Mannætan Gustave

Í bernsku fékk ég ítrekað martraðir um dýr. Hundar voru áberandi eftir viðureign mína við einn slíkan en enn fremur dreymdi mig risavaxna ísbirni, eflaust undir áhrifum frá Selnum Snorra sem ég man að var lesinn fyrir okkur í leikskólanum. Ég hafði líka séð ísbirni í sædýrasafninu og líkaði ekki augnaráðið. Það er afar ósennilegt að ég muni nokkurn tíma fara í safaríferð til Afríku en hef nýverið skoðað ýmis myndbönd á netinu þar sem sagt er frá fólki sem opnaði bílgluggann í slíkum ferðum og var samstundis rifið í tætlur af illskeyttu ljóni. Þar má líka finna myndbönd um túrista sem voru svo önnum kafnir að taka myndir af grábjörnum í Kanada að þeir tóku ekki eftir því að björninn kom nær og nær og urðu þetta því síðustu myndirnar á símum þeirra. Það er huggun harmi gegn að allt þetta fólk náði sannarlega að fara út fyrir þægindarammann.

Það var óhjákvæmilegt að ég kynnti mér þá að lokum risavaxna Nílarkrókódílinn Gustave sem heldur alla jafna til í Burundi og mun hafa lagt sér til munns næstum 300 manns en hverfur jafnan að drápi loknu. Að sögn er Gustave aldargamall en aðrir telja hann sjötugan. Einstakir krókódílar geta víst orðið ansi gamlir og tegundin er sannarlega meðal elstu dýrategunda sem nú lifir og voru víst samtíða grameðlunni fyrir tugum milljóna ára líkt og hákarlar. Kannski er það sá virðulegi aldur sem veldur ótta mannkynsins við þessar skepnur — sem glöggt má sjá í kvikmyndunum um James Bond, einkum þeirri þar sem báðar tegundir reyna að innbyrða 007 — nema það sé hræðilegt eðluútlit þeirra. En hræðilegastur allra krókódíla er Gustave sem ætti að vera a.m.k. jafn frægur og Loch Ness skrímslið og snjómaðurinn ægilegi (að ógleymdu Katanesdýrinu). Öfugt við ýmis önnur mannætudýr hefur hann aldrei náðst en margir hafa reynt. Um eina tilraunina til að ná honum hefur verið gerð heimildarmynd og hún varð innblástur að leikinni mynd árið 2007. Þá er fjöld fræðsluefnis um Gustave á netinu og að sjálfsögðu hef ég séð það allt. Hann hefur náðst á mynd nokkrum sinnum og meðal annars sjást flóðhestar flýja þennan vatnakonung.

Raunar er deitl um hvort Gustave borðar menn eða lætur sér nægja að drepa þá og skilur líkin eftir handa hræætum. Sumir fullyrða að mennsk fjöldamorð í Búrúndi þar sem líkum var kastað í Tanganykavatnið hafi komið Gustave á bragðið. Eins er það hluti sögunnar að vegna yfirþyrmandi stærðar eigi hann erfitt með að eltast við marga hefðbundna bráð krókódíla en í staðinn leggst hann á stærri dýr á borð við menn. Að sögn getur enginn fangað Gustave og jafnvel hefur sést til hans hlæja að sérsmíðuðu gildrunum. Reynt var að egna hann með geit en ekki dugði það til að fanga Gustave. Geitin hvarf hins vegar og vera má að Gustave hafi étið hana. Einhvern gleðst ég bara við þetta, finnst að geitin hafi verið innbyrt af geitinni, óöruggur um hvort ég held með mannkyninu eða Gustave.

Previous
Previous

Málaferlamenningarhetjur

Next
Next

Heillandi hamfarir