Viðkvæm vöðvabúnt

Núna þegar Einar leikfimikennari í Langholtsskóla er látinn í hárri elli hef ég heiðrað minningu hans með því að horfa á bíómyndir um fólk sem var það sem ég varð aldrei, þ.e. áhugasamt um íþróttir. Járnklóin heitir nýleg kvikmynd um fjölbragðaglímufjölskylduna von Erich sem í raun hét Adkisson en fjölskyldufaðirinn Jack ákvað að glíma undir nafninu Fritz von Erich með ýmsum skírskotunum í nasismann en það er allt hluti af þeim undarlega leik sem fjölbragðaglíman í Bandaríkjunum er. Hann átti sex syni og fetuðu flestir í fóstpor hans í íþróttinni en fimm þeir dóu á undan föðurnum sem þó varð aðeins 68 ára. Einn lifði og er sá leikinn af Zac Efron sem ég sá fyrst leika sympatískan mjóan ungling í Summerland á frjálsri sjónvarpsstöð upp úr aldamótunum en er í þessari mynd útblásið vöðvabúnt af því tagi sem veldur mér hreinlega líkamlegum óþægindum að horfa á og hefur gert alla tíð síðan ég sá fyrstu íslensku vaxtaræktartröllin fyrir 40 árum. Með önnur hlutverk sonanna fara Harris Dickinson úr Triangle of Sadness og Jeremy Allen White sem mun hafa slegið í gegn í sjónvarpsþáttum sem ég hef enn ekki séð og svo fjórði leikarinn sem ég hef aldrei séð áður en líkist glaðlega sænska þjóninum á Jörgensen. Þessir synir heita Kevin, Kerry, David og Mike en auk þess átti von Eck soninn Chris sem var yngstur og er einfaldlega sleppt úr myndinni; frekar illa farið með Chris. Þrír bræður (Chris, Mike og Kerry) frömdu sjálfsmorð en sá fjórði (David) dó úr eins konar ristilmeini sem tengdist e.t.v. eiturlyfjaneyslu en allir voru þeir sídópandi eins og algengt er meðal bardagaíþróttamanna, vöðvafjalla og annarra íþróttamanna og versnar iðulega um helming þegar þeir slasast.

Helsta afrek myndarinnar er að fá mann til að taka þessum grótesku vöðvabúntum sem manneskjum og myndin virðist aðallega snúast um þennan hræðilega pabba sem er eins konar Joe Jackson en er leikinn af vinalega lögreglumanninum úr Mindhunter. En finnst mér þetta vera íþrótt? Eiginlega ekki. Það er heldur einfaldara að fá samúð með sundkonunni Diönu Nyad sem ákvað upp úr sextugu að synda frá Kúbu til Florida; sannarlega minnir hún meira á íþróttaanda Einars heitins en öll buffin. Ekki síst vegna þess að kvikmyndin um hana veitir manni sterka tilfinningu fyrir því hversu seigdrepandi þessi lífsreynsla hefur verið. Annette Bening og Jodie Foster leika aðalhlutverkin í myndinni Nyad sem fjallar um þessa gömlu íþróttakonu sem er að sumu leyti þræll sama hugarfars og von Erich drengirnir (keppnisskap, athyglissýki, hófleysi) en hennar saga er ekki sorgarsaga því að henni tókst að lokum 64 ára gamalli að afreka það sem hana dreymdi um með aðstoð þjálfarans og vinkonunnar Bonnie Stoll. Eins er sundafrekið sjálft víst mjög ólíkt í myndinni en það var í raun, þ.e. heldur viðameira í veruleikanum og fleiri hjálparhellur. Hollywood hefur mikinn áhuga á ævisögum en lítinn á raunveruleikanum. Ég beið spenntur eftir að hákarlinn úr Kjamma skyti upp kollinum þegar Nyad var á svamli — en svo snýst þetta meira um veður og hafstrauma og marglytturnar ekki síður hættulegar en hákarlarnir.

Það sem heldur myndinni uppi eru vitaskuld leikkonurnar Annette Bening og Jodie Foster; líklega myndi maður horfa á þær leika hvor á móti annarri í mynd um nánast hvað sem er. Aðalpersónan Nyad er yfirþyrmandi og iðulega óþolandi sem er nýjung í þessari tegund hetjumynda; bíómyndir skauta iðulega framhjá því hversu illþolandi afreksfólk er gjarnan. Bening leikur hana af nákvæmri ákefð; hún er stórkostleg leikkona og í góðu sambandi við athyglissýki og sjálfhverfu persónunnar. Þjálfarinn Bonnie er stuðpúði hennar, flóknari persóna sem hefur allan sjarmann og samskiptahæfileikana sem afrekskonuna vantar og það er hún sem fær mann til að styðja þetta galna fyrirtæki sundkonunnar. Jodie Foster hefur enda fengið meiri athygli fyrir frammistöðu sína hér en í nokkru öðru síðan hinni stórkostlegu Carnage fyrir 13 árum. Ég hef þekkt Jodie allt mitt líf frá því að ég sá hana í Bugsy Malone sex ára gamall og hef jafnvel hugleitt einungis hennar vegna að horfa á True Detective sem hefur þó ekki verið lýst fallega við mig. En í staðinn sá ég Nyad og varð ekki fyrir vonbrigðum, eiginlega er það ekki síður Jodie en Annette sem heldur uppi myndinni og Rhys Ifans stendur sig líka vel í Humphrey Bogart hlutverkinu (hrjúfur en raungóður skipper). Þegar komið er að fimmtu tilraun Nyad vonar maður virkilega að hún komist alla leið með hjálp teymisins og í lokin sjáum við hjartnæmar fréttamyndir af því sem raunverulega gerðist.

Previous
Previous

Danir lífga upp á fornnorrænar goðsagnir

Next
Next

Keisaraynjan fór út að spássera