Vinur lævirkjans

Hvalkynjuð ævisaga enska Jónasarins barst mér í pósti í maí og gladdi mig í þeim annars átakamikla mánuði. Sá sem er gegnsósa af enskri menningu kannast vitaskuld við enska skáldið John Keats sem var erkitýpa berklaveika skáldsins, orti um fegurðina og sannleikann og lést aðeins 25 ára. Hann varð okkar Jónas eftir andlátið, svo hafinn til skýjanna að það má nefna hann í söngleikjum og allir vita nokkurn veginn hver hann er. Nokkurn veginn er mála sannast því að ég verð að játa að þegar ég sé mynd hans er hún mér ekki mjög kunn en hann er af seinustu kynslóðinni sem ekki er til ljósmynd af; á hinn bóginn allmargar samtímamyndir. Samkvæmt þeim var hann það sem ég hef stundum kallað „English-handsome“, enskum vinum mínum til ama. Hann var líka afar smávaxinn, rétt rúmlega 150 sm.

Þegar ég var að lesa ævisögu Keats eftir lárviðarskáldið Andrew Motion fannst mér sláandi hversu lítið er í raun vitað um Keats og líf hans fyrir utan seinustu árin og a.m.k. mér finnst hann ágætt dæmi um takmarkanir hinnar ævisögulegu rannsóknaraðferðar. Sem betur fer er Motion ekkert hræddur við að skipa ljóðunum í öndvegi og ekki haldinn þeirri rökvillu að hægt sé að lesa lífið í ljóðin eða úr þeim á banalan hátt. Auk þess voru 19. aldar menn duglegir að skrifa bréf og að sumu leyti komu þau í stað samveru auk þess að vera listavel rituð, sbr. dæmið að neðan. Ákefð lífsins var að mörgu leyti sett í bréfin, kannski svipað og nútímamaðurinn lifir sínu lífi ákaft á instagramminu.

Eitt af því sem Motion gerir vel er að ganga á hólm við mýtuna um viðkvæma berklaveika deyjandi skáldið sem er ekki ósvipuð mýtunum um fagurkerann Jónas. En hvorki Keats né Jónas voru viðkvæm stofublóm heldur gátu verið frekir, skapmiklir, grallarar, æringjar, hagsýnir, einlægir, dreymnir og margt fleiri. Þeir bjuggu báðir í karlaheimi og um ástalíf þeirra er margt á huldu en Motion telur að Keats hafi sótt pútnahús eins og algengt var þá. Hann elskaði sannarlega Fanny sína en ekki var þó um langa samveru þeirra að tala; ég man annars vel eftir bíómyndinni Bright Star þar sem sú ástarsaga er í öndvegi og Ben Whishaw lék skáldið, kjörinn í það hlutverk þar sem hann fellur vel að mýtunum og þó ekki.

Andrew Motion var mér áður kunnur úr spurningaþættinum „Only Connect“ sem stytti mér stundir fyrr í vetur, viðfelldinn og ögn bangsalegur maður. Hann er eitt af þessum hálærðu skáldum og áður en hann gaf út ævisögu Keats hafði hann samið aðra feita um Philip Larkin. Þekktastur er hann auðvitað sem ljóðskáld en ég þarf að vinna meira í Keats áður en höfuðskáld Hull kemst á dagskrá.

Previous
Previous

Frá (löngu liðinni) gullöld satírunnar

Next
Next

Busavígslumenningin