Málaferlamenningarhetjur
Einhverjum gæti fundist orðið „mannréttindalögfræðingur“ viðlíka oxymoron og „metsöluljóðskáld“ en ei ber því að leyna að undanfarna áratugi ber sífellt meira á yfirlýstum dyggðugum en rukkunardrjúgum alþýðuvinum í stéttinni sem greinilega vilja skapa sér öðruvísi ímynd en lögfræðingar höfðu mestalla 20. öld eftir að hafa verið menningarhetjur tæpum tíu öldum fyrr, á tímum Njálu. Einn slíkur er söguhetjan í kvikmyndinni Sýknaður (e. Reversal of Fortune) sem ég minnist að hafa séð í bíó árið 1991. Áður hafði ég heilmikið lesið um sjálft sakamálið í dönsku blöðunum vegna þess að höfuðpersóna þess Claus von Bülow var danskur og hét raunar Borberg réttu nafni (móðir hans var von Bülow) en giftist hinni forríku Mörtu Crawford (kölluð ‘Sunny’) sem féll í dá árið 1980 og lá í dái í hartnær 30 ár eftir meinta morðtilraun hans. Myndin var reyndar svo eftirminnileg að flest úr henni var kunnuglegt þegar ég sá hana fyrr á árinu á Prime sem þessa dagana er fullt af gömlum og góðum myndum, einmitt þegar ég ætlaði að fara að segja stöðinni upp.
Við dönskublaðalesendur þekktum vel von Bülow sem sköllóttan og ekkert sérstaklega myndarlegan karl en í myndinni er hann leikinn af Jeremy Irons sem tekst að gera dansk-enskan framburð mannsins afar ískyggilegan. Mig minnir að Irons hafi fengið óskarsverðlaun fyrir leik sinn í myndinni og er sá heiður verðskuldaður þó að Jeremy hafi iðulega staðið sig álíka vel en akademían þar í landi elskar ævisögulega rmyndir umfram flest annað. Gráglettinn húmor er helsta einkenni von Bülows í myndinni, það blasir við að hann er skúrkur af einhverju tagi og við fáum aldrei að vita hvort hann var sekur eða saklaus af morðtilrauninni. Fjölskylda Sunny von Bülow kemur einnig talsvert við sögu og hin fræga sviðsleikkona Uta Hagen er í hlutverki Mariu Schrallhammer, þýskrar einkaþjónustu Sunny sem varð helsta vitni ákæruvaldsins og var eftirminnileg okkur dönskublaðalesendum (en ég hef ekki komist að því hvort hún lifir enn í hárri elli).
Myndin er gerð eftir bók Alan Dershowitz (f. 1938) lögfræðings og prófessors við Harvard sem náði með henni að gera sig talsverða menningarhetju í Bandaríkjunum en staða verjandans sem hetju þar í landi er þó að breytast eftir því sem refsigleði bandarískra „vinstrimanna“ eykst og hann er í auknum mæli kvaddur til að verja ríka karlpunga og eins hefur ákafur stuðningur Dershowitz við Ísrael gert hann umdeildan. Hann heldur þó áfram að vera Demókrati en er víst heldur hægrisinnaðri en áður. Hann er afar sympatískur í myndinni, leikinn af Ron Silver (sem líkt og Dershowitz og sjálft Ísrael færðist vel til hægri með aldrinum og endaðI sem helsti aðdáandi hryðjuverkastríðsins áður en hann andaðist árið 2009), ekki síst vegna góðs sambands við sjarmerandi son sinn og mikinn fjölda stúdenta og aðstoðarmanna sem fá þokkalegt rými í myndinni. Húsið hans er eins og kommúna þar sem mikill fjöldi eitursnjallra ungmenna vinnur að öllum hliðum málsins fyrir ríka manninn, kannski heldur meiri mannauður en unnt er að safna saman á Íslandi nema í stöku kosningabaráttu eða þegar mestu katastrófur ganga yfir.
Yfir myndinni vomir sjálft fórnarlambið, Martha ‘Sunny’ von Bülow, fædd Crawford (en auður hennar var ekki síður í móðurættinni sem hét Warmack). Hún var áður gift prinsi og átti tvö börn sem eru stjúpbörn Claus en eina dóttur með honum. Á jólunum 1979 féll hún í dá, rankaði úr því aftur en féll svo í annað dá rétt fyrir jólin 1980 og lá í því fram í andlátið árið 2008. Börn prinsins trúðu öllu illu upp á Claus og kannski reyndi hann að myrða hana en sögumaðurinn ‘Sunny’, leikin af Glenn Close, segir okkur það aldrei. Það er bíræfin ákvörðun að láta hana segja hluta sögunnar úr dái sínu og verri leikkona hefði getað klúðrað því en auðvitað ekki Glenn Close sem er samt aldrei 100% sympatísk í neinu hlutverki og er það hluti af styrk hennar. Hið heilbrigða líf Dershowitz og akademískrar kommúnu hans myndar skemmtilega andstæðu við hið mædda og gleðisnauða líf ríku konunnar í höllinni sem hugsanlega misnotaði lyf og reyndi að fremja sjálfsmorð þó að það viti í raun enginn. Þeim tekst að lokum að vinna málið og Claus sleppur við fangelsi en er hugsanlega sekur fyrir því, varnarliðið er alls ekki visst og vofan í dáinu lætur ekkert uppi.