Að deila og drottna
Í júlíbyrjun sá ég kvikmyndina Lífvörðurinn (Yojimbo) sem er ein af þekktari kvikmyndum meistara Akira Kurosawa. Eins og glöggir lesendur muna hef ég séð fleiri Kurosawa-myndir nýlega en á samt nokkrar mikilvægar eftir og hyggst bæta úr því áður en langt um líður; maður þarf alls ekki að hætta að menntast um þrítugt. Aðalpersóna myndarinnar er vígamaður (ronin) einn sem flakkar um japanskar sveitir á 19. öld og kemur í bæ sem er undirlagður af tveimur glæpaflokkum sem berjast um völdin og mergsjúga íbúana. Þeim er stjórnað af glæpaforingjunum Ushitora og Seibei. Sá síðarnefndi er undir hæl fremur djöfullegrar eiginkonu, sem minnir á að Kurosawa hafði skömmu áður kvikmyndað Makbeð eftirminnilega, en sá fyrrnefndi er jafnvel enn hættulegri og eins illskeyttir bræður hans, hinn snjalli Unosuke og hinn treggáfaði Inokichi. Flestir glæpamennirnir í þorpinu eru þó hálfgerðir vesalingar og aðkomumaðurinn óttast þá ekki en þarf þó að hafa sig allan við til að mega við margnum. Þessi aðkomumaður er vitaskuld leikinn af sjálfum Toshiro Mifune sem hefur einstaklega sterka nærveru sem leikari og hægt að una sér lengi við að horfa á andlit hans, jafnvel þegar hann er orðinn draugslegur eftir pyntingar andstæðinga sinna.
Mifune-persónan, hörð en brothætt, þögul en léttlynd, fellur vel að naumhyggjufagurfræði meistarans sem lætur myndina tala en kann líka flestum betur að segja sögu á tveimur tímum þannig að ekki er mínútu ofaukið. Í upphafi myndar gengur Mifune inn í rammann en snýr baki við áhorfendum í lokin og kveður snögglega með sömu axlateygju og í upphafi. Líkt og aðrar myndir Kurosawa er Yojimbo í einstaklega liprum takti þannig að áhorfandinn er spenntur frá upphafi til enda. Söguþráðurinn er vitaskuld afar kunnuglegur fyrir alla sem hafa séð endurgerð myndarinnar, A Fistful of Dollars (1964) sem gerði þá Sergio Leone og Clint Eastwood fræga. En Kurosawa er ekki aðeins sagnamaður heldur einstakt sagnaskáld og málari í einum kvikmyndaleikstjóra. Fagmannleg og ígrunduð notkun þessa japanska listamanns á myndarammanum er sem fyrr einstök eins og má m.a. sjá að ofan og tónlist myndarinnar (eftir Masaru Sato) vísar í hefðina en með skýrum 20. aldar einkennum, ögn djössuð og kemur á óvart miðað við fornlegt sögusviðið. Í fyrstu virðist aðkomumaðurinn hafa nokkra yfirburði yfir heimsku glæpamennina en síðan kemur hinn ungi Unosuke í bæinn, leikinn af Tatsuya Nakadai sem síðar tók við af Mifune sem helsta stjarna Kurosawa. Í myndinni fer Susumu Fujita líka með smáhlutverk; hann hafði áður verið lykilleikari meistarans en hverfur úr myndinni snemma með því að stökkva yfir grindverk og er það atriði afar táknrænt, þegar Fujita á útleið heilsar Mifune sem er hin nýja stjarnan (sjá myndina í greinarlok). Fleiri leikarar eru kunnuglegir, ekki síst hinn þrifalegi Daisuke Kato sem leikur brenglaða bróðurinn.
Líkt og Hitchcock leyfir Kurosawa sér talsverða fyndni í myndum sínum og Yojimbo er ívið fyndnari en flestir vestrar, m.a. endurgerð Leone. Auðvitað var Kurosawa undir áhrifum frá Bandaríkjunum og meðal annars vestrunum sem hann hefur síðan áhrif á til baka. Bardagasenurnar eru magnaðar, yfirleitt stuttar og snarpar en með langan og óþægilega spennandi undanfara. Kurosawa er líka að vinna með hefðbundna japanska menningu og meðal annars þjóðsögur en auk heldur er iðulega dulinn nútímalegri pólitískur broddur í verkum hans. Í Yojimbo eru það smákaupmennirnir sem eru helstu stuðningsmenn hetjunnar en þeir ríku hafa látið spillast af glæpamönnunum og eins laganna vörður bæjarins sem er kómísk persóna. Kurosawa vinnur mörg sín helstu verk eftir stríðið og því þarf ekki að koma á óvart að hann sé gagnrýninn á valdamenn; hið nýja Japan eftir 1945 tók þannig skýra afstöðu gegn keisaraveldinu forna og öfgahernaðarhyggju.
Inni í myndinni er lítil krúttleg og kómísk saga um bóndason sem yfirgefur leiðindi foreldra sinna (svolítið eins og Logi Geimgengill) til að slást í hóp glæpamannanna. Sá náungi sést síðan lítið fyrr en í lokin þegar hann er einn þeirra þrjóta sem mæta vígamanninum í lokaeinvíginu á aðalgötunni og fer þá að ýlfra eins og þjófavarnarflauta af ótta við samúrajann sem aumkar sig yfir hann (eða sennilega öllu heldur foreldrana) og sendir hann heim í grautinn til mömmu. Skömmu síðar hefur bardagamaðurinn lokið verki sínu í þorpinu og skilur það eftir, raunar sem rjúkandi rúst en þó bófalaust í bili, hafandi sýnt að með slægðinni má einn við margnum sem síðan hefur verið flétta ýmissa þekktra hasarmynda.