Allsherjargumi

Einn þjóðfundarmanna 1851 var Loftur Jónsson frá Vestmannaeyjum og þó ekki því að hann mætti aldrei á þjóðfundinn þar sem fimm af sex kjósendum hans drógu atkvæði sitt til baka fyrir fundinn á þeim forsendum að Loftur hefði síðan orðið uppvís að mormónatrú. Meðal annarra þjóðfundarmanna var séra Sigurður Gunnarsson (1812–1878) og hann mætti á fundinn. Sigurður setti einnig saman stutta sjálfsævisögu sína og hún er gefin út ásamt fjölmörgu öðru fróðlegu efni í nýlegu riti Hjörleifs Guttormssonar, Í spor Sigurðar Gunnarssonar sem hefur undirtitilinn Prestur og prófastur, landkönnuður, náttúrufræðingur, kennari, læknir, rithöfundur og alþingismaður. Greinilega var séra Sigurður sannur „homo universalis“ eða allsherjargumi og það þarf eiginlega ekki frekari rök til að kaupa bókina sem geymir hundrað blaðsíður af frumgögnum úr fórum Sigurðar sem varpa ljósi á manninn en líka rækilega greinargerð Hjörleifs fyrir öllum hliðum þessa fjölbreytta manns.

Eins og einhverjir aðrir hef ég lengi vitað að Sigurður Gunnarsson var til en ekki vitað svo ýkjamargt fleira um hann og verður eðlilega hugsað til mín eigin forföður séra Guðmundar Einarssonar sem var uppi á svipuðum tíma og sat á þjóðfundinum ásamt Sigurði. Saga Sigurðar er líka saga Austurlands og Sunn-Mýlinga um miðja 19. öld. Sigurður kom víða við bæði bókstaflega og í menningarlegu tilliti og tengdist svo mörgu stórmenni að saga hans getur auðveldlega orðið spegill á stærra efni. Hann var kannski ekki Jónas Hallgrímsson eða Jón Árnason en þó að einhverju leyti þeim svipaður og er uppi á tímum sem læknum er lítt til að dreifa og presturinn tekur eðlilega að sér viðameira hlutverk sem helsti menntamaður héraðsins.

Ritið er feykilega vandað með öllum hugsanlegum tilvísunum, skýringum og skrám, virkilegt afreksverk hjá Hjörleifi og öllum sem þátt áttu að máli. Undirritaður er einn áskrifenda og sér ekki eftir því.

Previous
Previous

Að deila og drottna

Next
Next

Ungt par með leyndarmál