Ég eignast ritsafn (í fæðingu) og það mig

Líklega dreymir alla rithöfunda um að koma dag einn út í látlausu ritsafni með samræmt útlit – látlausu vegna þess að sterkan höfund þarf auðvitað ekki að selja með íburðarmikilli kápu og mér áskotnuðust nýlega tvö slík rit, Sandárbókin og Hótelsumar eftir Gyrði Elíasson. Það verður afar freistandi að næla sér í allt safnið að lokum jafnvel þó að ég eigi langflest rit Gyrðis nú þegar og hann keppi reyndar við Guðberg og Halldór um flest rit í skáldsagnaskápnum heima sem allur er í stafrófsröð. Þó að ég hafi ella ekki lagt í vana minn að raða höfundum eða verkum eftir gæðum því að það eru engin vísindi vita þeir fáu nemendur sem ég hef kennt nútímabókmenntir á löngum kennsluferli (ætli misserin sem ég hef verið við kennslu séu ekki óðum að nálgast 50) að ég tel Gyrði einn fremsta höfund landsins seinustu öldina eða svo og hann hreppti raunar verðlaunin í fyrsta sinn sem ég settist í slíka nefnd (að mig minnir; ég er líka farinn að gleyma ýmsu sem ég hef gert, þyrfti kannski að fara að rita minningar mínar).

Þó að ég sé orðinn æ kaldlyndari gagnvart verðlaunum og orðuveitingum alls konar eftir að hafa kynnst fleiri verðlauna- og orðuhöfum persónulega ber því ekki að leyna að Norðurlandaráð hefur furðu oft verið nálægt mínum smekk ef til vill vegna þess að það er handan hins séríslenska skrums og meðal annars verðlaunaði það Gyrði eitt sinn mörgum íslenskum bókmenntaunnanda til mikillar gleði. Eins og fram kemur í þessari stuttu yfirlitsgrein (því að stuttar yfirlitsgreinar eiga til að varpa ljósi á stór efni með því að draga saman aðalatriði) er Gyrðir auðvitað ekki aðeins stór höfundur heldur Listamaður með stóru l-i og áhrif tónlistar og myndlistar greinileg í verkum hans, ma. Sandárbókinni sem hefur undirtitilinn pastoralsónata. Pastóralsinfonía Beethovens kemur líka við sögu í Hótelsumar þó að hún rati ekki í titilinn.

Það var áhugavert að lesa Sandárbókina og Hótelsumar saman í fyrsta sinn; ritsöfn eins og þetta etja lesendum sínum einmitt á það tiltekna forað að nálgast höfundinn sem heild og lesa hann í vitrænni röð eins og ég geri allt of sjaldan. Þó að mörg ritsöfn hljóti þau örlög að verða einbert stofustáss eru þau aldrei aðeins það heldur þvert á móti tilraun til heildstæðari skilnings og samanburðar sem getur verið gagnlegur ef vel væri á haldið. Mig langar þó ekki að greina bækurnar tvær í hörgul; þær eru fjarri því að vera erfiðar aflestrar en tilfinningin fyrir undirtexta er alltaf sterk, að hluta skapaður af öllum vísununum sem stækka söguheiminn (Eliot hefði kinkað kolli kátur) en kannski aðallega vegna alls sem ekki er sagt og hvernig skáldið fangar iðulega anda fremur en rökræna framvindu. Ég var fljótlega sokkinn í grufl um mann og stað í verkum Gyrðis og hvort hægt sé að lýsa því í stuttum netpósti en í þessum bókum báðum og mörgum fleiri skapast sterk staðarkennd og eins er einsemd sögumanns oft yfirþyrmandi þó að annað fólk sé á svæðinu, eins treginn sem sjaldan er með öllu útskýrður í burtu og samt er heilmikill gáski í báðum verkunum sem verður þó síst til að draga úr alvörunni eða sorginni. Sögumenn Gyrðis virðast oft svo einkennilega valdalitlir þó að lesandinn geti ekki annað en undrast þau sterku tök sem höfundurinn sjálfur hefur á list sinni og dáðst að þeim.

Previous
Previous

Grísku jólatröllin

Next
Next

Milli góðs og ills er stundum aðeins oggulítil kæna