Keisaraynjan fór út að spássera

Allir sem hafa lesið Góða dátann Svejk (og hvaða menningarleysur hafa það ekki?) muna eftir því þegar Elísabet keisaraynja Austurríkis var rekin í gegn með þjöl af anarkista þegar hún fór út að spássera og „síðan hefur engin keisaraynja farið út að spássera“. Ég las Svejk spjaldanna á milli í bernsku og upp úr tvítugu horfði ég á allar þrjár myndirnar um Sissy keisaraynju með hinni glæsilegu Romy Schneider ásamt mömmu og kannski einhverjum öðrum í fjölskyldunni. Þetta voru íðilfagrar rómantískar gamanmyndir frá 6. áratugnum og ég man fátt nema hversu skrautlegt allt var og Romy Schneider auðvitað goðsagnavera sem ég skrifaði sorglegan pistil um á þessa síðu í fyrra. Þess má og geta að Elísabet keisaraynja kemur við sögu í einni af helstu glæpasögum Agöthu Christie þegar kvikmynd um hana er tekin upp í námunda St Mary Mead þar sem frk. Marple býr. Þegar danska sjónvarpið hóf í mars að sýna Sisi, 18 þátta röð frá 2021 til 2023, var ég auðvitað „fyr og flamme“ eins og þarlendir segðu. Fyrstu sex þættirnir voru sýndir um páskana en síðan átti ég von á að ljúka þáttunum á Netflix — en þættirnir sem ég hafði séð þar (og hétu Empress) reyndust vera aðrir þættir um sama efni með öðrum leikurum þannig að ég hef ekki enn séð restina þó að ég viti auðvitað samt hvernig fer (þjölin eignast okkur).

Ekki man ég til þess að það hafi sést í svo mikið sem beran handlegg í öllum myndunum þremur með henni Romy en nú er auðvitað öldin önnur. Nýi þýski sjónvarpsþátturinn hefst á 16 ára Sisi að runka sér í rúminu. Auðvitað er þessi aldur sannarlega mikið sjálfsfróunarskeið en einhvern veginn hefði ég vel getað verið án þess að beinlínis sjá þessa þekktu konu úr heimssögunni við þessa afar persónulegu iðju. Hin óhjákvæmilega nekt er þó skárri en örlagastefið sem setur mark sitt á þættina með tilheyrandi dramatískri tónlist. Í upphafi er Franz Jósef keisara þannig bölvað af ungverskri konu þegar maðurinn hennar er hengdur. Á það sennilega að skýra ógæfu keisarans í ellinni þegar hann missti Rúdolf son sinn, eiginkonuna og að lokum bróðursoninn Franz Ferdinand. Það fór þó ekki þannig að Habsborgaraættin hyrfi því að nóg er enn til af henni. Eins og allir vita sem þekkja söguna og sáu Romy á sínum tíma stóð upphaflega til að keisarinn giftist hinni guðhræddu systur hennar Helene og var það allt skipulagt af mæðrum beggja. Í staðinn varð ungi keisarinn ástfanginn af Sisi sem hafði komið með á fund hans frá Bæjarlandi og var öllu kátari og léttari en systirin. Franz Josef var hinn laglegasti piltur á yngri árum (sjá að neðan), einkum ef haft er í huga að hann var af hinni ólánlegu Habsborgaraætt sem einkenndist af fríkaðri neðrivör og mikilli hökusídd. Í þáttunum er hann aftur á móti hinn mesti foli og atvikin haga því þannig að þau Sisi þurfa bæði að þvo sér hálfnakin í læk nánast samstundis og þau kynnast. Lítið er greint frá þessu í eldri heimildum og ekki virðist manni þetta líklegt, ekki heldur að hirðmeyjar hafi labbað um á pjöllunni í keisarahöllinni í Bad Ischl eins og sjá má í fyrsta þætti. Hins vegar má vera að kynfræðslan hafi farið fram með spilastokki með myndum af margvíslegum stellingum eins og hin verðandi keisaraynja fær gefins.

