Fangi spásagnar
Þegar ég var nýbyrjaður að horfa á kvikmynd Akira Kurosawa, Kumonosu-jō (1957) sem ku þýða kóngulóarvefshöllin en heitir á ensku Throne of Blood tók ég eftir karakter trjánna í forgrunni einnar fyrstu senunnar og hvarflaði þá þó ekki að mér að tré ættu eftir að leika lykilhlutverk í kvikmyndinni þar sem sögð er Macbeth-saga Shakespeare en tálguð niður í aðalatriðin af aðdáunarverðri naumhyggju. Ég tók líka eftir sérkennilegum höfuðfötum persónanna sem eru á sviðinu allan tímann og búa til sérstakan fantasíuheim; myndin er sviðsett í Japan á síðmiðöldum en kannski hefur samfélagið aldrei verið til og það skiptir ekki heldur öllu máli. Í upphafi er sungið um metnað sem veldur blóðbaði og fremur sjaldgæft að túlkun viðburðanna hefji leikinn en er vel til fundið; að sjálfsögðu þekkja allir Macbeth-söguna.
Tveir japanskir höfðingjar hitta fyrir illan anda í skógi sem flytur þeim spásögn um hverjir muni stjórna helstu kastölum héraðsins og síðan eru þeir báðir fangar spásagnarinnar, einkum hinn metnaðargjarni Washizu sem deilir spádómnum líka með konu sinni. Sú er góðleg en ísmeygileg að sjá og reynist full af pólitískum metnaði fyrir hönd mannsins sem er fyrst eins og leir í hennar höndum. Smám saman verður það hann sem stjórnar ferðinni og þessi metnaðargjarni maður er túlkaður með miklum ágætum af Toshiro Mifune sem kann flestum betur að beita svipbrigðaleik.
Svipur Mifunes alla myndina sýnir okkur mann sem er fangi spásagnar og eigin metnaðar til að sá geti ræst. Hjá honum skiptast á ótti og ofdramb sem lýsir sér í tryllingslegum hlátri hans eftir að hafa sannfært sig um að hann geti ekki tapað orustu. Á öðrum stundum er hann fullur ofsóknaræðis, t.d. þegar hirðfífl eitt fer að flytja kvæði um metnaðargjarnan mann sem hafi seilst til valda og er snarlega rekið í sæti sitt. Á þeim tímapunkti eru ýmsir farnir að týna tölunni eftir því sem plott hjónanna vindur upp á sig.
Handþvottarsena frúarinnar er auðvitað vel þekkt minni úr Makbeð og iðulega átakanlegt í uppfærslum en aldrei sem hérna þegar Washizu kemur að konu sinni við handþvott. Hún hefur þá lengi verið horfin sjónum eftir að hafa misst barn og refsing blóðsins er letruð í hverja hreyfingu og svipbrigði hennar. Valdasýki lafðinnar er sannarlega ekki refsingarlaus og meistarinn Kurosawa dregur fram hversu rækileg refsing þeirra hjóna er eftir því sem þau verða vinafærri og hrjáðari.
Óperudauði Washizu í lokin þegar örvadrífa óvinanna þrengir smám saman að honum og hann er að lokum eins og broddgöltur er næstum jafn áhrifamikill og hann er langdreginn. Þar kemur svipbrigðaleikstíll Toshiro Mifune honum í gott hald; ég hygg að flestir áhorfendur finni til með beygðum manninum þrátt fyrir alla hans glæpi þegar hann er með öllu yfirgefinn, jafnt af mönnum sínum sem gæfunni.