Hverja langar sjúklega að skreppa á ball í kvöld?

Hvert mannsbarn sem uppi var á Íslandi árið 1975 telur sig eflaust vita svarið við þessari spurningu en það ár var „Strax í dag“ stóri smellurinn hérlendis og meðal annars á barnaheimilum borgarinnar — á einu slíku dvaldi ég það ár og get vottað að lagið „Strax í dag“ er mér einmitt minnisstætt síðan þá. Eins og fram kemur víða í fjölmiðlum frá þessum tíma var lagið sungið af Steinunni Bjarnadóttur leikkonu (1923-1994) sem þótti skemmtilega ævagömul sem óvænt poppstjarna — enda aðeins tveimur árum yngri en ég er nú. Hún er iðulega sögð í hlutverki „Stínu stuð“ sem átti þá ósk heitasta að Kalli kæmi kagganum í lag en samkvæmt laginu hafði þessi fremur fjöllynda stuðkona þegar farið í bíltúra með Badda á Bjúkkanum og Lilla á Lettanum (Chevrolet, til skýringar fyrir yngra fólk). Þegar betur er gáð er Stína stuð raunar hvergi nefnd í texta þessa vinsæla lags, aðeins í öðru lagi á undan þessu á plötunni, „Út á stoppustöð“ sem er ekki sungið af Steinunni heldur eðalstuðmanninum Jakobi Magnússyni. Í því lagi er aðallínan eins og margir muna: „Hæ Stína stuð, halló Kalli og Bimbó, hér er kátt á hjalla og hér ég dvelja vil“, en í seinna laginu er hið alkunna stef „Strax í dag, í dag, ég von’ann komi kagganum í lag í dag, í dag, að kagginn verði tilbúinn í dag“, línunni eftirminnilega fylgt eftir af munnhörpusólói sjálfs Björgvins Halldórssonar sem líka syngur lagið „Tætum og tryllum“ á sömu plötu (kannski ívið betur en 9-HJ gerði á árshátíð gagnfræðadeildar Langholtsskóla vorið 1986).

Í báðum þessum lagatextum af plötunni Sumar á Sýrlandi — sem varla þarf að kynna og enn síður Stuðmenn sem slógu verðskuldað í gegn með henni — er upptalning á skemmtilegu fólki sem til stendur að fagna með á næstunni. Sú sem hefur orðið í „Strax í dag“ syngur þessa línu: „Baddi, Stína, Lilli, Björn og Bimbó, ég vona bara að ég hitti þau í kvöld“ og það var einmitt þessi látlausa lína sem núna í sumar fór að vekja upp grunsemdir mínar um að upphaflegi textahöfundurinn (Jakob og Valgeir Guðjónsson eiga textann saman) hafi alls ekki gert ráð fyrir að ljóðmælandinn í þessu hressa lagi væri sjálf Stína stuð því að varla vonast Stína til að hitta sjálfa sig? Eða eru Stínurnar kannski tvær? Ef til vill frænkur? En ásamt Stínu stuð eru Bimbó og Kalli líka áberandi persónur í „Út á stoppustöð“ og virðast þessi þrjú fylgjast að í báðum lögum, a.m.k. Stína og Bimbó. Ýmsar fleiri konur eru nefndar í „Út á stoppustöð“ sem vænlegir makkerar í húlahoppi, t.d. Hanna, Ella kroppur, Þura eða Anna sem ónefndur ljóðmælandinn í þessum fyrri texta (annað hvort ónefndur bíllaus einstaklingur eða þá Baddi á Bjúkkanum í sjaldgæfri strætóferð og eins Lilli á Lettanum en varla Kalli á kagganum því að hann er ávarpaður í textanum ásamt Bimbó) hefur hug á að „negla og tálga“ þegar hann skundar út á stoppustöð með flösku í hendi (ekki frosk, eins og sumir hafa ranglega heyrt). Einhvern veginn finnst manni að það hefði mátt nefna eitthvert þessara hörkukvenda til í seinna laginu fremur en að kynna aðra Stínu til sögunnar. Nema auðvitað að Stínan sé aðeins ein og ekki sú sem hefur orðið í „Strax í dag“, þvert á það sem allir héldu.

Einhvern veginn finnst manni að Stína stuð hljóti að hafa verið stödd í eigin partí ásamt sínum valinkunna skríl, t.d. Bimbó sem ég veit ekki hvers kyns var (sá sem átti gotterí 20 árum fyrr?) eða Ellu kropp og hinum stelpunum og þá væntanlega ekki jafn full örvæntingar að kagganum verði komið í lag. Ljóðmælandinn í „Út á stoppustöð“ á reyndar augljóslega von á Kalla í þessu stuði líka en þó kemur ekki fram að hann sé beinlínis gestgjafinn í veislunni enda er sagt „í partýi hjá Stínu stuð“ þannig að hugsanlega er Kalli aðeins einn gesta og þrátt fyrir allar væntingar um stundvísi þá fastur annarstaðar í bænum með biluðum kagga ásamt ljóðmælanda seinna lagsins sem langar sjúklega á ball. Nema auðvitað Stínurnar séu einfaldlega tvær og Stínu stuð hafi langað til að hitta frænku sína (Stínu óstuð?) ásamt Badda, Lilla og fleirum. Víst er að þorri Íslendinga gerði ráð fyrir þessu árið 1975 eins og sjá má hér að ofan og í framhaldinu kom Steinunn Bjarnadóttir sem söng „Strax í dag“ sannarlega fram sem Stína stuð um þetta leyti ásamt Stuðmönnum sem þá voru nýhættir að vera leynileg hljómsveit.

Þannig að líklega eru mörg möguleg svör til við spurningunni um hverja langaði sjúklega að skreppa á ball í kvöld í laginu „Strax í dag“ og raunar kemur ekki heldur í ljós í laginu hvort kagginn varð að lokum tilbúinn í dag. Ég vona það bara því að annað hefði verið harmleikur en um leið þörf áminning um að setja ekki allt sitt traust á kaggann.

Previous
Previous

Líkami og sál

Next
Next

Mig enginn áður vildi