Jón Árnason á Ítalíu og í Langholti

Nýlega kom út mikið rit eftir ítalska fræðimanninn og Íslandsvininn Roberto Luigi Pagani þar sem finna má íslenskar þjóðsögur sem safnað var á 19. öld og umfjöllun um þær. Þetta er fjarska glæsileg bók og þó að undirritaður sé ekki svo heppinn að kunna ítölsku hef ég eytt nokkrum tíma í að fletta henni og skoða. Roberto Pagani er öllum sem stunda íslensk fræði að góðu kunnur, hafandi stundað doktorsnám í handritafræðum seinni ár en jafnframt verið ötull í landkynningu og góður sendiherra Íslands og íslenskunnar á alþjóðavettvangi þó að hann búi hér á landi. Nýlega kom út hvalkynjað ítalskt rit um sögu norrænna bókmennta, þar á meðal íslenskra. Með þessari nýju þjóðsagnaútgáfu má segja að stigið sé enn eitt skref til að tengja löndin tvö saman en sá er þetta ritar getur staðfest að það er mikill áhugi á íslenskum bókmenntum í Ítalíu þessa dagana og fjöldi Ítala að útskrifast með próf í norrænum fræðum.

Svo skemmtilega vildi til að í sömu viku og mér barst hin mikla glænýja bók Robertos eignaðist ég tvær alþýðuútgáfur af Þjóðsögum Jóns Árnasonar en fyrir átti ég þær í 19. aldar frumútgáfunni og sex binda útgáfunni glæsilegu frá 6. áratug síðustu aldar. Mig dreymdi þó um að eignast alþýðuútgáfuna líka þar sem ég hef fengið aukinn útgáfu á alþýðaútgáfum og menningarmiðlun þeirra hin seinni ár. Alþýðuútgáfurnar á Jóni eru gefnar út undir öðrum heitum, s.s. útilegumannasögur, galdrasögur og tröllasögur. Um daginn eignaðist ég 1924-gerðina af þessum texta sem búið er að binda í þrjár nettar en glæsilegar bækur.

En ég eignaðist einnig endurútgáfuna frá 1970–1975 með myndum eftir Halldór Pétursson heitinn, eina helstu menningarhetju bernsku minnar. Aldrei átti ég þessar bækur en þær voru til í Langholtsskóla og ég plægði mig reglulega gegnum þær, milli þess sem ég las Afburðamenn og örlagavalda eða Íslendingasögurnar í útgáfu Vésteins Ólasonar og Gríms M. Helgasonar sem ég man aðallega eftir úr Sólheimasafni. Í þeim (eða var það önnur útgáfa?) voru myndir eftir ýmsa listamenn sem rifjast reglulega upp fyrir mér. Ekki veit ég hvort mín kynslóð færði sér þessi rit almennt í nyt eða hvort það vorum bara við en sannarlega áttu þau sinn þátt í mínu menningaruppeldi og vöktu ævilangan áhuga á íslenskum bókmenntum og listum.

Previous
Previous

Þaulkunnugur gatinu

Next
Next

Misskilinn heimsleiðtogi