þeirra beggja sem eru mikilvægar persónur og í þáttunum er mikil nekt en hvorugt er fráhrindandi vegna þess hversu sterk tök konurnar sem sömdu þetta hafa á aðalpersónunum. Þau eru dæmigert listaskólapar og miklir aðdáendur kvikmyndarinnar Pulp Fiction (sem er skemmtilega unnið úr) en kynnast óvart íþróttastrák sem þau bjarga raunar frá drukknun á dramatískan en trúverðugan hátt og ákveða síðan að gera að aðalleikara kvikmyndar sinnar. Íþróttastrákurinn er alls engin stereótýpa og samband þeirra þriggja verður mjög áhugavert á köflum en alls ekki vaðið á grynningunum þó að sumt í þáttaröðinni minni samt á sápur og íslenskt leikrit, t.d. tilhneiging persónanna til að brjóta allt og bramla þegar tilfinningarnar bera þær ofurliði.

Ég hef aldrei dvalið við Tyrrenahafið en þar gerist þátturinn Adorazione sem Ítalinn í mér (sem er ekki staðfestur í ættartölum eins og pólski uppruninn en ég finn samt fyrir honum) vildi endilega sjá næst. Er birta Miðjarðarhafsins ekki kjörið mótefni við janúarmyrkri Norðurslóðanna? Adorazione fjallar um vinahóp í ítölskum strandbæ þar sem allir eru a.m.k. 10, eins og Dudley Moore sagði forðum og unga fólkið á netinu segir enn, og í fyrstu líkt þekkjanlegir í sundur vegna skorts á útlitsgöllum en hópurinn lendir í kreppu þegar ein hverfur óvænt (flest mannshvörf eru óvænt en kannski misóvænt). Þetta er eiginlega sama flétta og í Elite sem ég hef minnst hér á, þættir sem lifðu sjálfa sig nema þar hét stúlkan Marina en hér Elena. Orðið „stronza“ er notað næstum jafn mikið og „joder“ í spænska þættinum og af því gætu eldri lesendur síðunnar lært að það fer svolítið eftir kynslóðum hversu gróf orð þykja. Ég var spenntur fyrst en síðan reyndist morðið að lokum sáraeinfalt og snúast um eitraða karlmennsku og kannski um þörf Vanessu (lengst til hægri á myndinni) til að finna sjálfa sig en inntakið var ekki eftirminnilegt á við pólska þáttinn sem ég lýsti áðan eða einu sinni Prisma og Inganno sem ég hafði áður séð á streymisveitum en veitur þær eiga lof skilið fyrir að kynna mann fyrir efni sem seint hefði ratað jafnvel í sjónvarp allra landsmanna meðan það var og hét. Lögreglukonan var samt skemmtilega hökulaus og fýluleg og sú leikkona (Barbara Chichiarelli) fær prik frá mér.

Previous
Previous

Siegfried ungi og nornirnar

Next
Next

Lestrarjól