Grísku jólatröllin

Góðvinur minn sem er venslaður til Grikklands sagði mér í sumar frá grísku djöflunum Καλικαντζαραίοι sem líkt og jólasveinarnir íslensku tengjast jólunum sterkum böndum en hafa þó engin tengsl við gjafir eða neitt jákvætt. Að sögn eyða þeir mestöllu árinu í að saga rætur heimstrésins en skríða síðan upp úr jörðunni á jólunum til að ógna mannfólkinu. Á meðan læknast heimstréð og þeir neyðast til að byrja að saga það upp á nýtt og endurtekur þetta sig ár hvert. Þessir djöflar eru dýrslegir og svartir að sjá og stundum eru þeim eignuð viðbjóðsleg lykt eða risavaxin kynfæri. Ýmis hjátrú er til á Grikklandi um hvernig skuli verjast þessum óvættum og börnum sem fæddust á jólum var talið sérstaklega ógnað þannig að við þurfti að hafa ýmsar seremóníur til að barnið breyttist ekki í Καλικαντζαραίοι en stundum gátu mennsk jólabörn eftir sem áður skilið djöflana betur en aðrir og jafnvel spjallað við þá.

Tengsl íslenskra óvætta við jólin eru líka vel þekkt því að sem kunnugt er voru jólasveinarnir þjófar og skelmar en á 20. öld fór fram mikil krúttvæðing þessara fornu trölla sem nú eru orðnir æ líkari þeim ameríska [„kólasveininum“) og halda litlu af demónsku eðli sínu öðru en skyldleikanum við Grýlu og Leppalúða. Heldur meiri ógn lifir enn í jólakettinum sem er þó frekar þversagnakennt kvikindi þar sem afar fáir eru haldnir ailurofóbíu, kettir eru líklega algengustu heimilisdýr í þéttbýli og ekki tiltakanlega hættulegir að sjá þrátt fyrir náin skyldleika við ljónin. Aftur á móti höfðu kettir líka hlutverk í fornri þjóðtrú og eimir enn eftir af því þegar svartur köttur verður á vegi manna.

Líklega eru fá nútímabörn hrædd við Grýlu lengur eða nokkuð svo gamalt og ekki heldur í minni bernsku enda var okkur sagt að Grýla væri dauð og hefði gefist upp á að róla sér á róluvellinum sem mér þykir enn fyndinn orðaleikur. Skessur voru aftur á móti enn til í skessuleik á mínum barnsárum og óttinn við hrekkjusvín var sterkur enda nóg af slíkum óvættum til í mínu ungdæmi þó að þau þekktust ekki lengur á því að nota vettlinga með tveimur þumlum. Löngu síðar varð netið að helsta fylgsni tröllanna og þau fara þar enn hamförum þó að ólíkt grísku tröllunum þykjast mörg tröllin á netinu og í svokölluðum fjölmiðlum stundum vera góð og eiga til í að mæta í opinská viðtöl um óvenju ríka réttlætiskennd sína (á meðan raunverulega gott fólk heldur sig fjarri fjölmiðlum og gorti).

Eins og lesendur Grettlu muna fórst ófétið Glámur á jólunum; svartasta skammdegið var ekki eingöngu hátíð ljóss og friðar á þeim árum heldur líka tíminn þegar enn neistaði í heiðninni.

Previous
Previous

Þrautaganga hermanns

Next
Next

Ég eignast ritsafn (í fæðingu) og það mig