Danir lífga upp á fornnorrænar goðsagnir

Ég kynntist ungur Valhallarteiknimyndasögum Peter Madsen og Henning Kure og þær hafa mótað hugmyndir mínar um útlit helstu Ása og Vana. Sú fyrsta kom út árið 1979 en þá voru höfundarnir Madsen og Kure kornungir, Kure 26 ára og Madsen aðeins rúmlega tvítugur. Alls eru Valhallarbækurnar fimmtán, komu út á 30 árum og þær hafa verið feykilega áhrifamiklar í menningunni. Að sögn mun teiknarinn Mik (1915–1982) hafa haft mikil áhrif á þá Madsen og Kure en ekki má heldur gleyma snillingnum René Goscinny (1926–1977) sem skapaði hina sérkennilega samblöndu gamans og alvöru sem mótaði evrópsku teiknimyndasöguna á síðari hluta 20. aldar. Madsen og sérstaklega Kure eru engu minni írónistar en sjálfur Goscinny og eflaust á það sinn þátt í vinsældum sagnanna.

Þriðja bókin í röðinni, Veðmál Óðins, birtist í Billed-Bladet árið 1982 og mig minnir að við höfum klippt út síðurnar og búið til okkar eigið hefti. Þar voru bræður Óðins Vilji og Vé áberandi en einnig er unnið með söguna um Ragnar loðbrók sem ég kynntist þar í fyrsta sinn og eins söguna í Hárbarðsljóðum. Ásamt Madsen og Kure var Hans Rancke-Madsen (1956–2015) textahöfundur og fléttan er haganleg og snjöll. Í fyrstu bókinni, Úlfurinn bundinn, eru Þjálfi og Röskva í öndvegi og sjónarhornið hjá þeim. Ef til vill höfðu vinsældir bókarinnar á Íslandi áhrif á íslenska stúdentapólitík og sannarlega man ég enn myndina af því þegar Þjálfi „braut til mergjar“ bein sem óviturlegt var að brjóta.

Kure og félagar voru fundvísir á góðar sögur úr Snorra-Eddu og tóku sér umtalsvert skáldaleyfi. Ég kynntist Henning Kure síðar persónulega í Danmörku haustið 1998 og þótti hann feykilega frjór og skapandi maður með brennandi áhuga á norrænum fræðum. Meðal annars skrifaði Kure síðar bók um norrænar goðsögur. Afrek hans og Madsens minna okkur á að það eru alls ekki endilega Íslendingar sem hafa náð bestum árangri í að vinna með norrænan menningararf í nútímanum. Arfurinn er ekki okkar einkaeign og stundum standa Danir, Norðmenn og Svíar sig betur en við í að miðla honum til tæknialdarkrakka.

Previous
Previous

Heillandi hamfarir

Next
Next

Viðkvæm vöðvabúnt