Erfitt að vera (sænskur) prins

Í vor lauk ég við að horfa á sænsku sjónvarpsþættinaröðina Young Royals sem er um margt svo dæmigerð fyrir nútímann og einkum ungu kynslóðina; þó að hún sé fullkomlega sænsk ber hún samt enskan titil og er framleidd fyrir alþjóðarisann Netflix. Efnið er líka mjög í anda hinnar alþjóðlegu streymisveitu, sú sænska er eins og sambræðsla þáttanna Heartstopper og Elite sem báðir hafa verið sýndir á þeim sama stað líka. Ungi sænski prinsinn Wilhelm er slagsmálahundur og konungsfjölskyldunni til skammar á öld samfélagsmiðla og tiktokmyndbanda og er sendur á heimavistarskóla í von um að hann róist niður undir handleiðslu frænda síns. Þar kynnist hann hinum söngelska Simon sem er ættaður frá Venezuela að hálfu leyti og þeir verða par í fyrstu syrpunni. Þetta er sem sagt hefðbundin saga um „forboðnar“ ástir í forréttindaumhverfi og fyrir utan ástarsöguna snýst vandinn um að Wilhelm er prins og til hans gerðar kröfur umfram annað fólk auk þess sem hann býr við þá miklu ógæfu að fjölmiðlar hafa linnulítinn áhuga á honum. Svipað þema var í myndinni Red, White and Royal Blue (prins sem verður ástfanginn af öðrum karlmanni sem hann má ekki vera í sambandi við) sem gekk þó heldur lengra í því að ganga skemmtilegq fram af fordómafyllstu áhorfendum með grafísku kynlífi enda þar um fullorðna karlmenn að ræða en ekki stráklinga.

Í fyrstu fannst mér mikill kostur að öfugt ýmsum draumaprinsum í afþreyingarefni nútímans er leikarinn sem leikur Wilhelm ekki sláandi fallegur og persónan jafnvel með unglingabólur sem raunar ber minna á eftir því sem fram líður (eins og vitanlega í raunveruleikanum). Þættinum verður hins vegar lítið úr kómískum möguleikum hirðlífsins þó að það örli á launfyndni þar um. Eftir þrjár syrpur og alls 18 þætti finnst mér meginvandi sögunnar vera sá að Wilhelm er ekkert sérlega áhugaverður eða geðþekkur og Simon í raun ekki heldur. Sem kærustupar eru þeir eiginlega frekar hvimleiðir og sjálfsuppteknir og tilraunir þáttanna til að segja eitthvað vitrænt um stéttaskiptingu eru frekar ófullburða. Langáhugaverðasta persónan í þáttunum er skúrkurinn August, frændi prinsins, sem er sannfærandi sænskur aðalsmaður en þar að auki augljóslega margbrotin og meingölluð persóna sem áhorfandinn nýtur þess að hafa blendnar tilfinningar til. Það læðist að manni sú hugsun að þættirnir hefðu verið mun betri ef þeir hefðu beinlínis verið um þennan aðlaðandi gallagrip. Sumir aðrir yfirstéttardrengirnir eru líka forvitnilegir og dularfullir og ekki síst eldri bróðir Wilhelms, krónprinsinn Erik. Illu heilli deyr hann snemma í þáttunum og við komumst ekki að miklu um hann eftir það en erum föst í fremur sléttu og felldu sambandi drengjanna tveggja sem væri líklega sáraeinfalt ef annar væri ekki prins og fjölmiðlar og samfélagsmiðlar ekki til.

Ekki skánaði þátturinn mikið þegar Wilhelm gerði uppreisn gegn foreldrum sínum í 3. syrpu; það er eins og við eigum að halda með honum þó að stráksi hegði sér eins og búast má við af spilltu dekurbarni og virðist furðu laus við empatíu með veikri móður sinni; kannski eru þó ekki öll dekruð nútímabörn þannig eða jafnvel unga kynslóðin yfirleitt og ég var sannarlega ekki jafn sjálfmiðaður í bernsku og ólst upp við stanslausar áhyggjur af foreldrum mínum enda þau mín stoð og stytta og mín mesta martröð í lífinu að missa þau. Eins er Simon fáránlega leiðinlegur við systur sína og jafnvel foreldra (pabbinn raunar á ekkert gott skilið) þó að systirin sé augljóslega á rófinu og eigi erfitt í ástarmálum meðal annars þess vegna. Líkt og August hefði hún sómt sér ágætlega sem aðalpersóna þáttanna. Vandinn við að halda áfram með söguna eftir 3. syrpu skín í gegn og ég held það megi eiginlega þakka fyrir að þetta verði seinasta syrpan. Þó að mér finnist Young Royals heldur léttvægur þáttur þegar upp er staðið rennur hann afar ljúflega ofan í mann, er í stuttu máli gott skemmtiefni og ég mana hvern sem er að ljúka ekki hverri syrpu á tveimur dögum. Þar fyrir utan lifir þátturinn á ívið dýpri og eftirminnilegri persónu Augusts sem í lokin virðist standa með pálmann í höndunum sem hinn nýi ríkisarfi. Úr því mætti jafnvel gera framhaldsþátt.

Við sem ólumst upp á tímum fordóma aldarinnar sem leið hefðum sannarlega lært mikið á vinsælum þáttum um sveinaástir af þessu tagi upp úr 1980. Þegar afþreyingariðnaðurinn tekur loksins við sér er það aftur á móti full seint og eini lærdómurinn sem hægt er að draga af þáttum af þessu tagi er að fólki sem ekki fílar væmnar ástarsögur getur eiginlega verið slétt sama um það hvers kyns persónurnar eru.

Previous
Previous

Sannar sögur um margfræg morð

Next
Next

Óblíð örlög andhetju