Feigð æskumanns

„As someone once remarked to Schubert / take us to your lieder“ söng meistaraháðfuglinn Tom Lehrer (sem enn lifir á 97. ári) á plötu einni frá 1965 sem var mikið leikin á mínu bernskuheimli og það tók mig sennilega áratugi að átta mig á orðaleiknum enda hef ég jafnan tregur verið. Þó að ég hafi lengi vitað að Schubert væri snillingur á borð við Mozart og Beethoven hefur hann aldrei heillað mig á alveg sama hátt en nýlegt boð á tónlistarkvöld í Hafnarfirði með Schubertþema hafði sín áhrif; í kjölfarið hef ég verið að lesa mér aðeins til um meistarann sem var nokkurn veginn samtíða Keats sem ég hef líka sinnt í ár; einhvern veginn berast öll böndin að þriðja áratug 19. aldar. Schubert greyið varð aðeins 31 árs en þó var hann ekki ungur og fallegur heldur þrekinn gleraugnaglámur og hárið tekið að þynnast er hann lést. Þetta rímar ágætlega við kenningu mína um að flestir fallegustu listamennirnir helgi sig flutningi á list en þegar kemur að því að semja hana veitir útlitið ekkert sérstakt forskot nema hugsanlega núna á grófgunartímum.

Meðal verka sem ég kynntist þetta kvöld voru „Der Knabe in der Wiege“, „Am Bach im Frühling“, „Abendstern“ og „Sei mir gegrüßt“ um leið og ég endurnýjaði kynnin við silunginn hans Schuberts og álfakóng Goethes sem Schubert samdi lag við aðeins 17 ára gamall. Það sló í gegn á sínum tíma hjá flestum nema sjálfum Goethe sem neitaði að tjá sig um það eða list Schuberts yfirleitt. Hugsanlega sá hann snilld tónskáldsins unga og var ekki rótt enda sennilega vanur að vera sá hæfileikaríkasti í salnum. Vögguljóðið og Silunginn samdi Schubert líka aðeins 19-20 ára gamall en notaði síðarnefnda lagið síðan aftur í frægum kvintett. Öll eru þessi ljóð snilld ein og stök en um leið er erfitt að láta ekki hugann reika að meistaratökum Schuberts á söngljóðaforminu sem hann gerði að sínu og sjálfan sig um leið ómissandi í lífi fjölmargra söngvara.

Ég er enginn tónlistarfræðingur og hafði því ekki verið kunnugt um nám Schuberts hjá Salieri, þeim merka manni sem var óþarflega rægður af tvibbanum Peter Shaffer fyrir tæpri hálfri öld en raunar var hið fræga leikrit Amadeus (leikið hér á landi af Róbert Arnfinnssyni og Sigurði Sigurjónssyni árið 1982 en síðar undirstaða þekktrar kvikmyndar Formans) grundvallað á eldra smáleikriti Púskíns sem Shaffer hafði kynnst sem óperu eftir Rimsky-Korsakoff. Shaffer fór vitaskuld illa með Salieri en þó hafa vinsældir Amadeus orðið til þess að vekja meiri athygli á tónskáldinu og þar sem margir láta ekki nægja að gleypa í sig leikritið gagnrýnislaust hefur það þar með einnig grafið undan sjálfu sér því að sú niðurstaða þess að Salieri sé tákngervingur meðalmennskunnar heldur alls ekki við nánari skoðun.

Að lokum má geta þess að strengjakvintett Schuberts (adagio-þátturinn) er þegar pantaður fyrir útför þess er þetta ritar og verður önnur sígild tónlist þá óþörf. Schubert samdi hann skömmu fyrir andlátið og það skýrir margt; ég heyri þessa fögru tónlist ekki án þess að skynja nálægð dauðans sem feigt tónskáldið hefur fundið en hugsanlega einnig vegna þess að upphaf annars þáttar kvintettsins var notað á afar áhrifamikinn hátt í hinum magnaða lokaþætti um Morse lögregluforingja (danski titillinn er Et kors for Morse) og svipbrigði leikarans John Thaw sem einnig kenndi nálægðar dauðans er hann lék Morse í hinsta sinn þegar hann hlustar á Schubert sýna hversu vel kvintettinn hittir í mark. Það hvarflar raunar stundum að manni að nálægð dauðans fyrir daga sýklalyfja hafi átt sinn þátt í því hversu sterk 19. aldar listin er umfram flesta aðra. Svona nær enginn að semja sem ekki er feigur og er þetta mitt fyrsta orð um hinn unga Franz en ekki hið seinasta.

Previous
Previous

Milli góðs og ills er stundum aðeins oggulítil kæna

Next
Next

Skelmir hvíta tjaldsins