Mig enginn áður vildi

Núna í maí var mér boðið í heimahús að horfa á Nútíma Chaplins (1936) sem ég hafði ekki séð áratugum saman. Ég ólst upp við Chaplin, fór á sýningar í Hafnarbíói á 8. áratugnum, einu sinni var Dagur frændi líka í bíó og hló hærra en allir aðrir. Mig grunar að andlát Chaplins árið 1977 hafi verið upphafið að söguáhuga mínum, í kjölfarið heimtaði ég sagnfræðibækur í jólagjöf og lá í þeim á bókasöfnum. Ein af mínum uppáhaldsbókum árið 1979 var Árið 1977, íslensk þýðing á svissneskri árbók þar sem meðal annars var fjallað um andlát Chaplins. Ég man líka eftir heimildarþættinum um Hollywood þar sem James Mason var sögumaður og þar var Chaplin áberandi persóna. Ég sá flest stórvirki meistarans fyrir fermingu, þar á meðal Nútímann sem ég sá aftur um daginn. Í henni lék líka Pauletta Goddard, eiginkona Chaplins, það er víst loðið hvort þau voru gift, sú eina sem var eldri en 17 ára. Annars var Chaplin efebófíll (maður sem hrífst af 15-19 ára ungmennum) sem hefði næsta örugglega verið aflýst í nútímanum. Síðasti tengdafaðir hans, leikskáldið Eugene O’Neill, hefði farið þar fremstur í flokki.

Nútíminn er þematísk mynd, líkt og Playtime Tati, úttekt á nútímanum, og á sínum tíma var hún á skjön þar sem hún var þögul fyrir utan söngatriði Chaplins þar sem hann fer með lagið „Mig enginn áður vildi“ en annars talaði þessi meistari þöglu myndanna ekki fyrr en í lok Einræðisherrans þegar hann fer með ögn banala ádeilu gegn stríði sem eflaust fellur nú aftur í kramið á öld hins banala. Nútíminn er hins vegar ekki mjög banöl heldur frekar undirfurðuleg ádeila á nútímann, einkum sjálfvirknina og færibandið en þar eru líka mörg bráðskemmtileg atriði í Illum þess tíma, margra hæða verslunarmiðstöð með rúllustiga. Aðalsagan hnitast um þá ósk flækingsins og fátæku stelpunnar til að eignast eigið smáborgaralega líf með tilheyrandi lágstemmda lúxus.

Í myndinni fer Chaplin inn og út úr fangelsi en alltaf stendur stelpan með honum og bíður hans að lokum og þau ganga saman í sólarlagið. Á sínum tíma hélt ég að Chaplin væri fínn maður af því að hann var með hatt og skildi ekki að hann væri vel klæddur flækingur. Auðvitað hafði ég samt gaman af því þegar hann datt og svo framvegis. Núna löngu síðar er auðvelt að sjá samfélagsádeiluna í verkinu sem vitaskuld snýst um ójöfnuðinn í Bandaríkjunum. Hann á sér ekki líka á Íslandi þó að samt hafi alltaf verið til auðstétt hér sem þarf að hafa minna fyrir hlutunum en við hin og meðvirkni almennings með henni löngum mikil eins og dæmin sanna.

Með þessari fallegu lokamynd af parinu á ferð til nýrra tíma hvílir vefsíðan sig nú í sex vikur en fer á fullt í ágúst.

Previous
Previous

Hverja langar sjúklega að skreppa á ball í kvöld?

Next
Next

Djöfullegt kameljón