Satúrnusarbörn

Lengi hefur verið deilt um hvort ein kvikmynd eða önnur sé „jólamynd“ en mitt svar við því er að ekkert listaverk sem um munar verður skýrt til fulls með flokkun í bókmenntagrein en kvikmyndin The Holdovers (Eftirlegukindurnar kannski?) gerist þó sannarlega á jólunum og hún er ljúfsár eins og sumar jólamyndir. Sögur sem eru bæði fyndnar og sorglegar höfða mjög til mín. Eins og við kannski flest hef ég lengi verið aðdáandi leikarans frosklega Paul Giamatti og staðfestist enn þegar hann lék John Adams, hinn smávaxna og pirraða annan forseta Bandaríkjanna þannig að gleymist seint (horfið á þá þáttaröð!). Í The Holdovers leikur Giamatti súran, drykkfelldan og misheppnaðan kennara með orðaforða á við Kolbein kaptein sem ber beinin í snobbeinkaskóla sem er eingöngu fyrir drengi. Gaurinn kann ekki að hegða sér í þessu umhverfi, gefur lágar einkunnir, er hataður af flestum og tekur að lokum að sér að auka enn frekar á eymd stúdenta sem ekki komast heim um jólin með því að dvelja með þeim á stórhátíðinni og setja þeim óþarflega harða og smásmugulega stundaskrá. Fjórir af fimm (þrír geðþekkir og einn skíthæll) sleppa þó fljótlega burt frá honum en eftir situr sá nemandi sem flóknastur og erfiðastur er og jólunum eyðir kennarinn súri með honum og kokkinum í fína en fornlega einkaskólanum þar sem hann hefur dagað uppi fyrir löngu. Þau eru öll frekar aumkunarverðar en ekki ósympatískar manneskjur. Kennarinn er óaðlaðandi tappi með varanlega þvaglykt sem drekkur allt of mikið; hann er sá maður úr árganginum sínum í Harvard sem minnstum árangri hefur náð. Drengurinn er álkulegur og kauðskur og sjálfum sér verstur en á í fæðardeilu við jafnvel enn aumkunarverðari dreng sem kallar hann Anus (en hann heitir Angus) en í lok myndarinnar fær sá verðskuldaða refsingu með hjálp sólarinnar (sem opnar á mjög vel heppnaðan Íkarus-kennarabrandara). Kokkurinn er heilbrigðust þeirra en máttvana af sorg og eyðir sínum kvöldum við sjónvarpið að horfa á endursýnda leikjaþætti.

Þessi ólíklega taparaþrenning (á móti Giamatti leikur hinn ungi Dominic Sessa sem ég hef aldrei séð fyrr og Da’Vine Joy Randolph sem fékk óskarinn fyrir sitt framlag) myndar smám saman með sér náið og fallegt samband án þess endilega að sækjast eftir því en þau eru sameinuð í sorginni sem í öllum tilvikum er djúp og þrúgandi þó að við sjáum það ekki á fólkinu í fyrstu. Átök myndarinnar minna kannski mest á lífið sjálft, atburðakeðjan virðist ítrekað frekar tilviljanakennd og kaotísk og þess vegna óvænt og mótast ekki af vilja persónanna eða ráðagerðum heldur kannski frekar af persónubrestum og vanmætti þeirra. Kómískur eltingarleikur kennarans og nemandans sem lýkur með að sá síðarnefndi fer úr axlarlið er kannski dæmigerð fyrir þessa óreiðukenndu fléttu en þessi atvik færir atburðarásina á spítalann og síðan á krá þar sem hinn nú fatlaði drengur lendir í illdeilum við einhentan fv. hermann með krók í handarstað. Sjálfur er kennarinn eineygður og fötlun þeirra allra augljóslega bullandi táknræn fyrir þær brotnu manneskjur sem við fáum að sjá. Tilraunir þeirra til að reynast hvert öðru vel innan sinna marka eru líka fálmkenndar og missa iðulega marks — bráðfyndið er þegar kennarinn gefur kokkinum og stráknum sömu bók (eftir Markús Árelíus) og reynist eiga kassa af henni. En niðurstaðan úr fléttunni er að kennarinn önugi þarf að horfast í augu við sín eigin prinsip og endurmeta þau.

