Emmu var sárt saknað

Thomas Hardy er vitaskuld þekktur skáldsagnahöfundur en ef því að ég á snillinga að vinum fékk ég það verkefni fyrir jól að kynna mér ljóð hans. Þau voru mörg ort upp úr 1912 þegar Emma kona hans lést en árið 1914 giftist hann á ný, ritara sínum Florence sem var fjórum áratugum yngri en hann, ekki eina skáldið sem hefur gifst 40 árum yngri ritara sínum (já ég er að tala um þig, T.S.!); vonandi voru þær þó allar þyngri en 45 kíló. Það einkennilega við ljóðaflóð Hardy eftir lát Emmu var að þetta var ekki beinlínis vel lukkað hjónaband að neins manns dómi, Thomas og Emma voru orðin afar þreytt hvert á öðru og Emma skrifaði ýmsar drepfyndnar dagbókarfærslur um grenjandi sjálfsvorkunnarrithöfunda á efri árum. Augljóslega hentaði Florence skáldsnillingnum Hardy betur í ellinni en samt helltist yfir hann mikil sorg þegar Emma lést árið 1912 og þá orti hann flestöll varðveitt ljóð sín sem mörgum finnst núna betri en skáldsögurnar sem hann var þekktastur fyrir alla sína ævi og fram á okkar daga.

Hardy orti meðal annars ljóðið „The Going“ sem nú er viðurkennt sem snilldarverk og hefst svona: „Why did you give no hint that night / That quickly after the morrow's dawn, / And calmly, as if indifferent quite, / You would close your term here, up and be gone / Where I could not follow / With wing of swallow / To gain one glimpse of you ever anon!“ Kannski eru það þessar miklu og sáru tilfinningar sem brjótast hér í gegn sem hafa heillað ljóðunnendur seinni ára, enn heitari vegna þess að þær eru blendnar því að Hardy var ekki lengur ástfanginn af Emmu en þar með er ekki sagt að hann hafi verið tilfinningalaus. Maður getur ekki annað en vorkennt veslings Florence sem fyrst þurfti að vera þriðja hjól undir þessum óhamingjuvagni og vera síðan Hardy til halds og trausts meðan hann syrgði Emmu svona óheft. Og auðvitað er þetta ekki aðeins sorg sem skekur skáldið heldur ekki síður iðrun og eftirsjá og kannski eru ljóðin betri þess vegna. Jafnvel tíu árum eftir andlát Emmu var Hardy enn að yrkja um hana, rækilega rímuð ljóð sem næstum minna á dægurlagatexta.

Þið hélduð eflaust flest að Thomas Hardy væri aðeins höfundur langra og deprímerandi 19. aldar skáldsagna þar sem börn hengja sig af því að þau heyrðu foreldra sína tala um „of marga munna að metta“ en ljóðin eru sem sagt metin ívið hærra þessa dagana. Tvö sem hafa sérstaklega lifað í minni mínu síðustu vikur eru „The Phantom Horsewoman“ og „The Self-Unseeing“ en hann samdi líka gáskafull ljóð og jafnvel hefðbundnari söguljóð, ævinlega rímuð í drasl þannig að stundum verður erfitt að taka þau alvarlega; slík eru örlög tjáningar í rími. Í skáldsögunum er Hardy oftast staddur í sögu sinni en í ljóðunum, t.d. í „The Self-Unseeing“ er hann eins og utan við eigin texta að hugleiða hið liðna, næstum eins og draugur, líkt og honum finnist gærdagurinn hinn eiginlegi tími ljóðlistarinnar. Hardy er fyrirferðarmikill í eigin ljóðum, sviðsetjandi sig sem undrandi vitnið sem getur ekki hætt að hugsa um fortíðina. En samt tekst honum þar með að láta mann hugsa ívið meira um fortíðina sem yfirþyrmandi hluta af lífi manns, enda nútíminn aðeins andartak og framtíðin einvörðungu hugmynd, og eins til að skilja að það er enginn hægðarleikur að ná tökum á þessu mikla veldi fortíðarinnar.

Previous
Previous

Fágaður hefndarhugur

Next
Next

Þrautaganga hermanns