Sannar sögur um margfræg morð

Allir aðdáendur sannra sakamála og 19. aldarinnar hljóta að fagna því jafnt sem jólunum þegar út kemur rit sem sameinar þessi tvö skemmtilegu efni, eins og glæný bók Más Jónssonar og Jóns Torfasonar, Morðin á Sjöundá og Illugastöðum. Þjóðsagan segir að eitt sinn hafi verið í sagnfræði eldri nemi einn dularfullur sem aðeins mætti í tíma fyrstu vikuna og þegar framsöguefnum var dreift á nemendur spurði hann jafnan undarlega dimmum karlaróm: „Eigið þið eitthvað um pyntingar?” Hinum leist eiginlega ekkert á manninn, en auðvitað er áhugi á morðum og refsingum mun almennari en oft er viðurkennt. Hann getur þó verið margvíslegur. Sumir eru sáttir við yfirborðskennt káf æsingarmiðla en aðrir vilja komast í gögnin. Sum okkar hafa til dæmis lesið allan hæstaréttardóminn í Guðmundar- og Geirfinnsmálunum (sem er enn á netinu) oftar en hægt er að viðurkenna. Fyrir þann hóp eru þeir Már og Jón að vinna og í bók þeirra kynnumst við einmitt sjálfum dómunum í tveimur þekktustu íslensku morðmálum 19. aldar.

Bókin er 33. bindið í Sýnisbók íslenskrar alþýðumenninga og ritstjórar þeirrar ritraðar verðskulda lof og prís fyrir að hafa verið flestum duglegri við að gefa út frumgögn á þessari öld. Eflaust er útgáfan þó hið mesta basl eins og önnur fræðileg útgáfa en þó má segja að lesendur hafi tekið henni vel og ég þekki marga aðdáendur. Nálægðin við heimildirnar er mikilvæg og þeirri kröfu er svarað í þessari ritröð. Sérstaklega mikilvægt er það þegar rómantísk skrif manna á 19., 20. og 21. öld um sakamálin hafa komið ýmsum langlífum misskilningi á flot. Bæði málin sem um ræðir hafa þannig alið af sér prýðileg en missannferðug listaverk. Í þessu riti fá lesendur þeirra tækifæri til að kynnast hinum upphaflegu textum sem vitaskuld eru líka textar eftir fólk en ekki veruleikinn sjálfur en samt góð heimild um elstu túlkanir viðburðanna og stundum sláandi ólíkir yngri túlkunum, einkum að því leyti að ekki er kappkostað að fegra voðaverkin. Eðlileg samúð með brotamönnum og viðbjóður á harkalegum refsingum fyrri tíma hafa stundum leitt til þess að gengið sé óþarflega langt í að hunsa það hrottalega sem gert var. Mannkynið hefur líklega ekki enn öðlast nægan þroska til að fyrirgefa án þess að réttlæta.

Í þessari heimildaútgáfu er engin slík afstaða tekin heldur fá skjölin sjálf að tala. Hún er eðli málsins samkvæmt hlutlæg og e.t.v. finnst einhverjum lesendum að ritstjórar hefðu mátt rita meira frá eigin brjósti en þeir gera því skil sem þarf og ekki vantar eldri úttektir þar sem ritstjórar túlka allt frá eigin brjósti, s.s. Íslenskir örlagaþættir Sverris afa og Tómasar Guðmundssonar þar sem ég kynntist báðum þessum málum fyrst (ásamt auðvitað Öldinni okkar). En hér er enginn slíkur plús X sem vill stafa sína túlkun ofan í oss heldur komumst við í beint samband við fyrri hluta 19. aldar sem er einmitt það sem harðsvíruðustu sannrasakamálafríkin vilja.

Previous
Previous

Lífsins lottóvinningar

Next
Next

Erfitt að vera (sænskur) prins