Bíll snarhemlar

Í besta atriðinu í 79 af stöðinni (1962) er eini leikarinn bíll. Hann sést bruna eftir þjóðvegi með miklu ryki eins og við munum öll eftir frá bernskuárunum (hér er ég að gera ráð fyrir að enginn yngri en ég lesi þessa síðu sem ég óttast að sé raunveruleikinn) og lesnar eru fréttir, nauðaómerkilegar um þing Norðurlandaráðs og eitthvað álíka og að lokum frétt um slys á Norðurlandsvegi þar sem bílstjórinn lét lífið og er nafngreindur. Þetta eru seinustu orðin sem eru sögð í myndinni. Bíllinn snarstöðvar og er lengi kyrr, þá heyrum við í fugli. Síðan snýr hann rólega við og keyrir aftur í bæinn og sést að lokum keyra upp að húsi í Dunhaga, aðalpersónan leikin af Kristbjörgu Kjeld stígur út og er heldur ráðleysisleg. Bíllinn með Róbert Arnfinnsson innanborðs (eða sú er a.m.k. hin listræna blekking) keyrir áfram eftir ómalbikuðum Dunhaga, fram hjá forsætisráðherrablokkinni en í baksýn glyttir í glænýtt Háskólabíó.

Þegar ég sá myndina í fjórða sinn í hópi ungra Kanadamanna á sumarnámskeiði við Háskólann (ein þeirra sagði mér að þetta væri þriðja svarthvíta myndin sem hún hefði séð) í sumar fannst mér þetta langbesta atriðið í myndinni og raunar ekki aðeins í henni heldur með betri atriðum í kvikmyndum 7. áratugarins. Myndin í heild stenst ekki alveg samjöfnuð en þó er hún býsna góð og batnar við hvert áhorf, fyrir utan kannski frekar illa kóreógraferað bardagaatriði milli Róberts og Gunnars Eyjólfssonar. Auðvitað verður Ísland í gamladaga bara meira heillandi með tímanum en þetta er líka vel samin skáldsaga (meðal þeirra betri íslensku eftir Nóbelsverðlaun) og handritið líka haganlega gert af höfundinum Indriða G. Þorsteinssyni og Þjóðleikhússtjóra saman (kannski er það þess vegna sem Þjóðleikhúsið sést einu sinni í myndinni). Margir nýrri kvikmyndaleikstjórar gætu lært af þeim en fyrir utan handritið voru það einkum Danir sem unnu að myndinni, þar á meðal Matador-hetjurnar Erik Ballng og Bent Fabricius-Bjerre. Í myndinni leika líka tveir ameríkanar sem hvorugur var atvinnuleikari og ég hef komist af því hvað þeir hétu í raun og hvor lék hvað (IMDB er með hvorttveggja rangt) en geri ekki ráð fyrir að lesendur hafi mikinn áhuga á slíkum upplýsingum.

Sjálf leigubílastöðin er í aðalhlutverki í myndinni ásamt Þingvöllum og Keflavíkurveginum. Baldvin Halldórsson birtist í skuggalegu smáhlutverki, Brian Cox eða Jeroen Krabbe Íslands, það var eins og jafnan nóg að sjá hann og þá vissi maður að hann hafði óhreint mjöl í pokahorninu. Nína Sveinsdóttir er skemmtileg sem siðlegur leigusali sem ætlar aldrei að leigja bílstjóra aftur (en maður veit þó mætavel að næsti leigjandi verður annar slíkur). Eins er Haraldur Björnsson eftirminnilegur við bensíndæluna skömmu fyrir slysið hroðalega (ég mundi ekki nákvæmlega hvar það var en vantreysti samt þessum brúarframkvæmdum þegar ég sá þær í fyrra sinn). Aðalpersónurnar eru hins vegar aðeins þrjár: Ragnar, Guðmundur og Guðríður (Gógó), leikin af Gunnari, Róbert og Kristbjörgu. Umfjöllunarefnið er framhjáhald og tryggð og það er ekkert einfaldað tilfinnanlega í myndinni. Þó að Guðmundur kalli Guðríði einu sinni „hóru“ er það ekki endilega boðskapur myndarinnar heldur blasir þvert á móti við að reiði Ragnars yfir því að kærastan á annan kærasta er ekki beinlínis rökrétt í ljósi þess að hann vissi þegar þau kynntust að hún ætti veikan eiginmann. Núna í fjórða sinn hvarflaði að mér að a.m.k. Danirnir eða jafnvel Indriði (kannski ekki hann) hefðu hugleitt stöðu „besta vinarins“ Guðmundar sem er einmana piparsveinn sem vill eiga bát með Ragnari og er eðlilega afbrýðissamur út í gelluna. Þá er lokaatriðið sterka jafnvel enn sterkara, tvær manneskjur sem elska Ragnar að keyra eftir honum alla leið norður (engin smáleið á þeim tíma löngu fyrir göng og góða vegi) og heyra andlát hans. Skömmu áður hefur Gógó borið á Guðmund að hann viti ekki hvað það sé að vera einmana þó að það blasi við að hann viti það allt of vel.

Ekki nenni ég að ræða Kanann og hernámið, hef ekki saknað hersins síðan hann drattaðist héðan árið 2006. Hernám hugarfarsins hélt þó áfram og nú virðast „vinstrimenn“ (að eigin mati) jafnvel heldur bandarískari í hugsun en aðrir. Myndin sjálf er þó eins evrópsk og bíómynd getur verið og það fann maður á Kanadamönnunum sem voru að vísu mjög vel menntuð af frábærum háskólakennurum á sínu sumarnámskeiði en tilbúin að upplifa ævintýrið að sjá svarthvíta mynd frá ómalbikuðu bláfátæku Íslandi um eitthvað jafn sáraeinfalt og flókin samskipti þriggja einstaklinga.

Previous
Previous

Friðþæging fyrir útrýmingu

Next
Next

Satúrnusarbörn