Busavígslumenningin
Þegar ég var barn og unglingur voru busanir og busavígslur eðlilegur hluti tilverunnar, misvinsælar af fullorðnum en ekki þótti raunsætt að þær yrðu nokkurn tímann bannaðar. Svo kom auðvitað að því að tíma þeirra lauk og ekki einu sinni hefðarrök dugðu til að halda þeim á lífi. Þetta kom mér í hug um daginn þegar ég horfði á myndina The Strange One (1957) á Youtube um daginn — mér virðist hún hafa verið sýnd í Stjörnubíói sem Hinn miskunnarlausi haustið 1960 — en hún snýst um sadista sem hefur notfært sér busunarhefðina til að svala þeim fýsnum sínum í félagi við aðra stúdenta í herskóla sem hafa hingað til verið mismunandi meðvirkir með ofbeldismanninum. Að því kemur þó að sumum ofbýður en þá er sadistinn tilbúinn með hefndaraðgerðir gegn þeim.
Að lokum fer þó svo að vindáttin breytist og herskólanemarnir gera uppreisn gegn kvalaranum. Vandinn er sá að aðfarir þeirra eru lítið betra en hans voru og jafnvel í hans anda. Myndin er gerð eftir fyrstu skáldsögu og síðar leikriti Calder Willingham (1922-1995) sem hafði verið hermaður í seinni heimsstyrjöld og var að reyna að lýsa skuggahliðum karlmennskunnar sem fá útrás í stofnun eins og hernum. Kvartanir yfir því að sagan væri gróf bæði hvað varðar málfar og inntak gerðu hana jafnvel enn frægari og komu henni á svið og lék James Dean sjálfur í leikritinu en hann var látinn þegar myndin var gerð. Í hans stað er Ben Gazzara í aðalhlutverki sem sadistinn Jocko de Paris.
Í hinu aðalhlutverkinu er George Peppard sem raggeitin Marquales sem mislíkar mjög athæfi sadistans en rís ekki upp gegn honum þó að hann sé marghvattur til. Þá koma við sögu ýmsir aðrir nemendur herskólans: sá sem hangir utan í hrottanum, „kakkalakkinn“ sem langar til að hanga utan í honum og er jafnvel til í að fjárkúga hann til að fá hlutverkið sem helsta viðhengi hans og svo er það mömmudrengurinn sem allir vilja að sanni karlmennsku sína í rúminu með konu. Allt eru þetta býsna ófullkomnir menn, tilgangur Willinghams ekki síst sá að sýna að þjálfaðir hermenn séu alls engar hetjur eða fyrirmyndir. Mikilvægur boðskapur í samfélagi eins og Bandaríkjunum þar sem herinn er mjög upphafinn af mörgum.
Lokaatriði myndarinnar snýst um afhjúpun sadistans sem er neyddur til að játa illvirki sín og er síðan farið með hann að lestarteinunum og bundið er fyrir augu hans. Þessi málsvari karlmennskunnar fer þá að óttast hefndina og ragmennska hans afhjúpast þannig að hann ber sig aumlega en ætlun hinna var þó aldrei önnur en koma kauða í lestina. Það gervi árásargirni og grimmdar sem hann hefur íklæðst fram að þessu reynist lítils virði í þessu mótlæti og mann grunar að Willingham beini ádeilu sinni að því fremur en einni sadískri persónu, þ.e. hugmyndinni um hinn harðskeytta hermann sem sé eitthvað annað og meira en fallbyssufóður.