Ungt par með leyndarmál

Í fyrra skrifaði ég lengi og rækilega um kvikmyndina Rope (1948) eftir Alfred Hitchcock sem ég var þá að kynna mér enn betur en ég vil þó alls ekki skapa þá fölsku hugmynd að ég horfi ekki reglulega á þessa mynd og fái þá stöðugt nýjar hugdettur. Einn vinur minn hafði sem sé suðað lengi um að horfa á hana með mér þar sem hann er frá sama bæ og Cedric Hardwicke (Stourbridge í Dudley eigi fjarri borginni Birmingham) sem leikur bókasafnarann í myndinni og við náðum góðum bíósunnudegi á einum lengsta degi ársins. Það er heilmikið stöff í greininni frá í fyrra og ég mun því einkum halda mig við það sem ég sleppti að segja þar. Hér verður því ekkert minnst á tæknilegan frumleika myndarinnar og enn síður á þá félagana Leopold og Loeb eða ádeilu á Nietzscheisma enda er það aðeins yfirborð myndarinnar. Hins vegar má geta þess að mörgum finnst hún enn afar spennandi þó að í upphafi komi fram hver sé myrtur og hvers vegna. Spennan felst nánast eingöngu í persónusköpuninni, þ.e. hvort önnur aðalpersónan muni drekka svo mikið að hún kjaftar frá eða hvort ofmetnaður hinnar muni koma honum í koll. Ég ætla ekki að tala um sjálft reipið heldur en morðingjar voru hengdir í Englandi þegar leikritið var samið (og vitaskuld í snöru) og augljóslega voma þau örlög yfir ungu mönnunum tveimur að dansa í reipisenda á efsta degi og myndin vísar til þess mögulega dauðdaga aftur og aftur.

Sígarettan, kistillinn og rúmið: Eftir að Brandon (John Dall) og Philip (Farley Granger) hafa myrt hinn ríka og ómerkilega David er fyrsta verk þeirra að kveikja sér í sígarettu og opna kampavínsflösku eftir að hafa strokið fallískan stút hennar um hríð. Táknmálið snýst allt um kynlíf, morðið er greinilega ígildi samfara ungu mannanna og kistillinn sem líkið er geymt í er ígildi „skápsins“ sem lengi var notaður til að lemja á öfuguggum. Kannski er þessi kistill betri myndhverfing þar sem hann stendur úti á miðju gólfi og það ljóta sem þeir Brandon og Philip hafa gert saman liggur í honum bíðandi eftir að upp komist um þá. Í íbúðinni virðist aðeins vera eitt svefnherbergi og þó að húshjálpin frú Wilson láti stundum eins og þau séu tvö minnist hún líka á að Philip hafi farið „öfugum megin úr rúminu“ þennan morgun. Í ljósi alls þessa táknmáls er kannski lítið afrek að bera kennsl á kynósa undirtexta myndarinnar en þó er hann ekki aðeins viðfangsefni nýlegra greina heldur er honum líka reglulega mótmælt, sumir vilja ekki viðurkenna að Philip og Brandon séu einkum vondir strákir af því að þeir hafi verið að ríða (hvor öðrum) fremur en myrða skólafélaga vegna misskilnings á orðum kennara síns (sem er nokkuð augljóslega að grínast í sínum réttlætingum á morðum). En hvorttveggja er jafn gott þegar kemur að átökum myndarinnar sem snúast ekki um verknað piltanna eða eðli glæpsins heldur ótta þeirra við að vera afhjúpaðir — myndin fjallar sem sagt um afhjúpunina fremur en glæpinn. Afhjúpunin verður ekki fyrr en í lokin en hennar er vænst alla myndina og hún er jafn hræðileg sama hver glæpurinn er.

