Þrautaganga hermanns
Kvikmyndin 1917 sem ég sá í færeyska sjónvarpinu á Þorláksmessu er sennilega einhver áhrifamesta stríðsmynd sem ég hef séð og kannski sú síðasta því að þol mitt fyrir raunsæislegum blóðsúthellingum gerist æ minna með vaxandi aldri, aðallega fyrir kvikmyndatökuna sem færði Roger Deakins verðskulduð óskarsverðlaun fyrir fjórum árum en öll myndin virðist tekin í einu lagi líkt og leikrit þó að hún hafi augljóslega verið lagfærð síðar. Aðalpersónurnar eru í upphafi tvær, hermennirnir Blake og Schofield sem fá það erfiða verkefni að flytja skilaboð yfir víglínuna til að koma í veg fyrir hræðilegar blóðsúthellingar. Fyrir Blake er verkefnið persónulegt þar sem bróðir hans er í liðinu sem nær örugglega lætur lífið ef skilaboðin berast ekki. Myndavélin og við áhorfendur eltum þá upp úr skotgröfinni um langar eyðilendur stríðsátakanna, iðulega á hlaupum. Myndinni lýkur þegar Schofield situr undir tré eftir að hafa sinnt sendiför sinni og hitt bróður Blake.
Ástæðan fyrir að ég hafði ekki séð myndina fyrr er að ég vissi að það yrði erfitt að horfa á hana eins og Dunkirk á sínum tíma. 1917 er jafnvel enn erfiðari (og þar með sennilega enn betri) ef eitthvað er, undir skýrum áhrifum frá breska ruddaraunsæinu sem við þekkjum úr sjónvarpsþáttum eins og The Street og Skins forðum daga og einstaka bresku leikriti sem kemst á fjalir hér. Líka vegna þess að það eru aðeins tvær aðalpersónur og frá upphafi er maður handviss um að að minnsta kosti annar þeirra láti lífið enda fer svo og á frekar ömurlegan hátt, eftir að þeir hafa bjargað þýskum flugmanni úr brennandi flugvél. Sá þakkar fyrir sig með því að stinga bjargvættinn Blake til bana og enginn möguleiki er að bjarga honum frá óþægilega hægu dauðastríði. Félagi hans Schofield reynir að bera hann til bjargar en þeir eru á víðavangi og það er vonlaust verk; í staðinn fær hann það verkefnið að flytja bróðurnum hinstu kveðju stráksins. Þegar Blake spyr Schofield hvort hann sé að deyja og Schofield hikar smá en jánkar síðan var ég feginn að vera ekki í myrkvuðum bíósal innan um fólk heldur einn heima um miðjan dag. Líklega sá ég Dunkirk líka á Þorláksmessu eða aðfangadag fyrir örfáum árum því að hún var stöðugt í huga mér.
1917 er þó enn óhugnanlega raunverulegri og erfiðari, ekki aðeins þegar Blake deyr eftir að hafa fölnað hratt af blóðmissi eða þegar Schofield flytur bróður hans fréttirnar. Öll ferðin er erfið, líkt og ferðir geta verið þótt enginn sé að skjóta á mann eins og raunin er þarna, jafnvel þegar hvílst er eins og þegar Schofield er í skógi og gengur á hljóðið þar sem söngur kveður við og hlustar í kjölfarið á hermann syngja fyrir herinn á fágætri hvíldarstund – það ljúfsára atriði hafði ég séð áður á netinu enda hreif það marga fyrir fjórum árum þegar myndin var frumsýnd. Jafnvel þó að sendiför hans sé að lokum vel heppnuð, hann rati þannig til ofurstans sem hann á að flytja hin mikilvægu boð (sem reynist vera sjálfur Benedict Cumberbatch) og bjargi mannslífum eins og til stóð er sigurgleðin fjarri enda óvíst hvaða gagn er að því að þessari tilteknu orustu sé frestað. Þar skiptir miklu máli að George MacKay sem leikur Schofield er fölur og eymdarlegur og brosir aldrei, svolítið eins og fólk sem við sjáum á myndum frá upphafi 20. aldar. Þegar hann fær far hjá hermönnum sem eru að létta sér lund með því að grínast með eftirhermum verður svipur hans áþreifanlega eymdarlegri í samanburðinum.
Eftir að Blake er horfinn breytir myndin mjög um eðli og nærvera hans í fyrstu gerir einsemd Schofields í lunganum af myndinni líklega áleitnari. Boðskapur myndarinnar er alls ekki að stríðið breyti mönnum í villidýr. Þvert á móti sýna ýmsir Schofield samúð og manngæsku á leiðinni, bæði hermenn og venjulegt fólk. Það eru fyrst og fremst aðstæðurnar sem eru hörmulegar og þyngri en tárum taki; þó að sendiför manngreysins sé vitræn og ekkert þrugl eins og hjá Spielberg forðum daga er auðvitað samt ekkert vit í stríðinu sem rammar hana inn og ekki nokkur maður skilur lengur til hvers þetta tiltekna stríð var háð sem er ágætt að hafa í huga á tímum vaxandi stríðsáróðurs þar sem áhrifafólk er farið að tala á svipaðan hátt og gert var fyrir 1914.