Milli góðs og ills er stundum aðeins oggulítil kæna

Þótt ótrúlegt megi virðast var kvikmyndin The Night of the Hunter (1955) flopp á sínum tíma, bæði hjá áhorfendum og gagnrýnendum, en upp úr 2000 valdi franskt kvikmyndatímarit hana aðra bestu kvikmynd 20. aldar; svona breytilegur getur smekkurinn orðið. Í hinu þekkta viðtali við Truffaut viðurkenndi Alfred Hitchcock að hann hefði aldrei séð myndina en kannski varð hann að segja það því að The Night of the Hunter er líklega ein örfárra eldri spennumynda sem er jafnvel betri en Psycho Hitchcocks. Það var skömmu eftir að Frakkarnir hömpuðu henni sem mest sem ég sá hana í fyrsta sinn, raunar í sænska sjónvarpinu og var næstum búinn að missa af henni því að hún var þar aðeins kynnt sem Trasdockan og ég áttaði mig á því fyrir tilviljun að ég væri nú í dauðafæri að sjá eina af bestu myndum allra tíma, kvikmynd sem minnir stundum á expressíónískt málverk, sem nýtir orku þjóðsögunnar betur en flestar aðrar myndir og kynnir til sögunnar eitt stórkostlegasta en á sinn hátt raunsæjasta fúlmenni sem maður hefur séð.

Enski stórleikarinn Charles Laughton leikstýrði kvikmyndinni og það er næsta ótrúlegt að þetta var eina kvikmyndin sem hann leikstýrði einn en náði samt svona ótrúlega góðum leik út úr börnunum sem eru í aðalhlutverki (Billy Chapin heitnum og Sally Jane Bruce) og auðvitað Robert Mitchum sem leikur tröllið í sögunni; vissulega var hann góður leikari en vann þó aldrei annað eins leikafrek; hann mun síðar hafa sagt Laughton einn besta leikstjóra sem hann hafði kynnst. Laughton var auðvitað ekki einn því að með honum voru Stanley Cortez kvikmyndatökumaður og hans þáttur eigi lítill, einnig framleiðandinn Paul Gregory, James Agee sem samdi handritið ásamt Laughton (Agee var á síðustu metrum vegna drykkju og reykinga og látinn áður en myndin var frumsýnd) og svo auðvitað Davis Grubb (1919–1980) sem samdi hrollvekjuna sem kvikmyndin sviðsetur en hún var fyrsta útgefna skáldsaga hans og var byggð á sönnum atburðum (sem því miður lauk verr en sögunni). Ég hef ekki lesið skáldsöguna og veit því ekki hvort hún nái sömu hæðum sem listaverk og myndin en hef þó efasemdir um það.

Ekki get ég sagst vera helsti aðdáandi húðflúra og sérstaklega ekki löngun ungs fólks til að minna á vandalíserað almenningssalerni með sundurleitu veggjakroti; eiginlega er fátt í mannlegu útliti sem ég hef jafn eindregið ekki smekk fyrir. Eina húðflúrið sem ég bekenni er í þessari mynd en morðinginn og farandpredikarinn Harry Powell (sem Mitchum leikur) hefur látið húðflúra LOVE and HATE á hnúa sína til að geta flutt dæmisögur um baráttu góðs og ills í innblásnum ræðum sínum. Kvikmynd Laughtons er raunar einnig goðsagnakenndur hryllingur um baráttu góðs og ills og þó að fléttan sé áhugaverð er myndin ekki síst áhugaverð fyrir tugi myndaramma sem minna helst á expressónísk myndlistarverk og ég læt nokkur fylgja greininni. Hún á það líka sameiginlegt með öðrum hrollvekjum að snúast ekki um lógík heldur um óræða ógn sem kreppir að varnarlausum manneskjum.

Fléttan snýst um peninga sem Powell vill ná í og til þess þarf hann að giftast ógæfusamri ekkju (sem Shelley Winters leikur, sú ágæta leikkona naut sín aldrei betur en í slíkum Sigurlínuhlutverkum) og koma henni fyrir kattarnef til að nálgast einu vitnin um hvar peningarnir séu, börn hennar. Bróðirinn skilur hins vegar samstundis hið djöfullega eðli þessa vonbiðils og stendur vörð um yngri systur sína. Illmenninu tekst þó að lokum að króa stjúpbörn sín af en á elleftu stundu sleppa þau undan honum á bátkænu. Þar með er sögunni þó ekki lokið því að fólið eltir þau og hvílíkt fól! Hinn raulandi morðingi er einn sá demónskasti sem maður hefur séð á hvíta tjaldinu en þó er hann hvorki ósigrandi né ósæranlegur því að það er ekki sú kenning um illskuna sem höfundarnir sýna okkur; illskan er þvert á móti smá og aum en ekki miður hræðileg fyrir vikið.

Harry hefur meira og minna leikið á alla nema börnin og þau eru því nokkurn veginn bjargarlaus og hjálparlaus þegar þau rekur á fjörur ekkjunnar Rachel Cooper (í því hlutverki er þöglumyndastjarnan Lillian Gish sem lék einkum á sviði eftir að hljóðmyndin tók öll völd) en kona sú hefur tekið að sér ýmsa munaðarleysingja í miðjum harðindum kreppuáranna. Gamla konan reynist mun næmari á illskuna en aðrir og sér í gegnum predikarann þegar hann hefur þefað upp börnin hjá henni og kemur að sækja þau fullur af fölskum kristilegum kærleika. Morðinginn lætur sér þó ekki segjast og snýr aftur um nóttina líkt og úlfurinn sem eltir sólina og þá nær einvígi góðs og ills sínu hámarki. Gamla konan reynist enn útsjónarsöm og skýtur að lokum predikarann sem er að reyna að ráðast inn í húsið og hann flýr ýlfrandi eins og það huglausa villdýr sem hann er.

Myndinni lýkur annars vegar á réttarhöldum þar sem hetjulegi stóribróðirinn John bregst þegar mest liggur við og reynist ekki fær um það tilfinningalega að bera vitni gegn stjúpföðurnum sem er samt dæmdur fyrir morð sín. Engin væmni hér um litlu manneskjuna sem getur breytt rás heimsins. Síðan reynir trylltur múgur að ráðast á fangelsið til að fullnusta refsingu falspredikarans en hann sleppur frá honum og er í lok myndar á leið að hitta hengingaról böðulsins. Í öllu havaríinu heldur gamla konan stóískri ró sinni og marserar um göturnar eins og hæna með ungahóp. Myndmálið er mun áhrifaríkara en það sem gamla konan segir sem er einkum upp úr Biblíunni en úr munni hennar verða þessar þekktu goðsagnir samt sem nýjar og grundvallarandstæðurnar í þeim skýrast í ljósi atburðanna sem knýja þessa nútímasögu.

Laughton tók heilmikla listræna áhættu með þessu verki því að sagan er alls ekki sögð eftir formúlum og reglum. Í fyrstu virtist honum hafa mistekist en niðurstaðan er þó sú að áhorfendur hafa lært að meta list hans og af þessu geta listamenn lært að halda sínu striki fremur en að reyna að þóknast öllum. Skilningurinn kemur að lokum og The Night of the Hunter mun lengi lifa. Raunar er hún jólamynd því að henni lýkur á jólunum og þar með fáum við árlega afsökun til að endurnýja kynnin við hana í svartasta skammdeginu þegar kaþarsis-þörfin er hvað áleitnust.

Previous
Previous

Ég eignast ritsafn (í fæðingu) og það mig

Next
Next

Feigð æskumanns