„Hann varð linur“ og kjúklingakyrking: Kynlífsmyndmálið hefst nánast í fyrstu setningu myndarinnar þegar Brandon og Philip tala um að hinn myrti David hafi orðið „linur“ í höndum þeirra áður en þeir fá sér fallíska sígarettu og veifa kampavínsflösku framan í okkur áhorfendur. Það er Philip sem nær tappanum að lokum úr henni og síðar kemur fram að hann er sérfræðingur í að „kyrkja kjúklinginn“ sem hljóma næstum eins og léleg skrauthvörf — og viti menn, það er einmitt stundum rætt um að „kæfa kjúklinginn“ sem er þá það áður ónefnda líffæri karlkynsins sem stundum er lint og stundum hart. Í nútímalegu áramótaskaupi gæti þetta verið hræðilega aulalegur brandari en í rafmagnaðri spennu eftirstríðsáranna (með dólginn McCarthy vokandi skammt undan) þar sem alls ekki má minnast á í hverju hugsanlegt samband Philips og Brandon felst verður kjúklingakyrkingin þvert á móti bæði óhugnanleg og auðvitað hræðileg sem enn eitt umræðuefni sem fær Philip til að panika. Um leið minnir okkur auðvitað á að það voru hendur hans sem frömdu verknaðinn.

Hendurnar og krabbamerkið: Hendur Philips eru raunar mikið ræddar í myndinni (held að ég hafi hugsanlega rætt það í drasl í fyrra) enda er hann píanóleikari og í krabbamerkinu eins og ég. Við krabbar erum oft sagðir veiklyndir og viðkvæmir og eiginlega allir sem sjá myndina halda með Philip, finnst slæm samviska hans sem hann reynir í kjölfarið að drekkja í áfengi ívið aðgengilegri en frekar heimskulegur hroki Brandons og fjölmargir áhorfendur hafa líka skilgreint Philip sem „veikan“ eða „botninn“ í sambandinu eftir að óhætt varð að ræða það (hugsanlega er að finna vísun í þetta í myndinni Saltburn sem ég ræði hér en ein persóna í henni sem virðist líka vera „botn“ er raunar nafni leikarans Farley Granger) en hinn roggni Brandon þá augljóslega „toppurinn“ eða „ráðandinn“ (eða „domminn“, þó að það breytist þegar hann hittir Rupert sem hann er feiminn við og mun auðsveipari andspænis honum en Philip). Samt fer maður að uppgötva við endurtekið áhorf að líkt og aðrir krabbar er Philip í neyð talsvert árásargjarn eins og ýmsar aðrar byttur og þar að auki skelfingu lostinn en þá geta krabbar farið að verja sig með klónum eins og Philip gerir. Líklega væri ég hræddari við hann í raunheiminum en hugmyndafræðinginn Brandon sem talar og talar og talar en virðist stundum lítið annað en eigið orðagjálfur.

Faggamöggur: Ég þekki ekkert íslenskt heiti yfir konur sem elska fagga (þó að þær séu legio) og bjó því til eitt slíkt (sem ykkur er velkomið að nota héðan í frá) en tvær eða jafnvel þrjár slíkar eru í myndinni. Ein hefur beinlínis verið kærasta Brandons áður en hún tók saman við hinn myrta (og Brandon þá við Philip), önnur er hin móðurlega húshjálp sem þykir augljóslega mjög vænt um drengina báða og sú þriðja er hin skrautlega frú Atwater sem er næstum því eins og dragdrottning (einhver þyrfti að taka hana í „snatch game“ hjá RuPaul) og eitt fallegasta en um leið hræðilegasta augnablik myndarinnar er þegar hún fer að skoða hendur Philips en minnir hann þá vitaskuld á voðaverkið, veitir þá Farley Granger enn eitt tækifæri til að setja upp hrjáða og hrædda svipinn sem er aðalsmerki hans í myndinni og kannski það sem maður man best enda Farley eftirminnilegur leikari. Hans er víða getið á þessum síðum og nú hefur hann eignast nýjan aðdáanda í félaga mínum frá Stourbridge.

Previous
Previous

Allsherjargumi

Next
Next

Samúð með tröllinu