Góðir bílar og hermang

Vinur minn góður er áhugasamur um hernámsárin og hefur þetta leitt hann á vit tiltölulega lítt þekktra bóka sem aðeins er hægt að nálgast á söfnum og kannski er engin ástæða heldur til að geta þeirra í helstu bókmenntasögum en það merkir þó að ekki að þær séu allsendis óáhugaverðar. Eina slíka fékk ég lánaða hjá honum í sumar þar sem hann er deilinn að eðlisfari og las á einum degi, endurminningabrot leigubílstjóra úr seinni heimsstyrjöld sem snerust að verulegu leyti um ástandið, vændi og sprúttsölu. Höfundurinn Guðlaugur Guðmundsson (1914–2002) er öllu frægari fyrir skáldsöguna Enginn má undan líta (1974) sem fjallar m.a. um morðið á Natan Ketilssyni og mig grunar að ég hafi lesið þá bók forðum þegar ég komst yfir hálft Sólheimasafnið á áratug. Einnig samdi hann bók um Reynistaðabræður (1968), sögu sem nútímahöfundar ættu að gera sér meiri mat úr núna á gullöld hlaðvarpa um týnt fólk.

Fyrir utan að skrifa bækur rak Guðlaugur verslun í Tindaseli þar sem síðar varð Bónus og var í stjórn Skáksambandsins á tíma einvígis aldarinnar sem ég þarf varla að segja ykkur hvenær átti sér stað. En hann hafði áður verið leigubílstjóri og um þá reynslu fjallar bókin Ástir í aftursæti (1978). Hún gerist á tíma „góðu bílanna“ og ástandsins en er samt ekki alveg eins djörf og kápan gefur til kynna. Ég las hana skömmu eftir að hafa endurnýjað kynnin við 79 af stöðinni eins og ég ræddi hér í sumar og erfitt að tengja þessi tvö verk ekki saman. Í bókinni eru engar ljósmyndir en hins vegar myndir eftir listamanninn Jónda í Lambey (1925-2009) sem manni finnst frekar ættu heima í skáldverki en kannski eru þessar endurminningar á einhverjum slíkum mærum.

Hinn frægi bandaríski sagnfræðingur Barbara Tuchman sagðist aldrei nota sagnfræðirit í skrifum sínum en endurminningar hins vegar óspart vegna þess að þær væru eins konar frumgögn þrátt fyrir fallvaltleika minnisins. Nú veit maður ekki hve áreiðanleg hver saga er í þessum leigubílstjóraminningum enda margar sögurnar í bókinni ekki beinlínis á ábyrgð höfundar heldur sagðar honum af öðrum. Á hinn bóginn mynda sögurnar sem heild eins konar mósaíkmynd af samfélagi sem tekur hröðum breytingum og þar sem peningar stjórna flestu. Það er líka í samræmi við hugsjónir höfundar sem notar fyrstu blaðsíðurnar í að koma því á hreint að hann sé ekki kommúnisti. Alla bókina er hann fremur ályktanagjarn og er sennilega slettireka eins og flestir (ekki þó ég sem er hugsanlega afkomandi fyrstu Íslendinganna sem ekki voru slettirekur).

Það sem slær nútímalesandann er auðvitað frásagnir af rottugangi í Reykjavík í stríðsárunum sem eru í einkennilegu samræmi við rottuganginn í Los Angeles nútímans sem ég kynntist líka í sumar. Eins það sem fram kemur um fóstureyðingar á þessum tíma. Núna er lengra liðið frá útkomu bókarinnar en þá var liðinn frá stríðsárunum og kannski gætu íslensk börn alls ekki skilið svona bækur („lesið sér til gagns“ eins og það er kallað í miðlum sem enginn les sér til gagns) sem tók mig aðeins klukkutíma að lesa. Vonandi þó ekki.

Previous
Previous

Hagen var með plan

Next
Next

Karlmenn eru viðkvæmar sálir