Fágaður hefndarhugur
Alexandre Dumas eldri (eða „pabbi“ á frummálinu) var sagður múlatti í Samvinnunni forðum daga en um það vissi ég ekkert; þekkti hann í bernsku aðeins sem höfund Skyttanna þriggja. Síðar kynntist ég öðru verki hans, Greifanum af Monte-Cristo, í stórmerkilegri franskri aðlögun þar sem Gérard Depardieu lék „greifann“ sem er gjarnan í dulargervi, einum 7-8, og líklega var það aukabrandari að Gérard með gervinef er samt augljóslega Gérard. Þetta var stórkostlegur þáttur, minnir mig, sem setti svip sinn á aðventuna fyrir aldarfjórðungi (sömu aðilar gerðu svo Vesalingana með Gérard nokkrum árum síðar) en núna um jólin sá ég nýjan þátt í danska sjónvarpinu vegna þess að ég elska að horfa á heilu þættina um jólin á milli þess sem ég spæni í mig bækur á fornum hraða sem annars setur ekki lengur svip á lestur minn. Þetta mun vera ítalskur þáttur en leikstjórinn hinn danski Bille August og í aðalhlutverki hinn enski Sam Claflin (sem einhverjir muna eftir úr Hungurleikunum) en franskir og ítalskir leikarar einnig áberandi. Það er engin leið að jafnast á við franska þáttinn sem var stórkostlegur en mér líkaði samt vel við þann nýja enda staðráðinn í því að njóta þessa jólaefnis og svo er hann bara heldur sterkari en ég átti von á, meðal annars veisla fyrir augað og eyrað (tónlistin er mjög viðeigandi og eftir Þjóðverjann Volker Bertelmann sem er greinilega sjónvarps- og kvikmyndatónskáld á uppleið).
Allir sem hafa orðið fyrir barðinu á heiftúðugri öfund óvildarmanna í garð sín og sinna hljóta að skilja löngunina til að hefna þó að síðar verði og þessi saga var sérlega tímabær fyrir mig einmitt þessi jól. Sú hefnd sem Greifinn snýst um er samt engin meðalmennska heldur þvert á móti afar fáguð og flókin (mig minnir að orðið „raffinement“ hafi verið endurtekið í franska þættinum á sínum tíma). Hinir heiftræknu Mondego og Danglars hafa nýtt sér ótta og veika stöðu saksóknarans Villefort og ragmennsku kráareigandans Caderousse, beitt sér gegn hinum nýtrúlofaða og forframaða Edmond Dantes vegna öfundar og afbrýðissemi og rænt hann æsku sinni með því að koma honum í fangelsi á eynni If. Hann snýr löngu síðar aftur dulbúinn sem greifinn af Monte-Cristo. Hans eini tilgangur í lífinu er hefnd en þar sem samfélagið er flókið þarf hefndin einnig að vera það líka. Það er einmitt það sem einkennir söguna sem er fjarri því að vera einföld hefndarsaga heldur verður sneiðmynd af flóknu frönsku samfélagi á dögum Loðvíks Filippusar konungs. Mörg falleg og ríkmannleg hús sjást þannig í þáttunum en heill þáttur gerist í nöturlegu fangelsi þar sem Dantes þarf að hafa sig allan við til að halda lífi og það er í þeim þætti sem þátturinn fer virkilega að hertaka áhorfandann.
