Álfheimar út í heim
Undanfarið hef ég unnið að fjórðu sögunni í Álfheima-flokknum sem nefnist Gyðjan og er framhald tilraunar minnar til að þýða íslenska þjóðmenningu hinnar rómantísku 19. aldar yfir í fantasíuhefð 21. aldar. Þessi saga verður senn tilbúin til prentunar og markar endalok hinnar stærri Álfheimasögu. Um leið hef ég unnið að enskri gerð sögunnar sem kallast Fairyland og er allar bækurnar fjórar í einni 600 síðna bók sem er ekki síður ætluð fullorðnum fantasíulesendum en ungmennum. Erlendis þykja fantasíur ekki aðeins fyrir börn og iðulega eru þær miklar vexti. Þó að Álfheimar séu engin hryllingssaga eða á nokkurn hátt óviðeigandi fyrir börn er þetta í eðli sínu engin afþreyingarbók og hæfilega flókin fyrir fullorðna líka. Ég held raunar að hún falli erlendum lesendum ekki síður í gerð en íslenskum og þess vegna lagði ég á mig þá miklu vinnu sem þýðingin útheimtir.
Ég skrifaði mína fyrstu fræðigrein á ensku fyrir 25 árum og er sjálfmenntaður í fræðiensku sem vitanlega jafnast ekki á við fræðilega þjálfun en ég hef notið aðstoðar góðra manna við að birta efni á heimsmálinu og hef því vonandi ekki orðið mér til skammar. Drjúgur hluti þýðingarvinnu snýst um skilning og þann vanda losnar maður við með að þýða sjálfur. Eins er þá hægt að selja þýðinguna sem frumsamið verk en yfirlestur málhafa er þó bráðnauðsynlegur. Ég hef að sjálfsögðu þurft að glíma við margar flækjur í þýðingunni. Tel mig hafa ansi gott eyra fyrir því hvernig íslenskir málhafar tala en það gildir ekki alveg jafn vel um enska málhafa. Málfar hverrar skáldsögu er mikill höfuðverkur en ég hafði engan sérstakan hug á að skrifa barnamál eða bók sem hvert mannsbarn skildi enda þarf maður þá að gefa afslátt á öðru.
Á þessari stundu er ég kominn langleiðina að þýða allt verkið og vonandi uppgötva hinir erlendu gildi verksins og það fer þá senn á flug um heiminn. Ég hef ekki átt að venjast því að landar mínir hafi mikinn áhuga á að halda mér fram og ferðin út í heim verður eflaust ekki síður talsverð barátta en eina svívirðan er að reyna ekki.