Ekkert nema allt

Mér fannst einn fundur um Emily Dickinson alls ekki duga þannig að það var gleðiefni að lesa fleiri ljóð þessa magnaða skálds ásamt þremur gáfuðustu íslensku skáldunum. Í þessari umferð rakst ég meðal annars á orðið „plashless“ sem Emily virðist einfaldlega hafa búið til og er fallegt og viðeigandi. Annars er ljóðið „A bird came down the walk“ meðal einfaldari ljóða hennar þó að það sé líka afar vel orðað eins og bestu skáldum er tamt. Það er helst að fræðimenn hafi deilt um orðið „cautious“, þ.e. hvort það sé fuglinn eða ljóðmælandinn sem er varkár. Ljóðið er hér ef þið viljið spreyta ykkur:

Annað af einfaldari ljóðum hennar sem við ræddum lýsir stormi frábærlega vel án þess að vera illskiljanlegt. Sérstaklega gladdi mig setningin „The dust did scoop itself like hands“ sem ég get vel séð fyrir mér þegar um er að ræða þurran amerískan ofsavind. Eins má segja að oxymoron ljóðsins, „hurried slow“ geti lýst hegðun þrumunnar prýðisvel. Emily leikur sér að fáguðum ljóðmyndum sem einfaldlega lýsa fyrirbærum betur en flestir ráða við.

Orðið „heft“ í ljóðinu „There’s a certain Slant of light“ gladdi mig líka. Allir sem hafa búð nálægt kirkjuklukkum átta sig á þessum kæfandi þyngslum sem er kannski ekki það sem hönnuðir hinna mestu kirkju stefndu að. Þetta er afar sláandi og táknrænt ljóð og alls ekki einfalt en einkennist af mögnuðum setningum á borð við „We can find no scar“ sem er bara venjuleg enska og þó skáldleg. Eins má segja að boðandi (eða keisaraleg) þjáningin sem hún lýsir í „imperial affliction“ sé eitthvað sem nær að vekja hjá manni langvarandi hughrif.

Eitt skáldið í hópnum vakti athygli á ólíkum tegundum nálægðar í ljóðum Dickinson sem mér þótti vel að orði komist. Hún er sannarlega ljóðmeistari nálægðarinnar og efnið oft einkennilega léttvægt eins og í ljóðinu „It’s all I have to bring today“ sem gæti verið samið fyrir afmælisveislu þar sem ljóðmælandinn mætir með eitthvað órætt „this“ en ekki aðeins það heldur líka hjarta sig, öll túnin og akrana og býflugurnar og einhvern veginn er það sem skáldið kemur með ansi víðfeðmt sem má líka til sanns vegar færa.

Kannski hefur ekkert skáld nokkurn tímann verið jafn skáldlegt og Emily Dickinson sem lifði og dó í húsi föður síns, gaf aldrei út ljóðabók og þótti afar skrítin á efri árum. Kannski er hún gott dæmi um hversu þung byrði hann er, sá mikli farangur sem er skáldagáfan.

Previous
Previous

Skelmir hvíta tjaldsins

Next
Next

Pabbagildran