Pabbagildran
Josh Hartnett var vinsæll leikari á þrítugsaldri sem margir muna eftir úr myndinni endalausu um árásina á Perluhöfn en eftir það fór að fara minna fyrir honum; nú á hann hins vegar sterka endurkomu og meðal annars í nýlegu spennumyndinni Gildran (Trap) úr smiðju hins sérstæða og umdeilda M. Night Shyamalan sem er nánast eins og endurgerð á þeirri gömlu góðu No Way Out (1987) með Kevin Costner, um helmingur myndarinnar er söguhetjan að freista þess í örvæntingu að komast út úr lokuðu rými. Líkt og í þeirri mynd kemur í ljós að sjálf söguhetjan er alls ekki óblandin hetja heldur sekur um glæp og í þessu tilviki leikur Josh raðmorðingja sem hefur ungan mann fanginn og ætlar að eitra fyrir kauða ef honum sjálfum verður ógnað en hann er líka góðlátlegur pabbi sem er meira að segja slökkviliðsmaður. Hann hefur boðið dóttur sinni á tónleika hjá stórstjörnunni Lady Raven (augljóst sambland úr hinum og þessum stórstjörnum) til að verðlauna stelpuna fyrir góðar einkunnir. Allt í einu rennur upp fyrir honum að það eru óvenju margar löggur og öryggisverðir á tónleikunum og síðan kemur í ljós að þeir eru gildra sem hann er fastur í og þarf að losa sig og grunlausa dótturina úr.
Það vekur nokkra athygli að aðalandstæðingur flóttamannsins í þessari raun er eldri kona, bófagreinir FBI, sem er leikin af hinni fornu barnastjörnu Hayley Mills sem er jafnvel enn óvæntari gestur í nýrri kvikmynd en Josh að leika raðmorðingja en við sem erum forn í lund vitum líka að helsta mynd hennar úr barnæsku hét Foreldragildran (Parent Trap) sem kallast skemmtilega á við þessa pabbagildru og er það eflaust engin tilviljun. Hayley er orðin gömul og lítur út fyrir það sem er sjaldgæft meðal frægra leikkvenna. Lady Raven sjálf er raunar ekki síðri andstæðingur morðingjans og bjargar öllu með hjálp samfélagsmiðla og fjölskylda morðingjans tekur þátt í að yfirbuga hann að lokum. Þetta er ekki mjög trúlegt plott en sannarlega áhugavert þó að eftir því sem við kynnumst honum betur komi æ betur í ljós að morðinginn er eins konar arftaki Norman Bates með einn heljarmikinn mömmukomplex (gat verið að einhver kella væri hin dulda seka). Að lokum ná þeir honum, eða hvað? M. Night Shyamalan er mikið fyrir að skilja eitthvað eftir opið í lokin.
Þannig að myndin er framþung, áhugaverðust framan af þegar við erum hálfpartinn látin standa með varmenninu í gildrunni en verður svo leiðigjörn þegar reynt er að skýra morðæði slökkviliðsmannsins sem öfugt við aðra raðmorðingja hefur enga sérstaka gerð af fórnarlömbum og ekki skánar það þegar bófinn reynist meistari dulargerva sem ræður við allar aðstæður nema helst aðdáendur poppstjörnunnar. Að lokum er myndin orðin svo ótrúleg að hún veit það sjálf og spurning hvort hægt sé að taka hana alvarlega. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem kvikmynd Shyamalan þróast nokkurn veginn á þennan veg, þær eru yfirleitt með afar góða grunnhugmynd en úrvinnslan stundum heldur losaraleg. Það sem eftir stendur er að hafa séð hinn yfirleitt frekar góðlega Hartnett leika bandbrjálaðan samfélagsstólpa. Boðskapurinn er: Pabbar eru ekki alltaf bestir þótt maður gæti haldið það.