Hagen var með plan

Nýlega lauk ég mínum fyrsta Niflungahring Wagners í sjónvarpi og aðeins skapanorninar (sem raunar eru persónur í síðasta músíkdramanu) vita hvort ég mun sjá þetta allt á sviði líka en Budapest-hringur Adams Fischer (eða Fischer Ádám eins og heimamenn kalla hann) fær allar hugsanlegar stjörnur hjá mér. Sýningin er eins og kom fram hér, hér og hér naumhyggjuleg en það merkir að í stað sviðs og búninga beinir Fischer athygli okkar skynsamlega enn frekar að söngnum, tónlistinni, textanum og hinum hugmyndalegu andstæðum og er þar af nógu að taka. Ég hef áður tekið fram að skúrkar verksins (Loki, Alberich, Mímir og Fáfnir) njóta sín einstaklega vel í þessari uppfærslu, og í Ragnarökkrinu (Götterdämmerung) sem ég sá myrkranna á milli í nóvemberlok er það Hagen. Líkt og nú er í tísku hjá stjórnmálamönnum er hann með plan (hét einu sinni áform á íslensku) og það snýst um að eyða hetjunni Siegfried og koma öllu í uppnám. Hér er hann líkt og Mörður Valgarðsson undir áhrifum frá föður sínum í þessari gerð sögunnar (en í eddukvæðum kemur ekkert fram um þann skyldleika) en sá er illi undirheimadvergurinn eða álfurinn (elbe) Alberich.

Hagen er sunginn af hinum hávaxna Albert Pesendorfer og nær sannarlega að draga til sín alla athyglina þegar hann er á sviðinu en samt er það nú Catherine Foster í hlutverki Brynhildar sem er óumdeild stjarna verksins. Eins og ég hef áður nefnt túlkar hún valkyrjuna eins og hún sé Angela Merkel (sem sagt hvorki með ljósar fléttur né hornahjálm) en það svínvirkar. Maður hefur samúð með henni líkt og Angelu enda er sannarlega illa farið með Brynhildi í leikfléttu Hagens. Wagner gerir sitt besta til að búa til rökréttar skýringar á miðaldatextaruglinu sem veldur því að Sigurður og Brynhildur hittast tvisvar í fyrsta sinn. Það er allt virðingarvert en er þó ekki aðalatriðið heldur hinar sterku tilfinningar hinnar sviknu konu en grálynd örlög hennar kallast á við almenna hnignun guðanna sem sjást raunar ekkert í lokakafla hringsins en hann snýst þó samt um rökkur og fall þeirra.

Hetjan Siegfried hefur ekki sama styrk og þau Hagen og Brünhilde í sýningunni en hann er mjög vel sunginn af Stefan Vinke sem að vísu er miðaldra, þéttholda og sköllóttur og má samanburðarins vegna helst ekki standa við hlið Pesendorfer á sviðinu. Siegfried er lengi grunlaus um öll svikin og Vinke túlkar kæti hans og sakleysi vel; þrátt fyrir að hann sé ekkert sérstaklega hetjulegur að sjá nær tónlistin (sem var eftirminnilega notuð í Excalibur forðum) að fylla mann trega þegar Siegfried hefur verið myrtur saklaus, kannski ekki svo mjög yfir manninum heldur svikunum og því sem þau segja um ástand heimsins og mannskepnunnar. Kannski var það vegna þess að ég horfði á verkið á sorglegum degi en ég fann mjög til með okkur öllum þegar Siegfried lá veginn eftir að hafa rakið í löngu máli sögu sína og drekadrápið — hjá Wagner er Siegfried „vegan“ síns tíma sem getur ekki hætt að tala um afrek sitt og sérstöðu.

Kannski er það líka lengd verksins og vitaskuld hinn hægi taktur sem nær að kalla fram þessar tilfinningar en ég hef áður talað um áhrifamátt hægrar listar á þessari síðu. Wagner vissi nefnilega vel hvað hann var að gera þegar hann skapaði þetta margra klukkutíma verk. Vegna þess að við sitjum svona lengi án þess að verkið sé á nokkurn hátt endurtekningasamt þá hljótum við að sogast inn í það, verða eitt með persónunum og með tónlistinni sem líkt og í stórmyndum nútímans verður smám saman gamall vinur og það er hún sem fær að eiga sviðið í lokin. Sögunni er lokið, leikarar horfnir af sviðinu, Brynhildur hefur sungið sitt seinasta „Hejajahó“ og allt er horfið — nema áleitin Wagnerstefin sem hverfa síðan ekki úr kollinum.

Previous
Previous

Pabbagildran

Next
Next

Góðir bílar og hermang