Það er ábóti nokkur sem bjargar lífi Dantes í fangelsinu og arfleiðir hann að fjársjóð nokkrum sem falinn er á Monte Cristo. Sá er leikinn af Jeremy Irons í þessum þætti og er Irons eðlilega senuþjófurinn í þessari gerð verksins; hann sýnir og sannar að hann er á öðrum stað en flestir leikarar eins og ég hef raunar rætt áður. Áður en nýtt líf hans hefst leitar „greifinn“ til annars prests og ræðir hefnd og fyrirgefningu við hann. Ekki hlustar hann þó á prestinn en afræður að lokum að í ljósi þess að glæpurinn gegn honum var fágaður þurfi hefndin að vera álíka fáguð og óvini hans þrjá beri að seigdrepa. Þess vegna hefst nú blekkingarleikur mikill í Róm þar sem „greifinn“ sviðsetur mannrán á syni helsta óvinar hans (eftir að hafa áður menntað drenginn með því að sýna honum opinbera aftöku, sjá myndina efst en svipur sonarins, leikarans í miðjunni, er góður) og notar soninn síðan sem aðgöngumiða að öllum helstu óvinum sínum í París. Um leið er hann vel tengdur inn í ítölsku mafíuna sem kemur sér vel fyrir mann í hefndarhug. Þó að Sam Claflin sé að keppa við sjálfan Depardieu tekst honum að lokum að gera hlutverkið að sínu, einkum þegar hann er farinn að leika „greifann“ miðaldra, mann sem er sjálfur í hlutverki og ekkert raunverulegt við hann nema hefndarþorstinn. Hann á aldrei séns í að vera jafn fyndinn og Gérard en Bille August er ekki heldur að stíla upp á húmorinn í sinni gerð.
Hið illa þríeyki reynist hafa ýmis lík í lestinni og „greifinn“ leikur sér að þeim líkt og köttur að mús dágóða stund; þetta er vel þekkt flétta úr kvikmyndum Kurosawa, Leone, Hrafns Gunnlaugssonar og Robert Eggers svo að ekki sé minnst á Hrafnkels sögu Freysgoða. Að lokum er það samt kannski ekki aðallega hefnd hans sem fellir óvinina heldur þeirra eigin brestir; það vantar ekki heimatilbúna ógæfu í þessum potti og „greifinn“ þarf fátt að gera annað en að hræra í honum. Að lokum verða allt aðrir glæpir en gamla falska ákæran gegn honum hverjum og einum þeirra að falli. Sagan verður þannig æ flóknari og eins andlegt og siðferðislegt ástand „greifans“ sem er alls ekki eingöngu knúinn áfram af hatri heldur einnig ást og þakklæti til þeirra sem hafa reynst honum vel, s.s. Morrell-feðganna og heitkonunnar Mercedes. Með auðæfum sínum nær hann að kaupa sér fleiri vini og bandamenn (meðal annars í undirheimunum) og þau sambönd eru líka furðu sterk því að á endanum fjallar þessi 19. aldar saga ekki síst um það hvernig fjármunir opna allar dyr og upprisa „greifans“ varla möguleg án þeirra. Eins hvernig munurinn á hefnd og réttlæti er óviss og hið sama gildir um mögulegt hlutverk almættisins í að útdeila hvorutveggja.
Hvers vegna höfðar sagan um hefnd „greifans“ til allra kynslóða í hartnær 200 ár? Fyrir utan þennan nýja sjónvarpsþátt er frönsk stórmynd eftir sögunni nýlega frumsýnd og verður rædd hér á síðunni ef tilefni gefst til. Vitaskuld eru margir sem verðskulda hefnd eins og áður kom fram en kannski er sagan enn vinsæl vegna þess hversu margar hliðar eru á henni og engin afstaða tekin með hefndarþorstanum. Þvert á móti er gefið til kynna að „greifinn“ sé ef til vill ekki endilega mikið fremri en mennirnir sem rændu hann öllu. Þó að grundvallarfléttan með andstæðum sínum sé skýr og einföld liðast sagan í allar áttir, óþokkar sögunnar eiga geðþekka ættingja sem verðskulda ekkert nema gott frá „greifanum“ og þannig er hættan stöðugt fyrir hendi að hefndin bitni á saklausum. Þá lifir sú spurning hvort iðrun illvirkjanna sé möguleg og hvernig beri þá að meta glæpi þeirra, hvenær sé of langt gengið og hvenær sannleikurinn um fólk sé fundinn. Leikararnir í þessari aðlögun Bille August ná vel utan um þessar flóknu manngerðir og flókin sambönd þeirra, og jafnast þegar best gerist við Frakkana sem miðluðu sögunni svo eftirminnilega fyrir aldarfjórðungi.