Lífsins lottóvinningar

Í mars ákvað ég að taka mér loksins tak og horfa á nýlegar kvikmyndir sem ég gæti síðan skrifað um hér. Enn voru ýmsar af umtöluðustu myndum ársins 2023 ekki komnar á þær streymisveitur sem ég hef aðgang að en eina helgina náði ég að sjá fimm „ævisagnamyndir“ sem er ekki það form sem mér finnst skemmtilegast þó að ég viðurkenni að formið er sannarlega gamalt og virðulegt. Miðalda-Íslendingar vildu helst ekkert nema sögur um raunverulega eða ímyndaða fornmenn, það sem þeir töldu vera sannsögulegar frásagnir um hetjur fyrri alda. Minn vandi er aftur á móti hversu oft þessar ævisögulegu bíómyndir eru losaralegar og lausbeislaðar miðað við alvöru sögur góðra skáldsagnahöfunda (t.d. þegar Kurosawa kvikmyndaði Ed McBain) og þurfa stundum að þvera langt tímasvið, jafnvel með hjálp hræðilega ósannfærandi gamalmennisgervis eins og þegar Leonardo DiCaprio lék J. Edgar Hoover og minnti einna helst á misheppnaða pizzu. Annar vandi er að líkt og fornsagnahöfundar fara kvikmyndagerðarmenn iðulega frjálslega með sannleikann og alls ekki alltaf til þess að gera söguna betri.

Nýlega horfði ég á klukkutíma langa heimildarmynd á Youtube um þá katastrófölu ákvörðun leikstjórans Coppola að láta óreynda dóttur sína í aðalhlutverk í Guðföðurnum III árið 1990. Sofia greyið var enginn bógur á við Pacino og aðra stórleikara myndarinnar, auk heldur augljóst „kúltúrbarn“ og að vonum úthrópuð fyrir lélegan leik og fékk jafnvel verri útreið en veslings litli Jake Lloyd sem endaði á geðveikrahæli eftir að hafa leikið Svarthöfða níu ára sem óþolandi amerískan krakka (minna óþolandi eftir að maður eldist og verður mýkri gagnvart krökkum). En leikur Sofiu varð þó engin tragedía því að Sofia Coppola varð ekki eitt af þessum alræmdu nepónettröllum hvers óra íslenskir fjölmiðlar elska að vitna í heldur lærði hún af þessari bitru reynslu að hún væri listamaður af öðru tagi, reis upp eins og fuglinn fönix og hefur gert margar frábærar kvikmyndir síðan, jafnvel heldur fleiri virkilega góðar myndir en pabbi gamli sem varð heldur mistækur eftir fertugt. Hennar nýjasta mynd heitir Priscilla og fjallar um ástarsamband Presleyhjónanna sem hófst þegar Priscilla var 14 ára og Elvis 24; skv. Sofiu notaði rokkkóngurinn það sem stjórnunaraðferð að neita henni Priscillu um kynlíf á þeim forsendum að hún væri of ung. Þegar hún var loksins hætt að þurfa að ganga um í skólabúningi og þau giftust löngu síðar var hann orðinn eiturlyfjasjúklingur og ekki varð hjónabandið langvinnt; því var löngu lokið þegar Elvis að lokum skeit sig í hel sem frægt varð (en lifir enn í samsæriskenningum). Í þessari mynd er Elvis leikinn af hinum himinháa og goðumlíka ástralska sjarmör Jacob Elordi sem er ekkert líkur goðinu en samt er hann á einhvern hátt meira sannfærandi en hinn ágæti leikari Austin Butler var í fyrra, þ.e. Elvis var auðvitað snillingur og eflaust afar yfirþyrmandi, öfgakenndur og jafnvel drottnandi í eigin persónu jafnvel þegar fylgdarliðið var ekki á eftir honum þó að hann væri líka örlátur og gæfi fólki bíla í afmælisgjöf. Fyrri myndin um Elvis og þennan hvimleiða umba hans var eiginlega ekki neitt áhugaverð en Sofia er of greind fyrir það og hennar mynd fjallar um eina af mörgum Íkarusarstelpum sem elska snillinga og brenna sig illa. Eflaust hefur hún kynnst þeim mörgum í Hollywood.

Þemað óþolandi fólk er vinsælt í verðlaunamyndum. Bresku leikkonunni Andreu Riseborough tókst að tryggja sér óskarstilnefningu fyrir leik sinn í To Leslie sem er bíómynd um konu sem vann í happdrætti en sólundaði öllum vinningnum og gerðist versta tegund fyllibyttu (enginn Elvisbragur á hennar neyslu). Það kom mér nokkuð á óvart hversu litlu hlutverki sjálfur happdrættisvinnungurinn gegnir í kvikmyndinni sem hefst þegar honum hefur þegar verið sólundað. Hugsanlega stafa óvinsældir persónunnar af því að hún fékk tækifæri til að vera rík en það þýðist kannski ekki of vel inn í velferðarsamfélag eins og Ísland þar sem í raun allir hafa tækifæri á a.m.k. sæmilegu lífi án þess að leggja mikið á sig; öðru máli gegnir um Bandaríkin þar sem mannamunur er svo gríðarlegur að Norðurlandabúar skilja það varla. Á hinn bóginn eru fyllibyttur allra landa vitaskuld oft óvinsælar af sínum nánustu enda gefnar fyrir lygar, svik og ístöðuleysi sem er vitaskuld hluti af áfengissýkinni. Þannig að í raun hefði þessi mynd geta verið um hvaða byttu sem er, óháð sólunduðum happdrættisvinningi, en hún er í sjálfu sér upplífgandi þar sem Leslie tekst að lokum að koma sér úr eymdinni með aðstoð góðra manna þó að það gangi ekki þrautalaust og í lokin hefur margsvikinn sonur hennar fyrirgefið henni.

Ekki þarf að orðlengja að Riseborough er úrvalsleikkona og á móti henni eru aðrir slíkir eins og hin magnaða Allison Janney. Allnokkrar góðar raunsæismyndir hafa verið gerðar um hið svokallaða „hvíta hyski“ sem byggir Bandaríkin að miklum hluta en fékk lengi litla athygli á hvíta tjaldinu. Þessi skipar sér í flokk þeirra betri en er kannski ekki jafn eftirminnileg og t.d. Florida-verkefnið eða Tonya og þar skiptir máli að það er pínulítið vandasamt að hafa samúð með jafn sjálfseyðandi og vesælli persónu og Leslie. Helst í lokin kviknar hún þegar einlægri tilraun hennar til að rétta sig við er tekið með þögn og fálæti umhverfisins.

Previous
Previous

Besti Poirot-inn

Next
Next

Sannar sögur um margfræg morð