Frá (löngu liðinni) gullöld satírunnar
Slægten er ádeiluskáldsaga eftir Gustav Wied (1858–1914) og árið 1978 var hún kvikmynduð af Anders Refn með Jens Okking, Bodil Udsen, Poul Reichhardt og fleiri stórleikurum (en hafði raunar áður verið kvikmynduð árið 1912, meðan Wied lifði enn). Ég man eftir umfjöllun um þessa mynd og söguna í dönsku blöðunum þegar ég var barn um 1980 en sá hana fyrst núna í mars í danska sjónvarpinu. Gustav Wied var frægur háðfugl og ádeilan beinist hér einkum að dönsku yfirstéttinni. Eigur von Leunbach ættarinnar hæfileikalausu hafa meira og minna verið seldar til að borga spilaskuldir. Þau eru þó enn eins konar höfðingjar í sinni sveit og ráða yfir fjöld þjónustufólks. Núverandi ættarhöfðingi er flónið Helmuth von Leunbach (leikinn af Jens Okking) sem hefur verið svo heppinn að giftast hinni fínu Alvildu frá Kaupmannahöfn (dönsk æskuvinkona ömmu minnar sem var fædd um 1900 hét einmitt því nafni) sem er ekkja með unga dóttur. Hún hefur aðeins áhuga á titlinum en fyrirlítur eiginmanninn enda er hann nýsloppinn undan oki ráðríkrar móður sinnar sem ekki fellur við Alvildu.
Fégræðgi barónsins og misheppnaðar tilraunir hans til að sofa hjá konu sinni sem sífellt er illa haldin af höfuðverk eru helsta grín sögunnar. Í sögunni er einnig illur og kvensamur prestur sem heitir Mascani (í myndinni leikinn af Poul Reichhardt) sem gónir á konur og stelpur héraðsins þegar þær baða sig, hefur til þess myndarlegan kíki og er grunaður um að vera faðir allra lausaleiksbarna í héraðinu. Auðvitað eltist hann við Alvildu en kyssir þjónustustúlkuna í staðinn þegar frúin vill ekki þýðast hann. Smám saman verður klerkur óður í miðri messu og líkir sjálfum sér við Babýlonshóruna eftir að hafa stundað lengi að berja sjálfan sig með svipum til að bæta fyrir syndir sínar. Prestur þessi mun vera byggður á gömlum preláta sem hét Mazanti sem Wied hitti á ferð um Randers og dó skömmu eftir að skáldsagan kom út, hugsanlega af áfallinu að lesa þessa ófögru lýsingu á sér. Móðir barónsins er sterkasta persónan í sögunni og í myndinni leikin af Bodil Udsen sem alltaf er hávær og gróf; hún lék Soffíu frænku á dönsku plötunni með Kardimommubænum sem mamma átti og við hlustuðum stundum á (en þar söng Soffía „Å fy og føj“ en ekki „Fussum svei“).
Í sögu og mynd eru mörg skemmtileg hópatriði sem sýna samfélagið í skoplegu ljósi. Wied er heldur mildari við þjónustufólkið en aðalinn en enginn er þó óhultur fyrir hárbeittu háði hans, ekki einu sinni ungi þjónninn Julius sem Alvilda lætur setja í eins konar hússarabúning og allir fara síðan illa með (leikinn af hinum hvella Allan Olsen sem var í öllum dönskum myndum í fimm ár eða svo). Alvilda hefur fengið sænskan frænda sinn í heimsókn, fágaða greifann Scheele sem heillar allar konur og auðvitað er Alvilda fljót að halda fram hjá hinum leiðinlega manni sínum með þessum sjarmör. Hinn auðmýkti Helmuth sem hafði bundið vonir við að ná fé af greifanum er seinn að sjá það sem blasir við öllum öðrum. Þegar hann áttar sig að lokum breytist sagan í eins konar Óþellóafbrigði og kokkálinn hefnir sín að lokum á Alvildu og Scheele á hrikalegan hátt. Hann iðrast sárlega en aflar sér bara enn meiri fyrirlitningu mömmunnar með því. Öfugt við hann heldur hún kúlinu sama á hverju gengur og biðst undan játningum hans.
Wied skrifaði framhald af sögunni sem kallaðist Fædrene æde druer og Refn kvikmyndaði hana líka fimmtán árum seinna undir heitinu Sort høst. Ég sá hana fyrir langalöngu og minnir að hún hafi verið mjög of hið sama far, hæðin og harkaleg, kannski var Wied frekar einsleitur en hann var þó í hávegum hafður af mömmu heitinni enda almennt talinn mjög fyndinn á sínum tíma.