Gildi þess að eiga góða ömmu

Í vor sá ég kvikmyndina Minari í Sjónvarpinu en hún fjallar um innflytjendur frá Kóreu í Bandaríkjunum. Í henni er bæði töluð enska og kóreska og leikararnir eru bæði frá Bandaríkjunum og Suður-Kóreu. Fyrir þetta vakti hún athygli á sínum tíma og sló í gegn meðal annars sem vitnisburður um fjölbreytni Bandaríkjamanna sem töluðu ýmis mál en líka sem eins konar tilbrigði við gamalt og vinsælt stef um ameríska drauminn. Það má lengi velta fyrir sér sjálfsmynd frjálslyndra Bandaríkjamanna sem virðast telja að mesta góðmennska í heiminum sé að leyfa honum öllum að flytja til Bandaríkjanna og taka upp bandarísk gildi. Það breytir ekki hinu að Minari er heiðarleg og nærfærin mynd um menningarlegar andstæður og fangar hlutskipti lítillar og tiltölulega einangraðar fjölskyldu á sérstökum stað, bóndabæ í Arkansas, á áhrifamikinn hátt, fyrir auðvitan að vera sérlega falleg og nostrað við myndatökuna. Þar munar ekki minnst um litla sjarmörinn Alan Kim sem leikur strákinn í fjölskyldunni (væntanlega leikstjórinn og höfundurinn Lee Chung á barnsaldri) og Youn Yuh-jung í hlutverki ömmunnar sem fær eflaust alla til að sakna eigin ömmu. Eins má nefna Will Patton (bófann úr Desperately Seeking Susan, No Way Out og fleiri gömlum góðum) í litlu hlutverki undarlegs heittrúaðs vinnumanns sem heimamenn hlæja að.

Ég ólst ekki upp með ömmu á heimilinu þó að hún væri raunar mjög áberandi í bernsku minni en bæði pabbi minn og mamma bjuggu með ömmum sínum, alls fjórum, stundum í sama herbergi því að þetta voru ekki dagar sérherbergja. Þær voru allar ekkjur, ein í skamman tíma en hinar áratugum saman. Í þessari mynd eru áhrif ömmunnar lymskuleg en ómæld. Það er spenna í hjónabandi Yi-hjónanna sem vokir yfir myndinni en leitar sjaldan útrásar; sveitalífið hentar ekki móðurinni enda er það faðirinn sem hefur brennandi áhuga á búskap. Enn stærra mál er aðlögun (og inngilding) þessara Kóreumanna að bandarísku samfélagi. Gamla konan hefur lítinn áhuga á að aðlagast enda finnst henni heimamenn óþægilega feitir en börnin eru auðvitað alveg bandarísk og fremur tortryggin á ýmsa siði gömlu konunnar þó að smám saman fari þau að venjast hvert öðru. Foreldrarnir eru ósamstæð og senda börnunum ítrekað þversagnakennd skilaboð um hvernig þau skuli skilgreina sig. Tilraunir fjölskyldunnar til að kynnast innfæddum gegnum kirkjustarf eru upp og ofan enda heimamenn margir búralegir og fordómafullir.

Minari-plantan (Oenanthe javanica) verður tákngervingur alls þessa. Amman plantar henni í Arkansas en þar er hún þó aðskotahlutur eins og fjölskyldan sjálf; þessi seiga planta er að lokum komin upp og eins hefur fjölskyldan náð eins konar jafnvægi eftir ósætti hjónanna sem snýst bæði um afstöðu til trúarbragða og sveitarinnar og hvílir á börnunum eins og farg. Sjálf amman fær hins vegar slag um það leyti sem litli strákurinn er farinn að taka ástfóstri við hana og er ekki svipur hjá sjón eftir en samt er það hún sem á dramatískan hátt bjargar málunum og heldur fjölskyldunni saman.

Minari er innblásin af verkum Willa Cather (1873–1947) og er því á sinn hátt gamaldags saga sem nær sennilega aðallega til nútímans vegna þess að Bandaríkjamenn glíma núna við forna og nýja kynþáttahyggju. Það sem gefur henni þó mesta gildið er persónusköpunin. Systirin er heldur lítið áberandi en hinar aðalpersónurnar fjórar eru dregnar sérlega fínum dráttum og stórvel leiknar og átökin milli þeirra einkennilega sönn og áleitin.

Previous
Previous

Albin er óhræddur

Next
Next

Besti Poirot-inn