Besti Poirot-inn
Í vor sýndi SVT Morðið í Austurlandahraðlestinni og gladdi mig mjög að þar reyndist ekki á ferð hinn nýlegi hroði með Kenneth Branagh heldur gamla myndin með Albert Finney sem markaði upphaf gullaldar Agötuaðlagana sem stóð í tæpan aldarfjórðung. Vitaskuld eru nokkrar slappar aðlaganir frá þeim tíma en þumalputtareglan er þó sú að þær eru góðar á meðan góðar aðlaganir á bókum Agötu frá 45 árunum milli 1929 og 1974 og síðan aftur frá 1999 eru því miður teljandi á fingrum annarrar handar og best að reikna ekki með neinu góðu frá þeim tímum. En það er ekki aðalatriði þessa litla pistula heldur hitt að mér fellur vel við Albert Finney í hlutverkinu. Hann er svolítið yfirkeyrður og hávær, þannig var leikstíll Finneys almennt en á hinn bóginn leynir sér ekki að þessi Poirot er skarpgreindur, stórhættulegur, pragmatískur og veraldlegur. Poirot í bókununum kallaði sig einu sinni kaþólskan en var samt aldrei trúarnöttari. Greind hans er fyrst og fremst verkfræðileg og þegar Poirot Finneys segist í lokin þurfa að glíma við samvisku sína er hann sallarólegur og fullur af hinum pragmatíska anda sem að mínu mati er raunar eina siðlega afstaðan eins og ég gæti rætt hér í löngu máli ef mér bærist fjöldi áskorana.
Finney fær sem sagt óvænt prik frá mér en ekki ætla ég þó að neita því að á fyrstu tíu árunum eða svo sem David Suchet lék Poirot (fram til um 2000) bjó hann til besta Poirot allra tíma. Poirot Suchet var ekki jafn hávær eða beinskeyttur og sá hjá Finney. Hann var teprulegur, glysgjarn, settlegur lítill kall, kannski greindari og skilvirkari útgáfa af hr. Schwann í Matador. Þessu spillti Suchet svolítið í seinni þáttunum, m.a. sinni gerð af Morðinu í Austurlandahraðlestinni. Þó að sumt gleðji augað í þeirri gerð (m.a. sambýli Poirots og bandaríska einkaritarans eina nótt) er Poirot Suchets núna orðinn heittrúaður, sýnir siðferðislegt oflæti, er æstur og reiður og svo var hann jafnvel látinn fá áhuga á konum en í bókunum eru sambönd Poirots við konur almennt ekki ósvipuð því sem lýst er hjá Truman Capote í nýlegum þáttum hjá Sjónvarpi Símans. Þrátt fyrir hina miklu yfirlýstu víðsýni nútímans er afþreyingariðnaður nútímans samt afar iðinn við að heteróvæða fornar menningarhetjur með óljósa kynhneigð á borð við Poirot, Sherlock Holmes og Jesús sem segir okkur kannski eitthvað um hve djúpt víðsýnin ristir. Hvað sem því líður byrjaði Suchet frábærlega sem Poirot en fór síðan illa út af sporinu, einkum þar sem leikarinn sjálfur var farinn að skipta sér af handritunum. Frábær leikari eins og Suchet er ekki endilega frábær handritshöfundur eða framleiðandi og mættu ýmsir öflugir leikarar hugleiða það — alveg eins og leikari án handrits er stundum hið aumkunarverðasta sjónarspil.
Næst á eftir þeim Finney og Suchet er Peter Ustinov sögulega mikilvægasti Poirot-inn en hann lék Poirot í tveimur frábærum kvikmyndum og fjórum miðlungs eða döprum. Það er kannski of langt gengið að segja að Ustinov hafi leikið Poirot því að í myndunum er Ustinov fyrst og fremst hann sjálfur með yfirskegg og útlenskan heim. Eina ástæðan fyrir að ekki fór illa er að Ustinov er vitaskuld frábær og flest smekkfólk væri til í að horfa á hann leika sjálfan sig allan daginn. Bestu tvær myndirnar eru líka bráðskemmtilegar og sú staðreynd að Ustinov minni ekkert sérstaklega á Poirot og reyni ekki einu sinni að leika hann gerir alls ekki til. Poirot Ustinovs heldur greindinni en er fyrst og fremst hnyttinn, matgæðingur mikill og það er svo margt annað skemmtilegt í myndunum að enginn þarf að sakna Poirots, m.a. Ustinov að „synda“ í Eyjahafinu og Maggie Smith eipandi á hóteli.
