Albin er óhræddur
Meðal fyrstu bóka sem ég man eftir að hafa lesið eru bækurnar um Albin sem voru til á bókasafni Langholtsskóla þegar ég var sex ára og það var enn ekki flutt á efstu hæðina þar sem það var síðan. Ég tengi bæði Albin og Barbapabba við heimsókn í það bókasafn á gamla staðnum þannig að ég hlýt að hafa lesið þær 1976 eða 1977. Höfundur þeirra var Ulf Löfgren (1931–2011) en íslenski þýðandinn Vilborg Dagbjartsdóttir (1930-2021) og mér sýnist fjórar hafa komið út á íslensku, Albin er aldrei hræddur og Albin hjálpar til árið 1975. Þær hef ég séð á safninu þegar við vorum kynnt fyrir því.
Árið 1977 komu út Albin og furðuhjólið og Albin og undraregnhlífin og þar með var þýðingarstarfi Vilborgar lokið í bili en Þórgunnur Skúladóttir þýddi tvær bækur í viðbót þegar ég var í menntaskóla og tók eðli málsins samkvæmt ekki eftir neinu sem tengdist sex ára börnum. En ég hafði lesið Hljómsveitina fljúgandi og Hvað tefur umferðina? sem komu út árið 1973. Þetta voru stuttar bækur, flestar um 24 blaðsíður og höfuðáherslan var á myndirnar enda var Löfgren fyrst og fremst teiknari. Önnur söguhetja hans hét Ludde og hann komst á íslensku á menntaskólaárunum líka og hét þá Lúlli. Þórgunnur var líka primus motor þar.
Lúlli var antrópómortfískt dýr sem líkist kanínu en Albin var manneskja, sex ára strákur með sixpensara sem var ekki hræddur við neitt. Sennilega fólst gildi bókanna ekki síst í því að sex ára börn eru hrædd við margt en ekki síst við eigin hræðslu sem þau eiga erfitt með að horfast í augu við. Einhvern veginn lifir hræðslan einna lengst af mörgum tilfinningum bernskunnar þannig að ég sjálfur man t.d. vel eftir öllu sem ég óttaðist. Líka að það tilheyrði að vera ekki hræddur við neitt og svara alltaf með yfirlýsingum um hvernig maður kæmist hjá öllum hættum, í svipuðum anda og í laginu „Lok, lok og læs“ með Ómari Ragnarssyni en plötur hans voru líka til heima og mikið spilaðar í frumbernsku minni.
Þegar ég hitti sex ára börn núna velti ég oft fyrir mér hvort þau séu jafn hrædd og ég þó að hrekkjusvín séu væntanlega ekki lengur vaðandi uppi á sama hátt og á 8. áratugnum og sennilega sé búið að kenna þeim öllum að hundar séu ekki mjög hættulegir og ísbirnir sjaldséðir í Reykjavík. En kannski ímynda þau sér öll að þau séu Albin sem alltaf var galvaskur og keikur í hverri raun.