Friðþæging fyrir útrýmingu
Árið 1971 söfnuðu Íslendingar því sem nemur góðri kosningabaráttu á landsvísu á örskömmum tíma til að kaupa uppstoppaðan geirfugl hjá Sothebys í Lundúnum. Þetta var í og með til að friðþægja fyrir það að 3-4 kynslóðum fyrr, sumarið 1844, drápu Íslendingar síðustu geirfuglana í heiminum í Eldey og mun tegundin hafa dáið út þá. Lengi hafði ýmsum verið ljóst að geirfuglinn væri í útrýmingarhættu því að hann var þegar orðinn æði sjaldgæfur á 16. öld. Alls konar boðum og bönnum var beitt síðustu 70 árin í lífi geirfuglsins en mammon sigraði þessa ófleygu fuglategund að lokum. Jón Brandsson, Sigurður Ísleifsson og Ketill Ketilsson hétu mennirnir sem útrýmdu tegundinni en fengu greitt fyrir það af dönskum kaupmanni.
Geirfuglinn sem nú er á Íslandi var hins vegar drepinn árið 1821 og náttúrufræðingurinn F. C. Raben hafði hann með sér frá Íslandi. Síðar var þessi fugl í eigu ættarinnar Raben-Levetzau og erfingjarnir settu hann að lokum á þetta uppboð í Lundúnum og sagnir herma að aldrei hafi hærri fjárhæð fengist greitt fyrir eitt uppstoppað dýr en þegar Íslendingar ákváðu að flytja uppstoppaða geirfuglinn heim. Þó að ég hafi verið nýfæddur þá man ég vel eftir anda 8. áratugarins þegar Ísland var tiltölulega nýsjálfstætt og þykir líklegt að hér hafi þjóðinni hlaupið álíka kapp í kinn og í þorskastríðinu. Útrýming geirfuglsins var blettur á sögu þjóðarinnar og hann þurfti að þrífa. Nákvæmlega af hverju þjóðin ákvað að kaup á uppstoppuðu dýri fyrir metfé væri leiðin til að friðþægja fyrir afbrotið er torskildara en ekki er ég í nokkrum vafa um að þannig leit þjóðin á þetta; hún er jú nýbúin að fyrirgefa sjálfri sér endanlega fyrir 2007-andann. Eins man ég að það þótti þjóðarskömm lengi vel hversu sjaldan Náttúrugripasafnið var opið og geirfuglinn sjaldan sýndur.
Sjálfsagt hefur kaldhæðið fólk brosað í kampinn yfir múgsefjuninni þegar geirfuglinn var keyptur. Ég sakna hennar hins vegar því að þó að viðbrögðin hafi verið skrítin voru þau grundvölluð á hreinum og fallegum tilfinningum um þjóðarstolt og sektarkennd. Eins held ég að Íslendingar hafi lengi skammast sín örlítið fyrir hina nálægu 19. aldar fortíð þegar Ísland var enn bláfátækt land, fólk fór á uppboð til að kaupa stígvél sem einhver hafði drukknað með á fótum og fjölskyldur misstu iðulega 80% getinna barna. Við vitum vel af ömurðinni eftir móðuharðindin en viljum síðar vita af fátæktinni og eymdinni á 19. öld því að það var tími Jóns Sigurðssonar og Fjölnismanna þegar andleg endurreisn Íslands var hafin. Einmitt þess vegna var mikilvægt fyrir Íslending síðari hluta 20. aldar til að kasta rekum á fátækan fugladrepandi forföður sinn frá 1840 með því að fá þennan geirfugl heim í eitt skipti fyrir öll.
Um tíma var geirfuglinn aftur sýndur í Safnahúsinu en er það ekki lengur. Er það alldæmigert fyrir hirðuleysi þjóðarinnar um allt menningarlegt. Mér finnst sjálfum að hann ætti að eiga fastan sess á sýningu því að fá tákn eru í raun innihaldsríkari og margræðari en þessi uppstoppaði fugl sem fyrir mér er táknrænn fyrir einlægari og jákvæðari tíma þegar íslensku þjóðina langaði til að gera betur þó að hún tjáði það oft á sérstakan og ekki alltaf rökréttan hátt.