Tómt þorp

Ég er svo heppinn að bjóðast að mæta stundum á zoom-fundi að ræða ljóð skáldsins John Keats við þrjá klárustu og listfengustu Íslendinga 21. aldar eins og ég vék aðeins að í bloggi í vor. Þó að Keats hafi hvorki verið aðalborinn né hávaxinn (öðru nær!) var hann greinilega fjarska vel gefinn ólíkt sumum þeim skáldum sem mest þykjast á Íslandi um þessar mundir og það sést vel á einu frægasta ljóði hans ‘Ode on a Grecian Urn’ þar sem hann (eða öllu heldur gríska kerið sjálft) segir í lokin að fegurðin sé sannleikur og sannleikurinn fegurð og ekkert fleira þurfi menn að vita. Þó að þessar ljóðlínur séu frægar er samt flest annað snjallara við kvæðið en þær enda engin leið að vita hvort hér sé skáldið sem endranær uppfullt af rómantísku tvísæi þar sem línan er innan gæsalappa.

Mögnuð er upphafslína ljóðsins „Thou still unravish'd bride of quietness“ og skilur mann eftir með alls konar spurningar. Kerið er brúður kyrrðarinnar sem er óvænt og óstirðnuð líking fyrir utan að kerið er bæði kyrrt og hefur ekki verið rænt (eða nauðgað) nema að orðið „still“ eigi að tengjast „unravished“ fyrir aftan; útgefendur eru misdjarfir að drita inn kommu á þessum stað. Í kjölfarið kallar Keats kerið „Thou foster-child of silence and slow time“ sem er líka ansi magnað því að fósturbarnið er fullt af aukamerkingum, hugsanlega ekki blóðskylt þögninni og hinum hæga tíma. Ég sá strax fyrir mér Keats standa fyrir framan ævafornt kerið (e.t.v. á safni) og ávarpa það þannig en mér er sagt að kerið sé ekki til heldur hafi skáldið skapað það úr nokkrum kerum (hér set ég ekki j vegna þess að ker heitir kas í gotnesku; það sýndi Hreinn Ben. mér sjálfur fyrir um 30 árum). Þetta er ansi áhrifamikið ker, þetta fósturbarn hins hæga tíma sem líka er brúður kyrrðarinnar og þar með er ekki öll sagan sögð, þetta eru aðeins tvær línur af 50 í þessu ljóði.

Mér finnst merkilegt að ljóðið er allt staðsett í eins konar heterótopíu því að myndin á kerinu er af fólki á leið á fórnarathöfn, sem sagt á hreyfingu þó að kerið sé líka kyrrt og hafi varðveitt þessa fornu hreyfingu í eigin stirðleika. Keats kallar gríska kerfið líka „Sylvan historian“ þar sem það hafi fangað ferð um skóg á athöfn sem enn er ólokið. Svipuðum kenndum lýsti Barthes síðar andspænis ljósmynd (kannski hafði Keat þessi áhrif á hann!). Skáldið veltir líka fyrir sér litla bænum sem fólkið á leiðinni hafi yfirgefið, það eru líka staðir sem fólkið fór frá og er á leiðinni til þó að sjálft sé það á eigin stað á milli. Í þriðju vísunni af fimm lýsir skáldið hamingjunni og orðið „happy“ er endurtekið einum fimm sinnum en samt líkur einnig þessi erindi á „a heart high-sorrowful and cloy'd, / A burning forehead, and a parching tongue“. Einnig hér er orðalag skáldsins óvænt og ég er enn hugsandi (síðan í júní) yfir þessu þvala hjarta og há-sorgarfulla (einhver hefði látið sorgarfullt nægja en Keats kemur á óvart í nánast hverju orði).

Þó að Jónas okkar sé snjall eins og margir fræðimenn hafa sýnt fram á og enginn fremur en Svava heitin í sinni merku bók, Skyggnst á bak við ský, sem ég var svo gæfusamur að lesa fyrir hana í handriti, þá er ég ekki fjarri því að Keats sé enn snjallari en listaskáldið góða, jafnvel á 25. ári og að óðurinn til gríska kersins geymi efni í eina bók eða margar fyrir þann sem hefði snilld til að sjá allt það sem þar er að finna. Í sumar las ég það sem áður greindi ásamt þremur snjöllum skáldum og við námum staðar í fimmta erindi við „As doth eternity: Cold Pastoral!“ og ekki síst upphrópunarmerkið, tjákn sinna tíma. Hjarðljóðið er yfirleitt ekki sagt vera kalt og eilífiðin ekki heldur ávarpar skáldið án skýringa kalt hjarðljóð, og það með upphrópunarmerki sem enskukennarinn minn í fyrsta bekk í MS (Gerður hét sú) sagði að merkti „wow“ og ég hef þar af leiðandi notað sparlega síðan uns ég varð gamall kjáni. En þetta skilur Keats okkur eftir með, aðeins 23 ára gamall tappi sem kunni víst ekki einu sinni grísku, sagði Anne Carson mér. Fyrir okkur er ljóð hans stutta hugsanlega það sem kerið var honum, ógreið leið yfir í annan heim.

Previous
Previous

Samúð með tröllinu

Next
Next

Friðþæging fyrir útrýmingu