Líkami og sál
Í maí áskotnaðist mér glæný þýðing Gyrðis Elíassonar á Í landi sársaukans eftir franska 19. aldar höfundinn Alphonse Daudet. Ekki er hægt annað en að gleðjast yfir að búa í landi þar sem svona verk eru þýdd og koma út á prenti og þýðingin er auk heldur vönduð og óvenju margar upplýsandi aftanmálsgreinar fylgja. Alphonse Daudet fæddist sama ár og Émile Zola, árið 1840. Hann varð kennari aðeins 16 ára sem engum var treyst fyrir á mínum tíma þó að eflaust hefði ég sjálfur notið trausts sumra fullorðinna í þvílíkt verkefni á þessum aldri þótt það hafi aldrei hvarflað að mér fyrr en núna þegar ég skil til fulla hve mikils gamla fólkið metur unglinga. Á 3. áratug ævi sinnar ákvað Daudet að gerast rithöfundur og var mikils metinn á sinni ævi þó að hann sé ekki heimsfrægur nú.
Öfugt við mig og vonandi fleiri glataði Daudet sveindómnum aðeins 12 ára gamall (sennilega drakk hann líka rauðvín með matnum í bernsku) og sat uppi með sárasótt og var plagaður mjög af henni uns hann lést árið 1897. Um þessi veikindi fjallar hann í bókinni Í landi sársaukans (fr. Le Doulou) sem fjallar m.a. um erfiða reynslu af sjúkdómum og lækningum sem auðvelt er að skilja fyrir alla sem eytt hafa tíma á spítala (mig dreymir um að senda frá mér ljóðabókina Ristilspeglanir). Um leið er honum umhugað um hnignandi líkama annarra sjúklinga. Frásögnin er jafnan skáldleg, einkennilega kjörnuð, iðulega rofin og maður skilinn eftir með spurningar og áleitnar skyndimyndir, heillandi í einfaldleika sínum. Það er erfitt að semja skáldskap um jafn einfalt og stundum banalt þema sem er að líkamar okkar þróast stöðugt og taka breytingum og að lokum gefa þeir sig og þeim hnignar og það er ekki létt að eiga við slík svik að innan. Skömmu áður en ég lauk við þessa vefgrein fékk ég slæma magapest í sólarhring og það er sannarlega erfitt að hleypa skáldlegum hugsunum að undir slíkum kringumstæðum.
Í prýðilegum formála sínum ræðir Gyrðir sálarstyrk Daudets í hremmingunum og þó að textinn sé stundum nöturlegur einkennist hann einmitt samt sem áður af upplífgandi skáldlegri forvitni, kímniblandinni á köflum. Daudet berst ekki hetjulega en hann lifir og nýtur þess sem skynfærin og hugsunin færa honum sem hverjum heimspekilega þenkjandi manni hlýtur að þykja aðdáunarvert. Jafnvel veikindi geta verið skáldleg og kannski er það einmitt í slíkum hremmingum sem styrkur skáldskaparins kemur skýrast fram. Skáld eins og Annie Ernaux hafa einmitt eytt ferlinum í að sanna að það getur búið skáldskapur í hversdagslegu hlutskipti eða alvanalegum stórviðburðum í lífi einnar lítillar mannveru.
Daudet andaðist aðeins 57 ára, líkt og faðir minn tæpri öld síðar. Á þeim tíma þótti hann ekki auðvitað ungur enda urðu mörg skáld yngri, s.s. samtíðarmaður hans Kristján Fjallaskáld. Hann er enn mjög virtur og þekktur í Frakklandi en síður erlendis.