Samúð með tröllinu

Það tók mig nokkrar atrennur að horfa á sjónvarpsþættina Baby Reindeer á Netflix vegna þess að umfjöllunarefnið er óþægilegt fyrir okkur sem höfum lent í því að fá mýgrút af óumbeðnum skilaboðum og tölvupóstum frá manneskju sem hefur aðra sýn á veruleikann en maður sjálfur og í kjölfarið lent í umsátri heima og á vinnustað og jafnvel erlendis. Flestallir á mínum aldri urðu raunar líka fyrir kynferðislegri áreitni á böllum og skemmtistöðum á öldinni sem leið vel fyrir daga snjalltækja og var það vissulega óþægilegt á sínum tíma en enginn undirbúningur fyrir öld farsímanna og tölvupóstsins þegar hægt er að ná til manns hvar og hvenær sem er og meðal annars ryðjast í friðhelgustu staðina eins og símann manns. Sumt fólk sem ég þekki skilur ekki hversu prívat farsíminn er; mín regla er að enginn megi snerta hann sem ég væri ekki tilbúinn að kyssa rennblautum kossi enda hvorttveggja svipað frá sóttvarnasjónarmiði – já ég er eini Íslendingurinn sem ætla ekki að gleyma öllu sem ég lærði í covid.

Að sögn er efni þáttanna byggt á sannri sögu þó að fært sé í stílinn og sannarlega gerast svona hlutir. Aðalpersónan er barþjónninn og grínistinn Donnie Dunn og ég verð að játa að ég lét pirra mig smá hversu hræðilega ófyndið grín hans er. Hann kynnist hressri konu sem reynist vera eltihrellir og hefði átt að taka strax eftir tryllingslegum hlátri hennar (ég get vottað að svona fólk kemur sér iðulega upp ýktum og ögn ískyggilegum hlátri). Síðar kemur í ljós að hann hefur löngu fyrr lent í klóm róhypnolnauðgara, eldri manns sem hann bar virðingu fyrir og sagðist ætla að hjálpa honum að slá í gegn, sem skýrir hversu erfitt hann á með að verjast konunni ágengu; sjálfstraustið var horfið fyrir löngu. Þó að þetta sé auðvitað aðeins ein saga eins manns fór það líka smá í taugarnar á mér hve skrítinn Donnie er þannig að fólk sem ekkert veit gæti freistast til að ákveða að það sé sérstök fórnarlambsára yfir þeim sem eltihrellar beina sjónum að. Hið rétta er að hver sem er getur lent í slíku og ég þekki ýmsa allsendis óskrýtna sem það hefur hent. Ég hef kynnst ýmsu fólki sem var misnotað á þennan hátt og var ósköp venjulegt, sumir kannski empatískir yfir meðallagi en aðrir ekki einu sinni það. Á hinn bóginn var árás konunnar á Donnie næstum óhugnanlega kunnugleg og viðbrögð löggunnar eru líka trúverðug a.m.k. eins og staðan var fyrir 15 árum; hún gerir lítið sem ekkert nema ágengi aðilinn asnist til að hóta beinlínis (eins og minn gerði að lokum).

Í gamla daga var áreiti á böllum talið eðlilegt en núna fara netdólgar sínu fram í staðinn og meðvirkni með þeim mikil. Konugreyið í þættinum er ekki í þeim hópi en Donnie of veikgeðja og kannski stuðningslaus til að geta tæklað hana. Hann kennir sér sjálfum um allt eins og sennilega allir í svipaðri stöðu. Eins og allir nema helst fallega fólkið hefur hann auðvitað sjálfur einhverntíma haft áhuga á annarri manneskju sem ekki var endurgoldinn og empatískt fólk sér skýrt hliðstæðuna milli ofsækjanda síns og eigin misheppnuðu tilrauna til að kynnast öðrum þó að umfangið sé allsendis ólíkt. Ef til vill vantar þáttinn manneskjuna sem svarar Donnie, bendir honum á sakleysi sitt og stappar stálinu í hann því að í raun er hann í þessum sakbitna fasa allan tímann og jafnvel þegar ofsækjandi hans er að lokum dæmd (sem er sjaldgæft en hegðun hennar er líka mjög ýkt) er hann enn þrunginn af sektarkennd þó að honum takist að bjarga mikilvægustu samböndunum í lífi sínu. Kannski er boðskapurinn sá að sigur á þeim sem áreita sé ekki mögulegur og ég kaupi það alveg.

Við kynnumst aldrei hlið konunnar nema frá sjónarhorni Donnie. Hún er eins konar skrímsl en þó ekki, við vitum í raun fátt um hana annað en að hún hirðir ekki um að nota prentvillupúka við að semja skilaboð sín. Auðvitað er hún líka bara manneskja en hefur engan skilning á líðan annarra og væri sennilega nauðgari ef hún gæti sem ég held að eigi við um flesta eltihrella.

Previous
Previous

Ungt par með leyndarmál

Next
Next

Tómt þorp