Myndin gerist 1970-1971 en er svo sem ekkert þjökuð af því, Víetnamstríðið er þó bakgrunnur, eldabuskan hefur misst son sinn í því. Stéttaandstæður tímans skipta líka máli og ný karlmennska (ein aukapersónan er drengur sem neitar að láta klippa sig sem var líka þema í einni af sögum Jennu og Hreiðars forðum) en það sem skiptir mestu máli er að tímarnir eru að breytast og eldri kynslóðir þurfa senn að taka meira tillit til þeirra yngri. Eldri kynslóðin þarf líka að horfast í augu við að unga fólkið er að sumu leyti veraldarvanara og færara en hún, enda líf hennar síður innrammað og fyrirsegjanlegt. Jólin og snjórinn í Nýja-Englandi mynda verðugan bakgrunn; mann langar til Massachusetts eftir að hafa séð þessa mynd. Að lokum liggur leið meistara og lærisveins til Boston og gleðikona reynir að fá kennarann úrilla heim með sér en hann vill heldur fletta gömlum bókum á fornsölu. Strákurinn dregur þá ályktun að kennarinn sé hreinn sveinn en sá gamli neitar því (við áhorfendur verðum að vega og meta hverjum við trúum). Þeir sækja líka heim söfn og kirkjur og skautasvell og deila að lokum hótelherbergi sem leiðir til þess að upp kemst að þeir nota sömu geðlyfin. Allt þetta leiðir til nánara sambands og að lokum þess að Paul finnur leið til að reynast stráknum vel í raun og veru.

Handrit myndarinnar er bæði drepfyndið og sorglegt eins og aðalpersónurnar þrjár; það hefur fengið mikið lof enda samræðurnar óneitanlega með óvenju mikla fyllingu (ekki síst setningarnar sem Giamatti fer með af mikilli hind en orðaforði persónu hans og málsnilld eru ólíkt meiri en frami hans í lífinu) en kannski er haganleg beiting myndavélarinnar ekki minni þáttur í því hversu vel heppnuð myndin er, t.d. orðlausa atriðið þar sem kokkurinn færir systur sinni barnaföt látins sonar síns en líka fjölmörg „skot“ sem draga fram smæð persónanna. Að lokum færir hinn önugi lærimeistari fórn fyrir unga manninn og kemur í veg fyrir að hann verði sendur í herinn. Hún virtist mér í fyrstu ekki alls kostar trúverðug í ljósi þess hve staður gamli maðurinn var orðinn í sínu lífi en þó skiljanlegri eftir samveru okkar með þeim í myndinni og á sér líka sálfræðilega undirstöðu í fyrirlitningu kennarans á nýja skólameistaranum sem er að hans mati ekki maður á við fyrirrennarann en kannski ekki síður í því að líkt og gamli kennarinn er ungi maðurinn orðheppinn og frjór en þó í grundvallaratriðum misheppnaður og heimurinn andsnúinn honum. Þar af leiðandi sér okkar maður sjálfan sig í vanmetna ofvitanum sem kann ekki að nýta eigin ótvíræðu hæfileika. Að lokum lýgur hann til að bjarga nemanda líkt og hann var beðinn um að gera í upphafi en neitaði þá og orðar þá það prinsip að segja satt en núna á eigin forsendum og í þágu drengs sem verðskuldar að fá annan séns.

Þó að við skiljum við aðalpersónuna í óvissu er hann þó a.m.k. búinn að yfirgefa móðurlífið sem hann sneri aftur til eftir að hafa beðið skipbrot og í því felst eins konar þroski. Ég hef sannarlega kynnst fólki sem eyddi ævinni í að kenna við skólann þar sem það hafði áður átt sín allra bestu ár. Áður en ég varð stúdent langaði mig til að gera hið sama en sem betur fer hef ég haft vit á því í lífinu að halda frekar fram á veginn og í því ljósi er endir myndarinnar kannski jákvæður.

Previous
Previous

Bíll snarhemlar

Next
Next

Líkami og sál