Skelmir hvíta tjaldsins
Í fyrra fór ég á Gundel, frægasta kaffihús Búdapest, og við sátum þar við borð kennt við Donald Sutherland. Ég sagði heimamanninum við borðið að foreldrar mínir hefðu fílað Sutherland þegar sól hans reis hæst. Hann var mikill hluti af bernsku minni þar sem blómaskeið hans sem leikara var á 8. áratugnum þegar æskan hafði yfirtekið kvikmyndaheiminn og helstu myndir voru fullar af uppreisn og andófi. Inn í það andrúmsloft féllu skelmisglott og hvasst augnaráð Sutherlands eins og flís við rass. Hann var beta frekar en alfa, trickster fremur en hetja, en fullkominn fulltrúi ungu kynslóðarinnar í glaðbeittri uppreisn gegn valdi. Sutherland var friðarsinni og rebel sem ekki lét að stjórn og þessi ímynd hans var svo sterk að hann gat aldrei leikið neinn sem var ekki örlítið varasamur. Jafnvel eftir að hann eltist og þroskaðist í hlutverk fulltrúa feðraveldisins var hann samt örlítið öfugur pabbi svipað og Óðinn sjálfur. Hann varð aldrei áreiðanlegur og alltaf tvíbentur.
Þó að Sutherland hafi leikið mörg eftirminnileg hlutverk seinustu árin minnist ég hans ekki síst fyrir kvikmyndahlutverk hans á 8. áratugnum, t.d. í Kelly’s Heroes, M*A*S*H og Örninn er sestur. Á sínum tíma voru hann og Christopher Plummer þekktustu kanadísku leikarar Hollywood og kannski ágætir fulltrúar fyrir þessi ekkibandaríki sem Kanada er í hugum margra í nútímanum, fullt land af listamönnum sem eru ekki nægilega ólíkir þeim fyrir sunnan þannig að við höldum alltaf að þeir séu Kanar. Eiginlega hentaði slík ekkitilvera Sutherland ágætlega, hann var alltaf aðeins á skjön og naut eflaust frelsisins sem fylgir því að vera ekki bandarískur. Hann bar þó beinin þar og lést í Florida en ekki í heimaríki sínu Nýju Brúnsvík við Atlantshafið, rétt norður af Maine. Ég hef enn ekki gerst svo frægur að heimsækja Nýju Brúnsvík en það stendur vonandi til bóta.