Ólíklegur Samverji
Gena Rowlands andaðist nýlega, 94 ára að aldri. Sennilega þekkja fáir Íslendingar hana fyrir utan æstustu kvikmyndaaðdáendur en hún var afar virt leikkona í heimalandinu Bandaríkjunum áratugum saman og þar sem símenntun mín er í fullum gangi ákvað ég að heiðra minningu hennar og þefa uppi kvikmyndina Gloria sem flestir telja eina af hennar bestu. Um myndina vissi ég ekkert og því kom fyrsta korterið mér mjög á óvart. Eftir raunsæislegt upphafsatriði þar sem New York fyrri daga (um 1980) er sýnd í öllum sínum andstæðum erum við kynnt fyrir fjölskyldu sem óttast um líf sitt eftir að hafa séð glæpona í stigaganginum og grípa til þeirra örþirfaráða að afhenda yngra barn sitt (því að eldra barnið neitar að koma og lokar sig inni í banvænu fýlukasti) roskinni nágrannakonu sem hatar börn og er leikin af Genu. Skömmu síðar eru allar aðrar persónur sem við höfum séð þetta fyrsta korter myndarinnar látnar en kellan og stráksi í felum; þetta er ekki ósvipuð flétta og í kvikmyndinni Leon (1994) með Natalie Portman og Jean Reno. Eini munurinn er að í þessu tilviki eru morðingjarnir ekki áhugaverðir og strákurinn ekki jafn augljós aðalpersóna og Natalie var. Eldri konan og barnið eru sannarlega ólíkt par og alls engar staðalmyndir. Þó að Gloria sé hrjúf kella vakti leikur Genu Rowlands talsverða jákvæða athygli á sínum tíma en drengurinn Phil þótti hins vegar alveg óþolandi (ekki síst röddin) og hinn sjö ára Juan Adames fékk alls konar skammarverðlaun gagnrýnenda. Ég er þó ekki frá því að það sé einmitt það hversu lítið krútt drengurinn reynist vera sem gerir myndina góða og Leon kannski ívið billegri í samanburðinum þó að báðar séu bæði spennandi og stundum hjartnæmar.
Gloria veit ekkert hvað hún á að gera við strákinn óþolandi sem er ekki einu sinni klæddur eins og barn heldur fremur líkt og John Travolta í Laugardagsfiðringnum (jafnvel þegar kemur að nærbrókum hans sem þættu sennilega afar djarfar núna en ég man vel eftir 8. áratugnum og því að þetta var bara svona) en eftir að Gloria sér að það er búið að fjöldamyrða nágrannana tekur hún snögga ákvörðun — ég fíla fólk sem er snöggt að taka ákvarðanir í myndum næstum jafn mikið og ég þoli ekki fólk sem tekur hálftíma að panta matinn á veitingastað af því að það getur ekki gert tvennt í einu — um að flýja blokkina með strákinn og kemst burt á elleftu stundu áður en þungvopnuð löggan kemur en auðvitað tekur fjölmiðlafífl eitt mynd af þeim á flótta og sigar morðvörgunum þar með á hana. Pabbinn dauði hefur plantað því sem hann kallar „biblíu“ á drenginn en síðan kemur í ljós að það er bók með mikilvægum upplýsingum sem koma ófáum mafíósum í bobba og þar sem enginn vill vera í bobba eru téðir glæponar nú á hælum þeirra beggja. Helstu andstæðingar Gloriu í myndinni eru þessir ónefndu bófar sem eru fremur eins og rándýraflokkur en persónur en virðast þó furðu kunnugir Gloriu. Einn þeirra sker sig úr (sjá mynd að neðan) en við fréttum aldrei nafn hans. Þá eru svikulu börnin (enn neðar) líka eftirminnileg.
Síðar kemur í ljós að Gloria á sér fortíð sem hjákona stórglæpons og henni er ekki fisjað saman sem er líklega eins gott því að ítrekað þarf hún að ógna bandíttunum með byssu elt af þessu fáránlega barni í ofurskrautlegri fullorðinsskyrtu sinni. Þetta gerir hún að því er virðist eingöngu vegna þess að hún hefur heitið nágrannakonunni að hjálpa stráknum þó að hana langi ekkert til þess, líki ekki við krakkann fyrst í stað og sé gömul og feit að eigin sögn (samt í býsna góðu formi og yngri en ég). Hún er ekki manneskja sem talar stöðugt um að gera hið rétta eins og íslensku sjálfsauglýsingargóðmennin sem skrifa greinar í blöðin um eigið ágæti heldur gerir það hreinlega þegar hún stendur frammi fyrir vali og jafnvel þegar strákurinn kemur sér í vandræði af eigin heimsku en kannski er þá ívið betra fyrir söguna að strákurinn sé ekkert mjög heillandi; þá skilur maður enn betur að það er prinsipið sem skiptir máli. Svo finnst mér Adames litli reyndar venjast ágætlega þó að sumar samræður þeirra gætu virkað ansi steiktar fyrir fólk sem ekki var beinlínis uppi á þessum tíma. Kannski þótti leikarinn kornungi fyrst og fremst óþolandi vegna þess að hann talar með stækum Puerto Rico hreim sem allir gagnrýnendurnir litu niður á og hugsanlega var stétta- og kynþáttabragur á viðbrögðunum við leik stráksins.
Eiginlega er kraftaverki líkast að þessari útsjónarsömu konu sem á einu spennuhlöðnu augnabliki vitnar óbeint í Auði Vésteinsdóttur úr Gísla sögu Súrssonar takist ítrekað að hafa betur í samskiptum við allt glæpagengið á hælum hennar þó að það sé líka ferskt að andstæðingarnir í spennumynd hafi ekki nánast yfirnáttúrulega hæfileika og séu fjarri því að vera gersamlega ósigrandi fram á lokamínútuna. Að einhverju leyti sleppur Gloria frá þeim vegna skynsemi og fyrri reynslu af glæpamönnum en hins vegar er líka augljóst að tilviljanir og heppni eiga þátt í farsælum endi myndarinnar þegar Gloriu og Phil hefur báðum tekist að sleppa frá New York til Pennsylvaniu. Það er yfirborðsferðalagið í myndinni en maður hefur sterklega á tilfinningunni að Gloria og jafnvel Phil séu líka á öðru innra ferðalagi hvort í átt að hinu sem skipti ef til vill meira máli. Hvað um það er myndin sérkennilega fersk eins og margar kvikmyndir frá 1971-1980 sem ég hef kynnt mér eftir að ég setti upp þessa síðu; kannski var það ekki fyrr en eftir það að ruglið og peningarnir tóku öll völd.