Heillandi hamfarir

Í covidinu fyrir nokkrum árum sýndi danska sjónvarpið ensk-alþjóðlegu þættina World on Fire sem sannarlega gerðu sitt gagn með því að setja þær hremmingar sem samfélagið varð fyrir vorið 2020 í samhengi. Sögð var saga venjulegs fólks í stríðshörmungum frá sumrinu 1939 til sumarsins 1940 og í aðalhlutverkum voru frægir leikarar eins og Helen Hunt, Sean Bean og Lesley Manville. Hópsöguformið er notað í þáttunum til að skoða ýmsar hliðar stórviðburðarins, þar á meðal þær sem sjaldan er rætt um, t.d. hildarleikinn í Póllandi í upphafi stríðs. Nýlega kom svo önnur þáttaröð í danska sjónvarpið en mér skilst að þær verði ekki fleiri. Sennilega var framleiðslan of dýr og áhuginn of lítill því að seinni heimsstyrjöldin er núna orðin fjarlægur viðburður, fjarlægari í tíma en sú fyrri var í mínu ungdæmi. Það er þó eiginlega synd því að vel tókst til í þættinum, hann var tiltölulega tilgerðarlaus og margar sögurnar átakanlegar. Þær fjalla allar um fólk sem er algerlega á valdi örlaganna sem er auðvitað víðs fjarri draumi nútímamannsins um að skilgreina eigið líf og sjálf og hafa full völd yfir því.

Langáhugaverðasta persónan í þáttunum er hin gamla ríka Robina Chase sem hin stórkostlega leikkona Lesley Manville leikur af miklum bravúr. Hún er dæmigerð yfirstéttarpía sem hefur mikinn metnað fyrir hönd sonar síns Harry en ber þó litlar sýnilegar tilfinningar til hans enda Harry illa skemmdur þó að hann vilji vel. Þegar Harry snýr aftur frá Póllandi reynist hann giftur en tekur þó ekki eiginkonuna með heldur litla bróður hennar Jan sem hann skilur síðan eftir hjá mömmunni. Ekki henni til mikillar gleði í fyrstu en smám saman kynnast þau Jan og verða mun nánari en þau Harry urðu nokkru sinni. Þetta er falleg og vel gerð saga með tveimur úrvalsleikurum (hinn ungi Eryk Biedunkiewicz stendur sig líka mjög vel) og þó aðeins væri vegna þessara tveggja hefði verið gaman að fá að vita meira um hvernig fór fyrir persónunum. Það er gott að vita að eftir stríðið tóku við mörg góð ár bjartsýni og félagslegra framfara allt fram yfir 1970 og maður getur leyft sér að hafa vonir fyrir hönd Jan og Robinu.

Annað efni þáttarins eru miklu hefðbundnari hasarsögur, hermenn flækjast um í Dunkirk og afrísku eyðimörkinni, andspyrnuhreyfingin berst hetjulega en stundum grimmdarlega en á samt voðaleg örlög í vændum. Þetta eru ekki sjálfskipaðir „hvítir frelsarar“ að sviðsetja eigin mannréttindabaráttu fjarri heimaslóð heldur venjulegar manneskjur sem þurfa að eiga við flóknar aðstæður sínar. Fela þarf hina og þessa fyrir nasistum sem koma skelfilega fram við andstæðinga sína en líka illa við eigin þegna. Í 2. syrpu er meðal annars sýnt hvernig farið er með ungar konur sem áttu að verða „hetjumæður“ þriðja ríkisins. Helen Hunt var áberandi í fyrstu syrpunni sem bandarísk blaðakona. Síðan það rann upp fyrir mér að fjölmiðlar heimsins hafa alllengi verið í fullu starfi við að grafa undan lýðræðinu og ryðja brautina fyrir fasisma (Trump forseti var býsna góður árangur hjá þeim) leiðast mér hetjusögur um blaðamenn ógurlega og Hunt var ekki mjög skemmtileg í þættinum þó að hún sé annars góð leikkona. Í sömu syrpu lék Sean Bean friðarsinnaðan pabba sem er dáinn í 2. syrpu — sem er auðvitað í góðu samræmi við „Sean Bean er bráðfeigur“ regluna vel þekktu.

Þó að sparlega sé farið með aðalpersónur þáttanna er heildarboðskapur syrpunnar sá að stríð sé ekkert sem nokkur gæti óskað eftir eða fært um að laga nokkurn skapaðan hlut sem er mikilvægur boðskapur á tímum þar sem kunnuglegar stríðsæsingar eru farnar að heyrast enn á ný og margir sem sækjast eftir völdum virðast þrá meira stríð og átök. BBC hefur enn ekki skýrt hvers vegna ekki var farið alla leið til stríðsloka árið 1945 með þáttinn en vonandi er það ekki vegna þess að viljinn til að horfast í augu við raunveruleika stríðsátaka fari minnkandi.

Previous
Previous

Mannætan Gustave

Next
Next

Danir lífga upp á fornnorrænar goðsagnir