Misskilinn heimsleiðtogi

Mig hefur lengi dreymt um að semja söngleik um rómverska keisarann Elagabalus (203–222) sem hefur lengi verið talinn einn versti og misheppnaðasti keisari Rómaveldis (raunar er ég þegar farinn að bera víurnar í efnilegt tónskáld og leggja drög að 19 helstu tónlistaratriðunum). Elagabalus hét réttu nafni Sextus Avitus Bassianus og varð Rómarkeisari og valdamesti maður heimsins aðeins 14 ára en var síðan settur af og myrtur aðeins 18 ára þar sem einkalífvörðurinn vildi heldur frænda hans Alexander Severus og þótti hann vesenlausari. Amma þeirra beggja var Júlía Maesa sem var systir Júlíu Domnu fyrrum keisaraynju Rómar — það eru allmargar Júlíur í þessari sögu. Báðir voru þessir táningar þannig venslaðir Septimiusi Severusi herforingja sem tók völdin í Róm þegar tímaskeiði góðu keisaranna (96–180) var endanlega lokið og sonur þess hinsta, Commodus, hafði verið kyrktur í baði af glímufélaga sínum á gamlársdag eftir margra ára ógnarstjórn. Ekki tók betra við eftir lát Septimiusar árið 211 sem var ógnarstjórn sonar hans Caracalla og eftir morð, valdatafl og fleiri morð stóð Júlía Maesa fyrir uppreisn og í kjölfarið voru Júlía Bassiana og táningssonur hennar sótt til Sýrlands og litli Avitus varð keisari, upphaflega undir heitinu Marcus Aurelius Antoninus. Helsta heimild um ríki hans er sagnaritið Rhōmaïkḕ Historía eftir Cassius Dio sem var samtíðarmaður þeirra langmæðgina en álíka hlutdrægur og hneykslunargjarn og Heimildin og söngleikurinn minn myndi ganga út frá að honum sé ekki treystandi fremur en því hræsnisfulla smáborgarablaði.

Drjúgur hluti áróðurs 3. og 4. aldar gegn Elagabalus snýst um lítilsvirðingu hans á fornri trú Rómverja og fylgispekt hans við austræna guðinn Elagabalus sem hann reyndi að troða upp á Rómarlýð enda var strákurinn frá bernsku hofprestur hans og var eftir andlátið þekktur undir nafni guðs síns. Þá giftist hann fjórum konum en sagðist líka sjálfur stundum vera kona og átti fjölmarga ástmenn, einkum afreksíþróttamenn, sem fóru með keisarann eins og gleðikonu á almannafæri og þótti sagnariturum það undarlegt blæti. Auk heldur þótti ungi keisarinn sérvitur mjög að ýmsu öðru leyti en kjarni óvinsælda hans var samt að hann kom frá Austurlöndum, boðaði nýja trú og var auk heldur upp á karlhöndina. Í stuttu máli er Elagabalus óvinsæll vegna rasisma og hómófóbíu sem söngleikurinn minn myndi að sjálfsögðu taka skýra afstöðu gegn. Elagabalus var hörgabrjótur og andstæðingar hans voru gamlir fauskar og hefðarsinnar sem voru t.d. andvígir því að konur fengja að taka þátt í fundum öldungaráðsins — sem Elagabalus hafði leyft af framsýni sinni. Elagabalus lýsti líka andstöðu við hernað og vegtyllur hermanna úr stríðum og líkaði þeim það harla illa sem haldnir eru hermannablæti.

Elagabalus varð líklega einna alræmdastur fyrir hrekkjabrögð sín sem benda sannarlega til að hann hafi aðallega hegðað sér eins og unglingar hafa alltaf hneigst til. Ég man vel eftir ýmsu sem mínum aldri þótti fyndið á 9. áratugnum en hefði ekki glatt rómversku hirðina á 3. öld og get varla ímyndað mér hvernig Elagabalus hefði hegðað sér ef síminn hefði t.d. verið til og hann hefði komist í að gera símaat. Líklega gætu þessir hrekkir verið áberandi í söngleiknum og við tónskáldið leyft okkur að vera skapandi. Margir þeirra gengu út á að hræða hirðmenn með tömdum villidýrum og hlæja svo dátt að ótta þeirra. Gestir keisarans unga gátu átt á hættu að ljón eða hlébarði birtist í gættinni á herbergi þeirra að nóttu til og sagt var að sumir þeirra hefðu dáið úr hræðslu. Greinilega er hér um ýkjur að ræða og söngleikurinn mun fjalla af meiri gætni um dýravininn Elagabalus.

Að lokum var Elagabalus myrtur ásamt móður sinni og allsberu líki keisarans unga var fleygt í Tíber eftir að hafa verið dregið um alla borg honum til háðungar. Þetta eru auðvitað nöturleg endalok sem söngleikurinn þarf að taka á (í amerískum uppfærslum verður líkið augljóslega klætt) en ég tel að draugur Elagabalusar eigi að snúa aftur í lok söngleiksins og velta fyrir sér eigin örlögum. Kannski gæti það atriði heitið „Ég var misskilinn“ eða eitthvað á þá leið. Hvað um það er hugmyndavinnan hafin og tími kominn til að kynna heiminn fyrir þessum friðsama, kvenlega, austræna og hláturmilda sóldýrkanda sem samfélagsmiðlahetjur, fjölmiðlamenn og stjórnmálafræðingar síns tíma fíluðu að vísu ekki, en hafa þeir ekki alltaf rangt fyrir sér, flónin þau?

Previous
Previous

Jón Árnason á Ítalíu og í Langholti

Next
Next

Ólíklegur Samverji