Kynósa Spánverjar

Í sumar lauk ég því að horfa á spænsku sjónvarpsþáttaröðina Elite sem ég fékk mér sjálft Netflix til að sjá á sínum tíma (og líka vegna þess að ég var vesæll heima eftir aðgerð skömmu fyrir jólin 2018). Ég horfði aðallega á lokasyrpuna vegna þess að ég er afar ferkantaður og vil helst sjá allt efnið ef ég er á annað borð byrjaður en þessir sjónvarpsþættir voru löngu orðnir endurtekningasamir og óeftirminnilegir. Fyrstu syrpurnar voru afar hressandi þó að ekki hafi þetta beinlínis verið Njála (en ekki síðra en Footballers’ Wives). Sögusviðið var skóli fyrir ríka Spánverja þar sem stöku fátæklingar fá inngöngu og þannig er varpað ljósi á flókin vensl auðs og valda í Spáni en aðallega er þó sýnt fallegt fólk í skólabúningum — reglulega þó ekki í neinu því að helsta einkenni Elite frá upphafi var mikil áhersla á afar fjölbreytt og iðulega siðlaust kynlíf persónanna þar sem fá boðorð voru óbrotin. Í Elite var ekki reynt að sýna fólki margs konar erótík til að merkja í reitina heldur voru þættirnir frá upphafi löðrandi í fjölkærleika-, hinsegin- eða sifjaspellssamböndum af raunverulegum áhuga á fjölbreytni ástalífsins.

Ógæfa Elite var að halda sögunni áfram með nýjum persónum sem lengi framan af voru þó sæmilega áhugaverðar en eftir því sem þeim fjölgar verður æ flóknara að muna forsögu eða flókin vensl þeirra. Allir leikarar í þáttunum eru sérlega fallegt fólk og í hverjum einasta þætti voru margar margar margar nektarsenur og lokasyrpan var þar engin undantekningin. Hún snerist einkum um fátækan stúdent sem hafði ákveðið að ná efnahagslegu sjálfstæði með því að gerast fylgdarsveinn eða það sem mamma heitin (og væntanlega hennar kynslóð almennt) hefði kallað „lúxushóra“ (þetta var sama kynslóð og kom í veg fyrir að Íslendingar eignuðust bidet með því að kalla það „rassabað“ og eftir það var markaðsetning þessa afar gagnlega fyrirbæris óhugsandi hér á landi). Í þætti fimm eða svo (yfirleitt eru þeir átta) var fátæki stúdentinn myrtur og síðan er morðingjans leitað en eiginlega er manni orðið alveg sama og eiginlega fjaraði Elite heldur ógæfilega út. Þetta er orðið aðeins of mikil formúla og viss takmörk hversu mörg morð hægt er að trúa á í einum menntaskóla, jafnvel þótt þar stundi siðspilltir auðmenn nám.

Fyrir utan þrjóskuna var ég aðeins að horfa vegna þess að ég nýt þess að heyra spænsku talaða þó að ekki hafi ég gengið svo langt að læra hana og vissulega var þátturinn áfram haganlega gerður og miklu kostað til þó að áhuginn drífi varla hálfa lokasyrpuna, enda sá myrti helsta augnayndi syrpunnar og fremur lítið varið í hana að honum gengnum. Spilltur lögreglumaður reynist vera hinn seki og er það eins klisjukennt og hægt er. Ekki verður annað en fagnað þeirri ákvörðun framleiðenda að láta gott heita og nota alla þessa fögru leikara Spánar í annað og nýstárlegra efni. Næst á dagskrá minni var læknaþátturinn Respira sem virðist samið eftir sömu formúlu og er með a.m.k. einum leikara úr Elite. Þegar læknarnir voru á leið í verkfall var þetta farið að minna óþægilega á íslenska heilbrigðiskerfið og því er ég enn bara hálfnaður.

Previous
Previous

Fangi spásagnar

Next
Next

Nútímaleg miðaldrakrísa