Karlmenn eru viðkvæmar sálir
Það er einkennilega tímaskakkur 19. aldar blær yfir Tárasmiðnum (Fabbricante di lacrime), glænýrri Netflixmynd eftir nýlegri tröllaukinni skáldsögu hinnar ítölsku Erin Doom sem skrifar undir dulnefni líkt og landa hennar Elena Ferrante en er sögð vera á þrítugsaldri og ættuð frá Emilia. Kannski vegna þess að sagan hefst á munaðarleysingjahæli þar sem sögumaðurinn Nica elst upp eins og Jane Eyre 21. aldar ásamt vinkonu sinni Adeline og hinum hæfileikaríka en sífýlda Rigel sem forstöðukonan Margaret (skúrkur úr Disneymynd) hefur ávallt haldið upp á. Á táningsárunum eru Nica og Rigel síðan ættleidd saman af Milliganhjónunum (þetta virðist allt gerast á Englandi) og þá hefst drungarómantísk örlagasaga í anda Brontësystra eða Daphne du Maurier þar sem hræðileg fortíð vomir yfir persónunum og truflar þær í að lifa lífinu. Tónlistin er notuð af ákefð til að gefa voveifleg örlög til kynna en annars er sagan frekar lítilfjörleg og minnir jafnvel á aðdáendaspuna.
Tárasmiðurinn í sögunni virðist i fyrstu vera hinn hárprúði og varaþykki Rigel sem hvíslar allt sem hann segir og er mjög oft (mun oftar en ég þarfnaðist) líkt við úlf, á greinilega að vera holdgervingur úlfsins sem Nica sá í svip rétt fyrir umferðarslysið hroðalega þegar hún missti foreldra sína — sem er sannarlega ekki gervilegasta umferðaróhappið í myndinni. Á munaðarleysingjahælinu var Rigel í hávegum hafður en Nica fyrirlitin og kannski þess vegna hefur hún einkennilega þörf fyrir staðfestingu frá honum, jafnvel þó að hún sé eldfljót að eignast annan aðdáanda í sínu nýja lífi. Sá heitir Lionel og er næstum óeðlilega uppsigað við Rigel, eflaust þar sem hann skynjar hinn mikla tilfinningahita milli fóstursystkinanna. Minnimáttarkennd Nicu heldur sögunni uppi og einnig hún er sótt í gotneskar Brontë-skáldsögur. Sigur vinnst ekki á henni fyrr en munaðarleysingjanum verður ljóst að Rigel er afar brothættur og viðkvæmur langt umfram hana og helst þarf hún að hjúkra honum innilega („hann er sárið en ég er umbúðirnar“ segir hinn dramatíski sögumaður einu sinni) enda er okkur snemma orðið ljóst að það sé kannski hún sem sé tárasmiður hans en ekki öfugt. Einhvern veginn minnir mig að þannig hafi þetta líka iðulega verið hjá systrunum.
Auk heldur snýst sagan um að hin illa Margaret frá munaðarleysingjahælinu fái makleg málagjöld með liðsinni Nicu sem þannig nær stjórn á eigin sögu og örlögum. Greinilegt er á öllu að Erin Doom þekkir vel hefð munaðarleysingjasagna fyrri alda og áratuga en það er ekki ýkja margt nýtt í þessari annað en (eiginlega fremur takmörkuð) nútímavæðing gamalla persóna og minna, meðal annars þess að stúlkan í sögunni hrífst af úlfinum sem hreytir stöðugt í hana ónotum fyrst í stað þó að öðru hvoru brjótist fram innri þörf hans fyrir hana og þá fremur en hinum viðkunnanlega en afar dramatíska Lionel sem virðist telja hellirigningu besta veðrið fyrir ástarjátningar (hefur kannski horft yfir sig á Fjögur brúðkaup og jarðarför) og reynist að lokum ylfskari en Rigel (aldrei treysta mjúka manninum!). Yfir öllu vokir goðsögnin um að áskapað hlutverk kvenna sé að draga fram það góða í karlkyns hrottum og sú staðreynd að báðir þessir gaurar séu bálskotnir í henni er sannkölluð martröð fyrir hina dramatísku Nicu þó að þetta kynni að hljóma eins og lúxusvandamál í augum okkar hinna.
Fósturforeldrar parsins eru hið vænsta fólk en skipta nánast engu máli fyrir söguna enda eru þau föst í umferðinni þegar mest liggur við að fóstursystkinaparið fái (ekki mjög óvænt) að para sig í fyrsta sinn. Eins eru aukasögur með lesbíuþema um gamlar og nýjar vinkonur Nicu sem fá þó lítið sem ekkert pláss í myndinni en hafa eflaust hjálpað Erin að skrifa svo langa sögu. Fulllöngum tíma er hins vegar eytt í réttarhöldin yfir Margaret sem jafnvel fyrir okkur sem erum ýmsu vön úr Tom Cruise réttardramatík eru fáránlega leikræn og ótrúverðug og það áður en hápunkturinn reynist vera dramatísk ræða Nicu sem allur salurinn klappar fyrir skömmu eftir gervilegt panikkast hennar á salerninu; auk heldur eru þau sett upp sem innskot í lengri sjúkrahúsvist Rigels í dásvefni þar sem Nica vakir yfir honum. Þar sem Margaret er eins og illur draugur úr 19. aldar gotneskri skáldsögu verða örlög hennar manni ekki mjög mikilvæg og Rigel lítur allt of vel út í dáinu til þess að maður geti farið að verða áhyggjufullur hans vegna.
Allt er þetta samt ágætlega leikið miðað við aðstæður; einna best standa börnin sig í hlutverkum Nicu og Rigel á munaðarleysingjahælinu. Caterina Ferioli er frekar daufleg söguhetja og tapar kannski enn frekar á því að sem sögumaður er Nica fullkomlega yfirþyrmandi, raunar ekki ósvipuð Elenu í Ferrante-sögunum en þar hangir þó hið félagslega og spurningin um áreiðanleika á spýtunni á meðan Nica kæfir alla aðra mögulega túlkun á eigin ævi í skáldlegri frásögn sinni fullri af snjöllum semíheimspekilegum setningum sem hljóma líkt og úr smiðju Jóns Kalmans og henta einna best til að vera letraðar á auglýsingaskilti og sem maður efast ekki eitt andartak um að séu sótt lóðbeint í metsölubók hins unga höfundar Doom. Unglings-Rigel er leikinn af ítalska poppsöngvaranum Biondo sem er líka fyrirsæta enda fátt annað fyrir svo fallegan mann að gera; Alessandro Bedetti í hlutverki Lionel höfðaði þó ívið meira til mín en kannski aðallega vegna þess að persónan er aðeins minna eins og Brontë-klisja. Sabrina Paravicini á ágætan svipbrigðaleik í hlutverki óvættarins og Roberta Rovelli er sympatísk fósturmamma. Sagan er hugsanlega góður inngangur að betri 19. aldar bókmenntum en þolir samanburð við þær ekki vel. Kannski ætti þúsaldarkynslóðin að horfa gagnrýnið í eigin barm fremur en að brontëast út um allar koppagrundir eins og nú eru margnefndar í fjölmiðlum.