Ráðabrugg mæðranna og uppreisn unga parsins eru í öndvegi í fyrstu syrpu þegar Sisi er komin í höll keisarans þar sem allir eru mjög skrautlegir þegar þeir á annað borð eru í fötum og dansaðir eru Vínarvalsar og að lokum cotillon. Þó að Franz Josef sé í fyrstu tregur til að dansa við Sisi lýkur að sjálfsögðu svo að honum finnst hún ómótstæðileg og hann færir henni blómin sem systirin átti að fá (og úr verður vandræðalegt Bachelor-augnablik). Síðan þarf greyið Sisi að undirbúa sig undir hið erfiða líf í sviðsljósinu með siðavanda greifynju á hælunum, milli þess sem hún stúderar stellingaspilin og miðlar málum þegar sérvitrum pabbanum lendir saman við keisarann. Auk heldur reynist keisarinn handgenginn pútnahúsum og Sisi kemst að því en opinberar hagsýni sína með því að þiggja góð ráð frá einni gleðikonunni sem hefur þjónað unnustanum; þessu þema var aldeilis sleppt í gömlu myndunum með Romy heitinni. Sisi reynir síðan að fá þennan kynlífsverkamann með til hirðarinnar en þar sjá allir að pútan sú er ekki sönn aðalskona og henni er vísað burt — þó að hún snúi síðan aftur og nái þá m.a. að kynna Sisi fyrir unaði tvíkynhneigðarinnar áður en hún er afhjúpuð sem hryðjuverkamaður og hengd. Mesta spennan eftir að þau keisarinn giftast er hvort parið nái saman í hjónalífinu, m.a. í rúminu. Ég hafði aldrei raunverulegar áhyggjur og strax í fjórða þætti ríða þau eins og rófulausir atvinnumenn eða aðalsfólkið í Bridgerton, skömmu eftir að Elísabet slær svo rækilega í gegn hjá almúganum og Ungverjum að keisarinn lærir að meta hana. Með þessu hjónalífi fylgist öll hirðin enda parið hávært í frygð sinni.

Jannik Schümann hefur víst fengið þýsku Júpíterverðlaunin fyrir leik sinn í þáttunum. Túlkun hans er sú að keisarinn hafi verið kyntröll mikið en þó tilfinningaheftur og Jannik er berrassaður í næstum hverjum þætti (ýmist með Sissi, hjákonunni eða gleðikonum) enda vanur maður að koma fram á rækjunni. Kannski skiptir ekki öllu máli hversu sannferðugt það er en einhvern veginn hef ég ekki þessa mynd af keisaranum gamla þó að vissulega hafi hann gert Elísabetu ólétta allnokkrum sinnum og átt hjákonur. Jannik hefur verið að leika síðan á barnsaldri og er margverðlaunaður. Hann þykir líka mikill foli í raun en þess nýtur engin kona. Glamúr keisaraynjunnar sjálfrar verður ekki jafn auðskiljanlegur. Dominique Devenport er að vísu glæsileg en hefur ekki alveg sama sjónvarpssjarma og Jannik og á erfitt með að keppa við Romy, hvað þá sjálfa keisaraynjuna sem hafði illskiljanlegt Díönu prinsessa náðarvald á 19. öld og jafnvel enn í dag. Fyrir utan rúmsenurnar eru þau hjón hundelt af uppreisnarmönnum og anarkistum og hið dramatíska tilræði Libényi við keisarann þar sem langur flibbi bjargaði hans hátign er látið gerast við skírn elstu dóttur þeirra (sem síðar deyr á álíka dramatískan hátt) en í raun gerðist þetta nokkru áður en þau trúlofuðust og var einmitt hvati þess að keisarinn hraðaði kvonbænum sínum. Hins vegar er það rétt sem fram kemur að Elísabet tók þátt í hjúkrun á vígstöðvunum þó að óvíst sé hvort hún hafi beinlínis verið viðstödd þegar handleggir voru sagaðir af mönnum, einmitt það sem við þurftum að sjá!

Í fjórða þætti kynnist Sisi sjálfum Andrassy greifa sem einnig kom við sögu í Romy-myndunum. Þau ná svo vel saman að hinn blóðheiti greifi bjargar keisaranum sjálfur frá illum tilræðismanni (sem heldur við pútuna sem svaf hjá keisaranum og varð svo vinkona Sisi) á frekar ævintýralegan hátt (og lífsháskinn gerir keisarann jafnvel enn graðari en áður og var þó vart á bætandi). Það skortir ekki dramatík í þennan þátt og m.a. ekki dramatíska tónlist. Jafnvel Schubert-tríóið úr Barry Lyndon er að lokum dregið fram. Hið sérstaka samband keisaraynjunnar við hina ungversku þjóð sem hafði sín áhrif á stofnun Austurríki-Ungverjalands árið 1867 er þó enginn skáldskapur og ég hef sjálfur orðið vitni að varanlegum vinsældum keisaraynjunnar í Ungverjalandi, m.a. farið upp í Elísabetarturninn (Erzsébet-kilátó) á Jónshæð við Budapest. Hann var reistur eftir morðið á Elísabetu af hinum þekkta arkítekt Frigyes Schulek sem líka reisti Halászbástya þar sem ég dvaldi skammt frá í fyrra en Elísabet hafði komið á hæðina árið 1882.

Previous
Previous

Viðkvæm vöðvabúnt

Next
Next

Albin er óhræddur