Ustinov sýndi sem sagt að það er vel hægt að gera skemmtilegar myndir um Poirot án þess að reyna beinlínis að leika hann. Kenneth Branagh hefði getað lært sitthvað af þessu en því miður eru myndir hans álíka lítið í tengslum við bækurnar og þær sem Ustinov lék í en ólíkt þeim rembist Branagh eins og rjúpa við staur og Poirot-myndir hans eru hvorki skemmtilegar, fyndnar né sjarmerandi. Þvert á móti er verið að reyna að búa til eitthvað ofurtilgerðarlegt og innantómt gravitas sem Agatha Christie þóttist aldrei þarfnast í bókum sínum. Hún var ágætur höfundur, mannþekkjari og alls ekki slæmur stílisti þó að hún haldi sig við að skrifa stíl sem allir geta skilið (hefur enda kennt mörgum ensku, þar á meðal mér). En hún hefur engan sérstakan boðskap að færa um samfélagið eða manneðlið og að misvitrir handritshöfundar 21. aldar reyni að troða honum inn gerir bara illt verra. Á 8. og 9. áratugnum var reynt að gera hana heldur froðukenndari en hún kannski var en það er sennilega mun betri hugmynd. Meðal annars býr Branagh til eitthvað illskiljanlegt „trauma“ fyrir Poirot og yfirskeggið er jafnvel látið vera til að hylja sár úr seinni heimsstyrjöld. Sem er bara bull því að Poirot er vitaskuld með yfirskegg af sömu ástæðu og Skapti og Skafti í Tinnabókunum: þau voru í tísku á þeim tíma í Evrópu en ekki Englandi og þess vegna á yfirskeggið þátt í því að Poirot virðist „útlendingslegur“ og er þar með álitinn heimskur sem er kjarni hinnar listrænu blekkingar í bókunum. Öfugt við það sem margir menningarrýnar sem margt geipa en fátt vita ímynda sér einkennast bækur Christie alls ekki af rasisma – þó að hann megi finna hér og þar – heldur þvert á móti af þeirri lykilkenningu hennar að Englendingar séu vitleysingar sem vanmeti útlendinga og gamlar kellingar að ósekju.
Að síðustu verður að nefna hinn frábæra leikara John Malkovich sem ég héldi upp á jafnvel þó að hann hefði aldrei leikið í neinu nema In the Line of Fire og Con Air en verð samt því miður að gefa honum skammarverðlaunin fyrir hræðilega frammistöðu í ömurlegum Poirot-þætti frá 2018. Auðvitað er leikaranum ekki um að kenna heldur handritshöfundi og leikstjóra. Jafnvel sjálfur John Malkovich býr ekki til gull úr drulllu.
Eins og þið sjáið tímdi ég bara örstuttri efnisgrein á þetta hryðjuverk gegn Agöthu Christie og John Malkovich báðum. Öxin og jörðin geyma það best. En röðin mín — ég veit að þið eruð forvitin — er því sú að David Suchet I (fyrir 2000) er besti Poirot-leikarinn og Finney næstbestur en Ustinov næstbestur að teknu tilliti til þess að hann er ekki beinlínis að reyna að leika Poirot. David Suchet II (frá 2000) er því miður ekki jafn góður og neinn þeirra og hlýtur því fjórða sætið en næstverstur er Branagh og Malkovich verðskuldar skaðabætur fyrir að hafa verið gabbaður til að setja upp ybbara og hafa sig að fífli.