Djöfullegt kameljón
Eins og líklega allir aðrir var ég hrifinn af The Talented Mr Ripley (1999), kvikmynd Anthony Minghella eftir sögu Patriciu Highsmith. Það sem upp úr stóð var Jude Law sem sjarmörinn Dickie Greenleaf og dauði hans í miðri mynd gerði seinni hlutann heldur minna spennandi, jafnvel þótt Philip Seymour Hoffman væri líka í myndinni, að vísu í minna hlutverki. Matt Damon stóð sig vonum framar í aðalhlutverkinu en er samt enginn stórleikari. Um Gwyneth Paltrow hafa fæst orð minnsta ábyrgð. Seinna sá ég Alain Delon í hlutverki Ripleys í Plein soleil og þar var það Ripley en ekki Dickie sem átti myndina. Delon átti síðan eftir að verða helsta stjarna Frakklands næstu 20 árin en samt held ég að hans verði alltaf minnst fyrir Ripley. Ég hef líka lesið fleiri verk Patriciu Highsmith og séð nýlegar heimildarmyndir um þessa merku skáldkonu, að sjálfsögðu Strangers on a Train og Carol (bæði bók og mynd) og heima mun Deep Water hafa verið til. Ég sá aldrei aðlögun Wim Wenders, Der Amerikanische Freund, en aðdáendur Wenders láta vel af henni. Að sjálfsögðu þekki ég líka írska leikarann Andrew Scott þó að ég eigi All of Us Strangers enn óséna. Mín fyrsta hugsun var að hann væri alltof gamall til að leika Tom Ripley. Eins fannst mér djarft að allur þátturinn væri í svarthvítu. Samt ákvað ég að horfa.
Það tekur smá tíma að venjast Scott í hlutverkinu; hann er vissulega greinilega eldri en manni finnst Tom eiga að vera en samt er hann sérkennilega aldurslaus og fljótlega nær hann heljartökum á áhorfendum. Scott væri sennilega ólíkt betri en Tom Hiddleston að leika Loka sjálfan, í köldum augum hans býr sérstök fólska sem auðvelt er að sjást yfir undir hægu og næstum flötu yfirborði en um leið togar hann mann inn að eigin flæktu hjartarótum, einna mest kannski þegar hann spinnur sinn lygavef eins og hver önnur kaldrifjuð könguló. Því skýrar sem glæpir þessa meistara gervanna liggja fyrir, þeim mun ákafar freistast maður til að halda með honum. Öfund hans verður einkennilega skiljanleg og aðrar ástríður furðu mennskar, forvitnilegar ef ekki alltaf auðskilgreindar. Ripley er skúrkur en líkist venjulegum manni, jafnvel óvenjulega viðkvæmum og brothættum. Jafnvel þegar hann „snappar“ og fremur sitt fyrsta voðaverk er það í senn fólskulegt og þannig séð skiljanlegt, líkt og hann sé fyrst og fremst að verja sig fyrir vininum sem hann hugsanlega elskar of mikið.
Myndataka þáttarins brýtur ýmsar reglur. Ýmist eru skotin óvenju víð eða þröng, við sjáum lappir og stundum eingöngu annan aðilann í tveggja manna tali. Iðulega er töluð ítalska en litadýrð Ítalíu er fjarri. Stærsta reglan sem er brotin er auðvitað liturinn sem hefur sett svip sinn á allt afþreyingarefni seinustu áratugi og sem við sjáum nú á hverjum degi í íðilfögrum drónaskotum frá helstu stöðum Ítalíu. Hvers vegna í ósköpunum að neita okkur um litina þegar þeir geta sannarlega fært okkur margt? Fjarvera þeirra veldur því að skuggarnir taka völdin, allar andstæður verða skýrari, augun beinast iðulega að hinu smáa og við sjáum formin aðeins betur vegna þess að litirnir draga ekki til sín athyglina. Um leið auðvitað skapar svarthvíta myndatakan tilfinningu fyrir tímanum sem sagan gerist, nálægt 1950. Auðvitað var sú fortíð ekki svarthvít en við tengjum hana við litaleysið.
Allir aðrir leikarar falla í skugga Scotts en þeir standa sig þó vel, jafnvel Johnny Flynn sem er þó svo óheppinn að þurfa að þola samanburðinn við Jude Law. Dickie hans er ekki jafn heillandi og hjá Jude eða jafn lítið spennandi og Maurice Ronet í Plein soleil. Hann er flókin týpa sem er bæði varasamur og hjartagóður og hefur blendnar tilfinningar til Ripleys sem veldur því að morð hans er kannski hroðalegra í þessari gerð en nokkri annarri fyrir utan að hann birtist sem draugur síðar í myndinni. Freddie Miles Eliot Sumner er ekki heldur jafn sterk persóna og stórleikarinn Hoffman bjó til en það kemur ekki að sök, við þurfum í raun ekkert annað en Scott til að handa þáttunum á flóti í tæpa átta tíma og gerir minnst til þó að söguþráðurinn sniglist stundum áfram.